Lilja Björg Ágústsdóttir oddviti sjálfstæðismanna í Borgarbyggð og forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar var gestur í 21. þætti Pólitíkurinnar í þessari viku. Hlusta má á þáttinn hér.
Lilja Björg hefur verið viðloðandi sveitarstjórnarpólitíkina í Borgarbyggð síðan 2012. Hún var kjörin til setu í sveitarstjórn árið 2018 og starfaði m.a. sem sveitarstjóri hluta af þessu kjörtímabili. Hún ræddi sérstöðu Borgarbyggðar, sagði frá sveitarfélaginu almennt, skólamálum svæðisins en þar eru skólar á öllum skólastigum. Lilja nefndi að í Borgarbyggð komast börn á leikskóla um leið og fæðingarorlofi sleppir. Hún ræddi samstarfið við Samfylkingu og Vinstri græna sem eru í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum í Borgarbyggð og sagði það mjög gott.
Lilja Björg ræddi góðan árangur í fjármálastjórn sveitarfélagisns sem byggir á verkefni sem Borgarbyggð og KPMG eru í samstarfi með sem heitir Brúin til framtíðar. Um er að ræða markmiðasetningu í fjármálum sem unnið er með í allri vinnu við fjárhagsáætlun. Fyrstu markmiðin árið 2014 þegar verkefnið hófst var að koma sveitarfélaginu undan sérstöku eftirliti eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Það tókst og staðan orðin mjög góð í dag og skuldaviðmið langt undir skuldaviðmiðum. Búið er að framkvæma fyrir um 1,5 milljarða á síðustu árum sem hafa að mestu verið fjármagnaðar án lántöku. Sem gott dæmi um árangurinn af þessari markvissu fjármálastjórn er rekstrarniðurstaða ársins 2019 sem var jákvæð um á fimmta hundrað milljónir og enn betri afkoma árið áður. Þá kom til tals hvernig Borgarbyggð tekst á við afleiðingar af COVID-19 á rekstur sveitarfélagsins – en sveitarfélagið gerir ráð fyrir 7% tekjufalli en allt lítur þó út fyrir að á þessu ári takist að reka sveitarfélagið án hallarekstrar.
Borgarbyggð stefnir að því að hafa samskiptin við íbúana að mestu rafræn og hefur verið unnið markvisst að því verkefni á þessu kjörtímabili. Þá notast sveitarfélagið einnig við streymi og fjarfundaforrit á opnum íbúafundum sem eykur aðgengi íbúanna að málefnum sveitarfélagsins og gefur þeim sem eru að horfa gegnum netið færi á að taka fullan þátt í slíkum fundum. Hefur það fyrirkomulag reynst mjög vel.