Skipulagspukur í Skerjafirði

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Borg­ar­stjór­inn í Reykja­vík er enn við sama heyg­arðshornið sem ég gerði reynd­ar að um­tals­efni í grein í Morg­un­blaðinu 10. júní sl.: Hann ætl­ar sér að koma Reykja­vík­ur­flug­velli úr Vatns­mýr­inni með góðu eða illu.

Þrá­hyggja borg­ar­stjóra í boði skatt­greiðenda

Borg­ar­stjór­inn veit, jafn­vel og við hin, að nái hann þessu mark­miði sínu, munu skatt­greiðend­ur þurfa að byggja nýj­an flug­völl sem mun kosta þá ein­hvers staðar á bil­inu 300 til 400 millj­arða króna, eða sem nem­ur 5 nýj­um Land­spít­öl­um, þ.e.a.s. ef heppi­legt flug­vall­ar­svæði finnst í ná­grenni höfuðborg­ar­inn­ar, sem er eng­an veg­inn sjálf­gefið.

Í grein­inni nefndi ég nokk­ur dæmi um hvernig borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­inn hef­ur lagt flug­völl­inn í einelti á und­an­förn­um árum, vegna þessa mark­miðs. Í raun­inni er hvert og eitt þeirra dæma sem ég tók í grein­inni, efni í kennslu­bók um það hvernig ekki á að beita stjórn­valdi gegn hags­mun­um og vilja þegn­anna: ekki pukrast með skipu­lags­áform, ekki beita for­dæma­laus­um stjórn­sýslu­af­brigðum, ekki hafa í al­var­leg­um hót­un­um við fyr­ir­tæki, rík­is­valdið og ís­lenskt sam­fé­lag í heild, ekki grípa til ósann­inda og vill­andi um­sagna og ekki brjóta samn­inga.

Nýtt skipu­lag fjór­fald­ar íbúa­fjölda Skerja­fjarðar

Hug­um að nýj­ustu aðför­inni að flug­vell­in­um sem jafn­framt er aðför að íbú­um Skerja­fjarðar, sunn­an flug­braut­ar. Það eru áform meiri­hlut­ans um að byggja 3.250 manna íbúðabyggð á suðvest­ur­enda Neyðarbraut­ar­inn­ar, aust­ur af nú­ver­andi 800 íbúa byggð í Skerjaf­irði. Enn hef­ur ekki verið samþykkt deili­skipu­lag fyr­ir þessi áform en á síðasta borg­ar­ráðsfundi var samþykkt að setja slíkt deili­skipu­lag í aug­lýs­ingu. Þessi skipu­lags­áform eru fá­rán­leg og verða með engu móti skil­in nema í sam­hengi við flug­vallar­fób­íu borg­ar­stjór­ans.

Í Aðal­skipu­lag­inu 2001-2024 sem tók gildi 2003 var gert ráð fyr­ir tæp­lega 700 manna byggð í 275 íbúðum, á 11 hekt­ara svæði á þess­um slóðum. Sú byggð varð aldrei að veru­leika og þáver­andi for­stöðumaður Borg­ar­skipu­lags­ins lét hafa eft­ir sér að svo mik­il fjölg­un íbúa í Skerjaf­irði myndi sprengja all­ar um­ferðarfor­send­ur.

Mun fjór­föld­un íbúa tvö­falda um­ferð?

Nú er hins veg­ar gert ráð fyr­ir 3250 manna byggð þarna, í 1300 íbúðum á 23 hekt­ara svæði. Hafi ein­hver áhyggj­ur af því að slík íbúa­fjölg­un sprengi um­ferðarfor­send­ur get­ur sá hinn sami huggað sig við það að borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­inn hef­ur látið sér­hanna „um­ferðakönn­un“ sem kemst að þeirri „niður­stöðu“ að ef íbúa­fjöldi Skerja­fjarðar fjór­fald­ast, mun um­ferð um Suður­götu og Ein­ars­nes aukast úr 2800 öku­tækj­um á sól­ar­hring í 6100 öku­tæki. Að vísu seg­ir al­menn skyn­semi okk­ur að ef íbúa­fjöld­inn fjór­fald­ast, þá fjór­fald­ist jafn­framt fjöldi öku­tækja inn og út úr hverf­inu, úr 2800 öku­tækj­um í 13.200. En borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­an­um er flest bet­ur gefið en brjóst­vitið og hef­ur hingað til ekki haft áhyggj­ur af því að fólk kom­ist leiðar sinn­ar inn­an borg­ar­mark­anna.

Nýtt íbúðahverfi – sömu belli­brögðin

Þegar kem­ur að vinnu­brögðum við þessi skipu­lags­áform hef­ur meiri­hlut­inn engu gleymt og ekk­ert lært: Pukrið felst m.a. í því að velja há­sum­ar­leyf­is­tíma í að aug­lýsa skipu­lagið í því skyni að sem fæst­ir verði þess var­ir. Auk þess hef­ur ekk­ert sam­ráð verið haft við nú­ver­andi íbúa Skerja­fjarðar. Furðuleg stjórn­sýslu­af­brigði fel­ast m.a. í því að lóðir voru aug­lýst­ar á þessu svæði án þess að samþykkt deili­skipu­lag lægi fyr­ir. Slík stjórn­sýsla brýt­ur í bága við anda skipu­lagslaga og er án for­dæma. Flug­fé­lag­inu Erni var hótað að lagður yrði veg­ur í gegn­um flug­véla­verk­stæði þeirra, án þess að þeim yrðu greidd­ar skaðabæt­ur, og með því að flýta þess­um fram­kvæmd­um eins og kost­ur er, án viðeig­andi rann­sókna, eru borg­ar­yf­ir­völd að brjóta samn­ing sem þau gerðu við rík­is­valdið sl. haust, um að borg­ar­yf­ir­völd létu Reykja­vík­ur­flug­völl í friði meðan verið væri að huga að hugs­an­legu nýju flug­vall­ar­svæði.

Þvermóðskan hafn­ar fag­leg­um vinnu­brögðum

Öll vinnu­brögð við þetta skipu­lag eru vís­bend­ing­ar um þá þrá­hyggju sem ein­kenn­ir af­stöðu borg­ar­stjór­ans til flug­vall­ar­ins. Það sem einna best af­hjúp­ar ásetn­ing­inn að baki þessu bram­bolti er fælni borg­ar­yf­ir­valda gagn­vart óháðum, fag­leg­um rann­sókn­um: Ekki ligg­ur fyr­ir heild­stæð um­ferðargrein­ing vegna þessa skipu­lags. Vega­gerðin hef­ur óskað eft­ir sam­göngumati sem enn hef­ur ekki farið fram. Um­hverf­is­mati er eng­an veg­inn lokið en það er grund­vall­ar for­senda fyr­ir skyn­sam­legu skipu­lagi svæðis­ins, ekki síst vegna óvenju mengaðs jarðvegs. Nátt­úru­fræðistofn­un er auk þess að íhuga friðun á strand­lengj­unni við Skerja­fjörð þar sem skipu­lagið ger­ir ráð fyr­ir land­fyll­ing­um. Loks hef­ur Isa­via gengið frá samn­ingi við hol­lensku loft- og geim­ferðastofn­un­ina um að gera fag­lega út­tekt á áhrif­um þess­ar­ar fyr­ir­huguðu byggðar á flu­gör­yggi. Þeirri út­tekt er ólokið. Niður­stöður þess­ara óháðu rann­sókna mega að sjálf­sögðu ekki líta dags­ins ljós áður en deili­skipu­lagið er af­greitt til aug­lýs­ing­ar, enda get­ur borg­ar­stjóri ekki pantað niður­stöðurn­ar frá þess­um óháðu aðilum. Langa­vit­leys­an held­ur því áfram með öllu sínu pukri, for­dæma­lausri stjórn­sýslu, hót­un­um, ósann­ind­um og samn­ings­brot­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. júlí 2020.