Ásmundur Friðriksson í Pólitíkinni

Ásmundur Friðriksson alþingismaður var gestur Guðfinns Sigurvinssonar í Pólitíkinni en þáttinn má nálgast hér og á helstu streymisveitum hlaðvarps og í mynd á YouTube.

Ásmundur, eða Ási eins og hann er jafnan kallaður, er úr Eyjum en hefur um árabil verið búsettur á Suðurnesjum. Ásmundur hefur komið víða við á starfsævinni; hann hefur verið sjómaður, fiskverkandi í Eyjum, verkefnastjóri Ljósanætur í Reykjanesbæ, bæjarstjóri í Garði og nú alþingismaður, svo fátt eitt sé nefnt. Það er fjölmargt sem brennur á Ása í pólitíkinni og hann er duglegur að rækta samband sitt við kjósendur.

Ásmundur ræddi um atvinnulífið á tímum Covid19 og leiðir til þess að efla það, s.s. tækifæri í landbúnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Hann ræddi líka um uppvöxtinn í Vestmannaeyjum og lífið í Garðinum þar sem hann bjó í áratug. Ásmundur ræddi hispurslaust um gagnrýni á hann sem þingmann, m.a. vegna aksturskostnaðar, þar sem hann segir að margt hafi ekki komið fram sem fyllir upp í heildarmyndina. Ási sem heldur Skötumessu að sumri í Garðinum til stuðnings Þroskahjálp segir marga koma að því verkefni og hann heldur því blákalt fram að skatan bragðist ekki síður betur um hásumar en í aðdraganda jóla.