Sjáum að aðgerðirnar gagnast fyrirtækjum og almenningi

„Við sjáum að þessar aðgerðir sem við höfum gripið til gagnast fyrirtækjum og almenningi. Við ætlum okkur að halda áfram að beita ríkisfjármálunum markvisst til að örva efnahagslífið og vinna gegn efnahagslegum áhrifum farsóttarinnar. Ég vonast til að þær aðgerðir, ásamt sveigjanleika hagkerfisins, skili okkur kröftugri viðspyrnu,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, en í dag birti ríkisstjórnin yfirlit yfir stöðu mótvægisaðgerða sem gripið var til vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Nær allar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar sem gripið hefur verið til vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eru komnar til framkvæmda. Eftir stendur greiðsla launa á uppsagnarfresti, en stefnt er að því að fyrsti hluti komi til greiðslu fyrir 20. júlí, og stuðningslán þar sem verið er að leggja lokahönd á umsóknargátt.

Fram kemur í frétt á vef fjármálaráðuneytisins að meirihluti forsvarsmanna fyrirtækja séu ánægðir með aðgerðirnar skv. könnun sem framkvæmd var fyrir ráðuneytið í apríl og maí. Þar kom fram að um helmingur fyrirtækja séu vel í stakk búin til að takast á við tímabundin áföll næstu mánuði, en að innan við fjórðungur standi illa. Þá virðist sem minni eftirspurn eftir viðbótar- og stuðningslánum og frestunum skattgreiðslna bendi til að lausafjárvandi fyrirtækja sé ekki jafn alvarlegur og óttast hafi verið – en þar kunna aðrar aðgerðir að hafa hjálpað til.

Atvinnuleysi tengt hlutabótaleiðinni lækkaði úr 10,3% í 5,6% á milli apríl og maí. Búist er við að enn frekar fækki í þessum hópi í júlí og ágúst.

Færri hafa nýtt sér frestun skattgreiðslna en búist var við, en í mars nam upphæðin 11,3 milljörðum eða um 25%. Í apríl var hún komin niður í 3,9 milljarða eða 9% af allri staðgreiðslu, í maí 2,2milljarðar eða 5% af staðgreiðslu og í júní 3 milljarðar eða um 6% af allri staðgreiðslu.

Fram kemur að Seðlabankinn og viðskiptabankanir hafi nú lokið samningum um stuðningslán og að bankarnir telji að eftirspurn eftir þeim verði nokkur og komi í stað viðbótarlána (brúarlána).

168 fyrirtæki hafa sótt um lokunarstyrki og hafa 125 umsókir verið samþykktar og alls verið greiddar út tæplega 137 milljónir króna skv. úrræðinu.

Tæplega 7 þúsund einstaklingar hafa nýtt sér útgreiðslu séreignasparnaðar og var meðalgreiðsla fyrstu mánuðina um hálf milljón króna, en alls hafa 8,8 milljarðar verið greiddir út skv. úrræðinu.

Í lok maí nýttu 4.100 einstaklingar sér greiðsluhlé lána en meðalskuldir þess hóps var um 27 milljónir króna á einstakling. Í dag eru um 3.300 einstaklingar að nýta sér úrræðið og meðalskuldir hópsins eru um 25 milljónir króna á einstakling.

Nánar má lesa um stöðu efnahagsaðgerðanna á vef Stjórnarráðsins – hér.