„Sökum lakrar fjármálastjórnunar“

Vilhjálmur Bjarnason skrifar:

Í Morgunblaðinu þann 31. júlí er rætt við Harald Benediktsson, alþingismann og varaformann fjárlaganefndar Alþingis. Þar er erfitt að greina á milli þess hvað haft er eftir alþingismanninum og hvað eru hugleiðingar blaðamannsins.

Þingmaðurinn talar

Beint er haft eftir alþingismanninum: „Spítalinn er með gríðarlega möguleika til forgangsröðunar fjármuna og ráðuneytið hefur verið að reyna að herða að útgjaldavexti síðustu ára. Svo þarf einnig að fara í önnur mikilvæg verkefni eins og til dæmis rekstur hjúkrunarheimila“. Svo segir einnig, „Sökum lakrar fjármálastjórnunar Landspítala undanfarin ár hefur verið kallað eftir leiðum til hagræðingar.“

Nú er það svo að Alþingi og heilbrigðisráðherra hafa sett hagræðingarkröfur á Landspítalann á hverju ári. Að ekki sé talað um kröfur um forgangsröðun verkefna.

Lök fjármálastjórn

Ekki getur það talist lök fjármálastjórn hjá Landspítalanum að kjarasamningar ríkisins við heilbrigðisstéttir séu ekki í takt við áætlanir fjárlaganefndar. Ekki getur það talist lök fjármálastjórn að sókn eftir heilbrigðisþjónustu er umfram áætlanir og vilja fjárlaganefndar. Í hverju liggur lök fjármálastjón Landspítalans?

Nú kann að vera svo komið að krafan á forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu sé fallin á stjórnmálamenn. Stjórnmálamenn þurfa þá að fara að ákveða hvaða sjúklingar eiga að lifa og hverjir eiga að deyja. Það er í raun pólitísk ákvörðun.

Biðtími ráðherra

Stjórnmálamenn hafa nú þegar ákveðið hvað er eðlilegur bið- og kvalatími eftir liðskiptaaðgerðum. Stjórnmálamenn hafa einnig ákveðið hvað er eðlilegur sjónleysistími í bið eftir augasteinsaðgerðum. Þessar aðgerðir eru mjög vel fallnar til útboða til þess að fá hagstætt verð í veitta þjónustu. Af einhverjum ástæðum hefur heilbrigðisráðherra ekki verið fáanlegur til þess að stytta biðtíma fyrir þessar aðgerðir með því að fara út fyrir Landspítalann til að kaupa slíka þjónustu, sem oft og tíðum er alls ekki spítalaþjónusta heldur stofuþjónusta.

Fyrirbyggjandi

Hvað sem þessu líður er þó alltaf brýnt að leggja áherslu á fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu, sem borgararnir taki þátt í frá upphafi lífsferilsins, með því að þeir stundi heilbrigt líferni, í mataræði, hreyfingu, standist tóbaksnautnina og forgangsraði sjálfir. Þá minnkar kvöl og völ stjórnmálamannanna.

Þá minnkar sök um laka fjármálastjórn hjá Landspítalanum.

Grein þessi birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 19. ágúst 2020.