Samskiptin við ríkið að mestu stafræn í ár

Andri Heiðar Kristinsson stafrænn leiðtogi verkefnastofu um stafrænt Ísland var gestur í 20. þætti Pólitíkurinnar í þessari viku. Hlusta má á þáttinn hér.

Verkefnastofa um stafrænt Ísland vinnur að því að aðstoða opinberar stofnanir við að bæta stafræna þjónustu við almenning með því að gera hana skýrari, einfaldari og hraðvirkari og starfar á vegum fjármálaráðuneytisins – en island.is er rekið á vegum verkefnisins og er áætlað að ný vefsíða birtist notendum á haustmánuðum sem verður enn skilvirkari en sú sem nú er í notkun.

Í þættinum fór Andri yfir þau verkefni sem hans teymi vinnur að, það sem er framundan í þeim efnum og eins um rafræn ökuskírteini og umsóknargátt um stuðningslán sem eru nýjustu verkefnin sem litu dagsins ljós. Allt miðar verkefnið að því að einfalda líf fólks og samskipti fólks og fyrirtækja við hið opinbera.

Andri ræddi bæði tækifæri og áskoranir sem fylgja innleiðingunni á stafrænu Íslandi – og ekki síst hvernig COVID-19 hefur hraðað verkefnum sem unnið er að. Stjórnvöld stefna að því að samskiptin við ríkið verði að meginefni rafræn á þessu ári og Andri segist aðspurður að það verkefni gangi mjög vel.