Að standa ofan í fötu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Hert­ar aðgerðir vegna skimun­ar á landa­mær­um hafa nú tekið gildi. Eins og fram hef­ur komið er ráðist í þær aðgerðir af illri nauðsyn og von­andi til skamms tíma. Við vit­um þó að sá far­ald­ur sem nú geis­ar mun ganga yfir í bylgj­um og aðgerðirn­ar nú eru áminn­ing um það.

Kór­ónu­veiru-far­ald­ur­inn hef­ur valdið gíf­ur­legu tjóni á heimsvísu, bæði fé­lags­legu og efna­hags­legu, frá því hann gerði vart við sig í byrj­un árs. Við vit­um ekki enn hversu miklu tjóni hann mun valda en það er þó ljóst að við mun­um þurfa að end­ur­hugsa og end­ur­meta marga þætti sam­fé­lags­ins til lengri tíma. Þar er allt und­ir, ekki síst rík­is­fjár­mál­in.

Við vor­um, sem bet­ur fer, vel í stakk búin til að tak­ast á við djúpa niður­sveiflu þökk sé ábyrgri hag­stjórn síðustu ára. Það ligg­ur þó fyr­ir að við þurf­um að end­ur­meta hvort í senn, tekjumód­el og út­gjöld hins op­in­bera. Rík­is­sjóður þolir tíma­bund­in áföll en það seg­ir sig sjálft að við get­um ekki aukið skuld­ir rík­is­ins út í hið óend­an­lega. Fyrr í þess­ari viku var greint frá því að skuld­ir rík­is­ins hefðu auk­ist um millj­arð króna á dag frá því far­ald­ur­inn hófst.

Fram und­an eru mikl­ar áskor­an­ir við að aðlaga út­gjöld rík­is­ins breytt­um veru­leika. Það er verk­efni sem bíður allra stjórn­mála­manna. Aðgerðir rík­is­ins á und­an­förn­um mánuðum fela í sér sér­tæk út­gjöld til ým­issa verk­efna í þeim til­gangi að milda höggið fyr­ir ein­stak­linga og fyr­ir­tæki. Flest þess­ara verk­efna eru tíma­bund­in og munu ein og sér ekki skaða stöðu rík­is­sjóðs til lengri tíma.

Aft­ur á móti mun veik­ari staða fyr­ir­tækja og heim­ila veikja fjár­hags­stöðu hins op­in­bera og rýra mögu­leika þess í að viðhalda öfl­ugu vel­ferðar­kerfi, fram­sæknu mennta­kerfi, ráðast í innviðaupp­bygg­ingu og veita al­menn­ingi betri þjón­ustu. Fjár­magn rík­is­ins vex ekki á trján­um held­ur verður það til með dugnaði og fram­taks­semi ein­stak­linga og fyr­ir­tækja sem á hverj­um degi fram­leiða verðmæti fyr­ir sam­fé­lagið og fjár­magna þannig fyrr­nefnda þætti.

Ríkið get­ur eft­ir til­vik­um reynt að milda höggið eins og gert hef­ur verið hér á landi. Til lengri tíma litið get­ur ríkið þó ekki skatt­lagt heim­ili og fyr­ir­tæki í þeim til­gangi að bæta stöðu sína. Góður maður sagði eitt sinn að það að ætla að skatt­leggja sig út úr kreppu væri eins og standa ofan í fötu og reyna að lyfta henni upp. Vissu­lega ein­föld sam­lík­ing, en varp­ar þó mynd á þann vanda sem við stönd­um öll frammi fyr­ir.

Eina ráðið til að tryggja sterka stöðu hins op­in­bera í fjár­hags­leg­um skiln­ingi er að ýta und­ir ein­stak­lings­fram­tak, ný­sköp­un, val­frelsi og aðra þætti sem hvetja til fram­taks­semi og auk­inn­ar verðmæta­sköp­un­ar einka­geir­ans. Við þurf­um að tryggja að hag­kerfið búi til ný störf og að Ísland sé sam­keppn­is­hæft við önn­ur ríki þannig að út­flutn­ings­grein­ar okk­ar dafni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. ágúst 2020.