Slagurinn er ekki búinn

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Við höfðum ástæðu til að fagna ýmsu þegar sum­arið kom. Eft­ir óveður og jarðskjálfta á nýliðnum vetri tók kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn við á vor­mánuðum en út­litið varð betra með vor­inu. Sam­taka­mátt­ur þjóðar­inn­ar var þó ein­stak­ur þegar kom að því að tak­ast á við þær aðstæður sem far­ald­ur­inn skapaði. Lík­lega sýndi það sig best um pásk­ana þegar flest­ir fundu leiðir til að gera gott úr þeim aðstæðum sem þá voru, vit­andi að þær væru tíma­bundn­ar.

Covid-19-far­ald­ur­inn er óboðinn gest­ur sem við þurf­um öll að tak­ast á við, hvort sem okk­ur lík­ar það bet­ur eða verr. Öll erum við að læra jafnóðum. Þar eru okk­ar fær­ustu sér­fræðing­ar ekki und­an­skild­ir en þökk sé mikl­um fram­förum í lækna­vís­ind­um og þekk­ingu manna eykst þekk­ing­in mun hraðar en áður þegar slík­ir far­aldr­ar hafa komið upp.

Þó svo að við vit­um ekki ná­kvæm­lega hvernig far­ald­ur­inn muni þró­ast og hversu lengi þá er ým­is­legt annað sem við vit­um. Við vit­um að þetta geng­ur yfir í bylgj­um og það mun þurfa að herða eða slaka á sam­komutak­mörk­un­um eft­ir at­vik­um. Við vit­um að mestu hvernig veir­an smit­ast og sam­hliða vit­um við hvernig við get­um reynt að tak­marka inn­an­lands­smit. Við vit­um líka að við þurf­um að fara eft­ir þeim leiðbein­ing­um og til­mæl­um sem hafa komið fram.

Við vit­um líka að hag­kerfið stend­ur ekki af sér óbreytt ástand. Ein­angrað hag­kerfi í lokuðu landi er ekki væn­legt til þess að viðhalda þeim góðu lífs­gæðum sem hér eru. Rík­is­sjóður er ekki sjálf­bær eins og sak­ir standa og inn­lend velta ein og sér ber ekki uppi það at­vinnu­stig og þann hag­vöxt sem þörf er á. Við vit­um að inn­an­lands­ferðalög Íslend­inga í sum­ar hafa að ein­hverju leyti bætt það tjón sem veir­an hef­ur valdið ferðaþjón­ust­unni en við vit­um um leið að sá ávinn­ing­ur er aðeins til skemmri tíma. Við vit­um líka að koma er­lendra ferðamanna í sum­ar hef­ur stutt við varn­ar­bar­áttu ferðaþjón­ust­unn­ar og við vit­um sömu­leiðis að aðeins lítið brot af þeim ferðamönn­um sem hingað hafa komið í sum­ar eru með virk smit. Við viss­um að önn­ur bylgja veirunn­ar myndi koma og svo­kölluð opn­un lands­ins (lands sem var aldrei lokað) er ekki ástæða þess.

Sem fyrr seg­ir vit­um við ekki hvernig veir­an mun þró­ast né hvort og þá hvenær við finn­um lækn­ingu við henni. Það sem við vit­um þó er að við þurf­um áfram að þétta raðirn­ar í bar­átt­unni. Stjórn­mála­menn, sér­fræðing­ar og al­menn­ing­ur þurfa að finna leið til að láta lífið halda áfram, halda hag­kerf­inu gang­andi, sjá til þess að börn kom­ist í skóla og þannig mætti áfram telja. Allt skipt­ir þetta máli.

Við þurf­um að standa sam­an. Slag­ur­inn er ekki bú­inn og við þurf­um að standa nokkr­ar lot­ur í viðbót.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. ágúst 2020.