„Fólkinu verður ekki sagt að treysta neinum“

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Sá sem legg­ur fyr­ir sig stjórn­mál þarf að sækj­ast eft­ir trausti fólks­ins. Bjarni Bene­dikts­son (1908-1970), for­sæt­is­ráðherra og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, var sann­færður um að aðeins ein leið væri fær; að vinna til trausts­ins: „Fólk­inu verður ekki sagt að treysta nein­um. Það verður sjálft að finna, hvort maður­inn er trausts verður. Með góðri grein eða góðri ræðu er hægt að vekja hrifn­ingu í bili, ná svo og svo mikl­um völd­um og vegtyll­um. En traustið öðlast maður aldrei, nema hann vinni fyr­ir því.“

Í rit­deilu við Árna Jóns­son frá Múla árið 1942 bend­ir Bjarni á að stjórn­mál­in séu ekki arðsöm fyr­ir þann sem er heiðarleg­ur. Ekki þurfi mikið sjálfs­traust „til að hafa trú á, að maður geti út­vegað sér arðsam­ari at­vinnu“. En sá geri hins veg­ar „lítið gagn í stjórn­mál­um, sem eigi feng­ist við þau af ein­hverri innri þörf. Vegna þess, að hann þætt­ist hafa komið auga á ein­hver slík sann­indi, að hann væri minni maður, ef hann legði sig ekki all­an fram til að berj­ast fyr­ir þeim“.

Þegar þessi orð voru sett á blað var Bjarni aðeins 34 ára gam­all en hafði verið borg­ar­stjóri í tvö ár. Sann­fær­ing hans um eðli stjórn­mál­anna og skyld­ur stjórn­mála­manna breytt­ist aldrei held­ur styrkt­ist eft­ir því sem árin liðu. Halda má því fram að allt hans mikla starf hafi mót­ast af því sem hann sagði í ára­móta­ávarpi í Rík­is­út­varp­inu 1968, þá sem for­sæt­is­ráðherra, að eng­in skömm sé „að því að falla vegna þess, að maður fylg­ir sann­fær­ingu sinni“ en lít­il­mót­legt sé, „að ját­ast und­ir það, sem sann­fær­ing, byggð á bestu fá­an­legri þekk­ingu, seg­ir, að sé rangt“.

Ein­kenni frjáls­huga manns

Síðastliðinn föstu­dag var þess minnst að 50 ár voru liðin frá því að Bjarni Bene­dikts­son, kona hans Sig­ríður Björns­dótt­ir og Bene­dikt Vil­mund­ar­son, fjög­urra ára dótt­ur­son­ur þeirra, lét­ust í elds­voða á Þing­völl­um. Hér verður ekki fjallað um harm­leik­inn, áhrif hans eða hvaða áhrif hann hafði á þróun ís­lenskra stjórn­mála.

Bjarni var aðeins 62 ára gam­all en átti að baki ára­tuga far­sæl­an fer­il sem einn áhrifa­mesti stjórn­mála­maður lands­ins. Aðeins 24 ára varð hann pró­fess­or í lög­um við Há­skóla Íslands og 32 ára borg­ar­stjóri. Síðar varð hann ut­an­rík­is­ráðherra og lagði horn­stein að ut­an­rík­is­stefnu lands­ins sem hef­ur verið fylgt æ síðan. Árið 1948 var Bjarni kjör­inn vara­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins og formaður árið 1961. Tveim­ur árum síðar tók hann við embætti for­sæt­is­ráðherra og sinnti því til dauðadags. Bjarna var trúað fyr­ir öðrum ráðherra­embætt­um allt frá 1947; dóms­mála-, mennta­mála-, heil­brigðis- og iðnaðar­málaráðherra.

Eft­ir Bjarna ligg­ur fjöldi greina og rita, ekki síst um lög­fræðileg efni, ut­an­rík­is- og varn­ar­mál og stjórn­mál. Rauði þráður­inn í hug­mynda­fræði hans var trú­in á frelsi ein­stak­lings­ins og sjálf­stæði ís­lensku þjóðar­inn­ar. Alþjóðleg sam­vinna við frjáls­ar þjóðir með þátt­töku í Atlants­hafs­banda­lag­inu og varn­ar­samn­ingi við Banda­rík­in, á viðsjár­verðum tím­um, var í huga Bjarna mik­il­væg for­senda þess að hægt væri að verja full­veldi fá­mennr­ar þjóðar.

Sann­fær­ing Bjarna um mik­il­vægi sjálf­stæðis og frels­is kem­ur ágæt­lega fram í ræðu sem hann hélt á sam­komu Íslensk-am­er­íska fé­lags­ins á þjóðar­hátíðar­degi Banda­ríkj­anna 1955:

„Ein­kenni hins frjáls­huga manns er um­fram allt það, að unna öðrum frels­is ekki síður en sjálf­um sér. Þetta er auðvelt í orði en erfiðara í fram­kvæmd. En ein­mitt þess vegna eru það fremstu þjóðir heims, sem eru frjáls­ast­ar. Þær gera mestu kröf­urn­ar til sjálfra sín og þegna sinna.

Þeir, sem unna frels­inu, verða að muna, að form­legt frelsi er ekki nóg. Þeim ber að hjálp­ast að til að gera hverj­um ein­um mögu­legt að njóta lífs­ins og frels­is­ins og leita ham­ingj­unn­ar eft­ir eig­in vild inn­an ramma lag­anna.“

Þegar þessi ræða er les­in fæst góður skiln­ing­ur á því hvers vegna Bjarni lagði alltaf mikla áherslu á sam­starf lýðræðis­ríkja í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um. Þá var frels­inu ógnað úr austri – ný­fengið sjálf­stæði var brot­hætt í átök­um við hug­mynda­fræði alræðis­hyggj­unn­ar.

Undra­mátt­ur frels­is­ins

Bjarni var sann­færður um „undra­mátt frels­is­ins“ og taldi að iðnaður fengi „því aðeins staðist, að hann geti þró­ast við frjáls­lega versl­un­ar­hætti“ og sama ætti við um land­búnaðinn. Í út­varps­er­indi á hátíðar­degi versl­un­ar­manna 1949 voru skila­boð hans til þeirra sem eru fylgj­andi frjálsri versl­un skýr og eiga er­indi enn í dag. Það verði að var­ast að „fyr­ir okk­ur fari eins og hesti, sem verið hef­ur í hafti“:

„Eft­ir að hnapp­held­an hef­ur verið af hon­um leyst held­ur hann áfram að hoppa eins og eng­in breyt­ing hafi á orðið, hann held­ur, að hann kom­ist ekki áfram með öðru móti.

Við verðum að gæta þess, að það hug­ar­far skap­ist ekki, að ómögu­legt sé að vera án haft­anna, að allt hljóti um koll að keyra, ef höft­in eru leyst eða veru­lega á þeim linað.“

Bjarni varaði við því sem hann kallaði „hnapp­heldu­hug­ar­far“ líkt og ríkt hefði á tím­um ein­ok­un­ar­versl­un­ar­inn­ar, þegar marg­ir voru sann­færðir um nauðsyn þess að „stjórn­völd­in hefðu vit fyr­ir þegn­un­um“. Vald­haf­arn­ir hefðu ótt­ast „þá eins og nú, að allt mundi um koll keyra, ef slakað yrði á þeim höft­um, sem sett voru á fram­kvæmdaþrek ein­stak­ling­anna“:

„Reynsl­an sýndi, að sá ótti var með öllu ástæðulaus.

Íslenska þjóðin sökk ekki í skulda­fen, held­ur komst ein­mitt úr al­gerri ör­birgð og alls­leysi meðan fullt versl­un­ar­frelsi var, og ætti þó að vera ólíkt hæg­ara fyr­ir hana að lifa nú af tekj­um sín­um, sem eru hlut­falls­lega miklu meiri en þá var.“

Síðar í út­varps­er­ind­inu und­ir­strik­ar Bjarni að það sé ekki nægj­an­legt „að menn í orði kveðnu seg­ist vilja vera laus­ir við höft og höml­ur, ef þeir fást ekki til að skapa þau skil­yrði, sem eru nauðsyn­leg for­senda þess, að þeim verði aflétt“.

Tryggð við trú og menn­ingu

Árið 1949 var ís­lenskt sam­fé­lag í höft­um, frjáls­ræði í viðskipt­um var lítið og allt bundið leyf­um. Hafta­kerfið var eit­ur í bein­um sjálf­stæðismanna, ekki síst Bjarna, sem vildi láta reyna á „hvers lækn­is­dóm­ur frels­is­ins má sín um þau mein“ sem hrjá ís­lenskt þjóðfé­lag. Fyrstu raun­veru­legu skref­in í þá átt voru stig­in í rík­is­stjórn Sjálf­stæðis­flokks­ins og Alþýðuflokks 1959 til 1971. Þá var traust­ur grunn­ur að vel­sæld ís­lensks sam­fé­lags lagður. Í lands­fund­ar­ræðu 1965 orðaði Bjarni þetta svo:

„Öll vit­um við þó, að við lif­um ein­ung­is í upp­hafi tækni- og vís­inda­ald­ar. Með því að nota okk­ur ávexti henn­ar og tryggja ein­stak­ling­un­um til þess frelsi og mögu­leika, þá greiðum við fyr­ir meiri, ör­ari og ör­ugg­ari fram­förum, lífs­kjara­bót­um, ef menn vilja svo segja, en nokk­ur get­ur nú séð fyr­ir.“

Bjarni var sann­færður um nauðsyn þess að rjúfa ein­angr­un Íslands, brjóta hlekki hafta og ófrels­is og tryggja opin sam­skipti við aðrar þjóðir. Um leið ít­rekaði hann mik­il­vægi þess að Íslend­ing­ar héldu tryggð við trú og menn­ingu: „En okk­ur Íslend­ing­um tjá­ir ekki á sama veg og flest­um öðrum að treysta á mann­mergðina, held­ur á mann­dáðina. Á Íslandi þarf sjálf­stæði allr­ar þjóðar­inn­ar að efl­ast af sjálf­stæði ein­stak­ling­anna.“

Það er hollt og nauðsyn­legt fyr­ir alla að þekkja sög­una. Stjórn­mála­menn sam­tím­ans verða að skynja úr hvaða jarðvegi hug­mynd­ir þeirra og hug­sjón­ir eru sprottn­ar. Fyr­ir tals­menn frels­is eru skrif og ræður Bjarna Bene­dikts­son­ar ómet­an­leg­ur hug­mynda­fræðileg­ur leiðar­vís­ir. Þótt aðstæður breyt­ist og viðfangs­efn­in einnig er enn tek­ist á um grunn­atriði stjórn­mál­anna. Orð Bjarna í ára­móta­grein í Morg­un­blaðinu árið 1965 eiga því jafn­vel við í dag og fyr­ir 55 árum:

„Oft er sagt, og vissu­lega með réttu, að veðurfar, gróður og fiskigöng­ur séu ekki að þakka rík­is­stjórn. Gam­al­kunn­ugt er, að jafnt rign­ir á rétt­láta og rang­láta. En rík­is­stjórn­in ræður því, hvernig hún bregst við at­b­urðunum. Treyst­ir hún ein­göngu á for­sjá sína og bann­ar þegn­un­um að bjarga sér eft­ir því, sem þeirra eig­in vit og þroski seg­ir til um? Eða treyst­ir hún fyrst og fremst á frum­kvæði, mann­dóm og dug borg­ar­anna og tel­ur skyldu sína að greiða fyr­ir fram­kvæmd­um þeirra, en legg­ur ekki á þær höml­ur og hindr­an­ir?“

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. júlí 2020.