Börn á biðlista

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Fuglarnir eru teknir að hópa sig, berin eru þroskuð og fjöldi barna í Reykjavík er á biðlista eftir því að fá þá þjónustu sem foreldrar þeirra völdu fyrir þau. Það er nefnilega þannig að líkt er og það sé náttúrulögmál að ekki takist að manna frístundaheimili Reykjavíkurborgar áður en skólastarf byrjar með tilheyrandi raski fyrir fjölda foreldra og barna.

Þjónustuborg

Reykjavíkurborg er í mikilli samkeppni við nágrannasveitafélögin, þar er gríðarleg uppbygging og vöxtur margra þeirra er ævintýralegur. Því miður gilda ekki sömu lögmál um Reykjavík og vöxtur sveitarfélagsins er langt frá því að vera í líkingu við það sem er að gerast í sveitarfélögunum í kringum okkur. Þangað er að flytjast ungt fólk, ungt fólk sem metur kosti þjónustu. Ungt fólk sem vill kaupa sér húsnæði þar sem þjónustan er góð. Það er ekki og verður aldrei góð þjónusta að börn séu á biðlista. Það að endalausu álagi sé varpað á barnafjölskyldur í Reykjavík er ekki góð þjónusta. Meirihlutinn í Reykjavík verður að fara að átta sig á því að við erum í samkeppni um íbúana. Ef Reykjavíkurborg skarar ekki fram úr í þjónustu við barnafjölskyldur þá flytur fólk einfaldlega í önnur sveitarfélög.

Skipulagsleysi

Það er merkilegt að horfa á atvinnuleysistölur sem eru himinháar miðað við undanfarin ár og heyra að ekki sé búið að manna í allar stöður á frístundaheimilum, skólum eða leikskólum. Það hlýtur að vera hægt að skipuleggja skólastarf í Reykjavíkurborg með þeim hætti að það sé byrjað að huga að ráðningu starfsfólks fyrr þannig að foreldrar ungra barna geti treyst því að þeir fái þá þjónustu sem þeir hafa óskað eftir að kaupa fyrir börn sín.

Foreldrar ungra barna hafa gengið í gegnum miklar hremmingar þetta árið verkföll í Reykjavík voru lengri en í öðrum sveitarfélögum, einn leikskóli náði ekki að opna á réttum tíma eftir sumarleyfi og því var lokað þar viku lengur en til stóð þetta hafði áhrif á 160 börn. Búið er að skerða opnunartíma leikskóla Reykjavíkur vegna COVID sem allir loka núna klukkan 16:30. Síðan er fjöldI barna á biðlista vegna þess að ekki hefur tekist að manna frístundaheimili Reykjavíkurborgar. Allt þetta hefur verið að bitna illa á foreldrum reykvískra barna. Við rekstur sveitarfélags verður að vera tryggt að þjónusta við barnafjölskyldur sé alltaf fumlaus. Þess vegna verður að tryggja að búið sé að manna allar stöður til þess að koma í veg fyrir óþarfa álag á barnafjölskyldur, því ætti auðveldlega að vera hægt að breyta með betra skipulagi.

Greinin birtist á visir.is 26. ágúst 2020.