Hvernig forsetaembætti?

Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Fyr­ir nokkru birt­ust á sam­ráðsgátt stjórn­valda drög að frum­varpi þar sem lagðar eru til ýms­ar breyt­ing­ar, sem einkum varða II. kafla stjórn­ar­skrár­inn­ar, for­seta­embættið, rík­is­stjórn, verk­efni fram­kvæmd­ar­valds­ins o.fl.

Birt­ing frum­varps­drag­anna er liður í þeirri vinnu sem nú­ver­andi rík­is­stjórn kom af stað vegna end­ur­skoðunar stjórn­ar­skrár­inn­ar og bygg­ir í grund­vall­ar­atriðum á tveim­ur meg­in­for­send­um; ann­ars veg­ar á því að leita sem víðtæk­astr­ar sam­stöðu og hins veg­ar að end­ur­skoðun­ar­vinn­unni sé skipt upp í af­markaða verkþætti og til­tekn­ir kafl­ar stjórn­ar­skrár­inn­ar tekn­ir fyr­ir í hverj­um áfanga. Eru þetta fjórðu frum­varps­drög­in sem birt eru í sam­ráðsgátt, en áður hafa verið birt drög að nýj­um ákvæðum um nátt­úru og um­hverfi, auðlind­ir lands­ins og ís­lenska tungu. Drög­in eru sam­in af sér­fræðing­um í kjöl­far vinnu sem átt hef­ur sér stað í nefnd á veg­um for­sæt­is­ráðherra sem skipuð er for­mönn­um allra stjórn­mála­flokka sem full­trúa eiga á Alþingi. Tekið er fram að birt­ing á sam­ráðsgátt feli ekki á þessu stigi í sér skuld­bind­ingu af hálfu formann­anna um að þeir muni flytja eða styðja fram­lagn­ingu sam­bæri­legs frum­varps á Alþingi.

Margt er prýðilegt í þeim frum­varps­drög­um sem nú hafa verið birt á sam­ráðsgátt­inni en annað vek­ur óneit­an­lega spurn­ing­ar. Marg­ir, þar á meðal sá sem þetta skrif­ar, hafa verið þeirr­ar skoðunar að meg­in­mark­mið breyt­inga á þeim ákvæðum stjórn­ar­skrár­inn­ar sem varða for­seta­embættið hljóti að vera að færa orðalag ákvæðanna nær raun­veru­leik­an­um; nær þeirri fram­kvæmd sem við þekkj­um frá und­an­förn­um ára­tug­um og bygg­ir ann­ars veg­ar á hefðbund­inni túlk­un viðkom­andi ákvæða og hins veg­ar á stjórn­skip­un­ar­venj­um. Ljóst er að í þess­um drög­um er gengið tals­vert lengra og gert ráð fyr­ir breyt­ing­um sem eru efn­is­leg­ar en varða ekki bara form og fram­setn­ingu. Mik­il­vægt er að ein­stak­ar til­lög­ur af því tagi fái góða um­fjöll­un bæði meðal al­menn­ings og fræðimanna áður en lengra er haldið. Meðal þeirra atriða sem þarf þannig að ræða eru ákvæði frum­varps­ins um lengd og fjölda kjör­tíma­bila for­seta, auk aðkomu for­seta að stjórn­ar­mynd­un og þingrofi, svo nokk­ur dæmi séu nefnd. Ákvæðið um þingrof gef­ur sér­stak­lega til­efni til meiri um­fjöll­un­ar.

Þá þarf þessu til viðbót­ar að skoða nán­ar hvort ekki megi ganga lengra en frum­varpið ger­ir ráð fyr­ir í þá átt að fella á brott ákvæði sem gera ráð fyr­ir form­legri aðkomu for­seta að ákvörðunum sem í raun eru al­farið tekn­ar af ráðherr­um og á þeirra ábyrgð. Slík­ar breyt­ing­ar myndu fyr­ir­byggja marg­háttaðan mis­skiln­ing. Loks má nefna að ástæða er til umræðu um hina sér­stöku reglu í 26. gr. um synj­un­ar­vald for­seta gagn­vart lög­um frá Alþingi. Þar er ekki gert ráð fyr­ir efn­is­legri breyt­ingu í frum­varps­drög­un­um en engu að síður er til­efni til um­fjöll­un­ar um þetta fyr­ir­komu­lag.

Þá er jafn­framt mik­il­vægt sam­hliða þessu að frek­ari umræður fari fram al­mennt um eðli og inn­tak for­seta­embætt­is­ins, hvort for­seti eigi að vera af­skipta­sam­ari en verið hef­ur um ákv­arðanir sem að jafnaði hafa verið á verksviði rík­is­stjórn­ar og Alþing­is og þannig virk­ari þátt­tak­andi í stjórn­mála­bar­áttu líðandi stund­ar. Sá sem þetta rit­ar hef­ur verið þeirr­ar skoðunar að for­seti eigi fyrst og fremst að gegna form­leg­um skyld­um sem þjóðhöfðingi og koma fram sem ákveðið sam­ein­ing­ar­tákn. For­seti geti því til viðbót­ar haft mik­il áhrif með orðum sín­um og gerðum en bein völd og ákv­arðana­taka á sviði fram­kvæmd­ar­valds og lög­gjaf­ar­valds eigi að vera í hönd­um rík­is­stjórn­ar og Alþing­is. Menn geta vissu­lega verið annarr­ar skoðunar og talið að for­seti eigi að gegna veiga­meira hlut­verki varðandi stjórn­mála­leg­ar ákv­arðanir. Ef vilji er til að ganga lengra í þeim efn­um er hins veg­ar eðli­legt og nauðsyn­legt að slík stefna verði mörkuð með meðvituðum hætti í kjöl­far ít­ar­legra umræðna. Aðal­atriðið er að niðurstaða vinn­unn­ar verði skýr stjórn­ar­skrárá­kvæði um völd og verksvið for­seta.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. júlí 2020.