Sjálfsköpuð súr epli

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:

Þór­dísi Lóu Þór­halls­dótt­ur, for­manni borg­ar­ráðs, svelgd­ist á svei­takaff­inu þegar und­ir­rituð vakti máls á al­var­legri fjár­hags­stöðu Reykja­vík­ur­borg­ar í Viku­lok­un­um á laug­ar­dag. Í aðsendri grein óð hún glóru­leysið upp að hnjám og full­yrti fjár­hag borg­ar­inn­ar vera hvort tveggja, traust­an og góðan. Þór­dís Lóa hef­ur gert garðinn fræg­an fyr­ir það helst, að falla á sverðið fyr­ir borg­ar­stjóra.

Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri sagði ný­verið árs­reikn­ing Reykja­vík­ur­borg­ar sýna öðru frem­ur sterk­an fjár­hag sveit­ar­fé­lags­ins. Bakradd­ir meiri­hlut­ans tóku gagn­rýni­laust und­ir og op­in­beruðu um leið und­ir­lægju­hátt og meðvirkni.

Það er eng­um blöðum um það að fletta – árs­reikn­ing­ur Reykja­vík­ur­borg­ar ber fjár­hagn­um ekki fag­urt vitni. Þrátt fyr­ir tekju­aukn­ingu síðasta árs jókst skuld­setn­ing borg­ar­inn­ar um 21 millj­arð. Launa­kostnaður hækkaði sam­hliða fjölg­un stöðugilda og rekstr­ar­kostnaður jókst um 9%. Báknið stækk­ar í tekjugóðæri og tæki­færi til skuld­aniður­greiðslu voru vannýtt. Nú hef­ur lukk­an snú­ist skyndi­lega og svig­rúm til aðgerða lítið.

Neyðarkall borg­ar­inn­ar

Heims­far­ald­ur COVID-19 skap­ar krefj­andi rekstr­ar­um­hverfi fyr­ir marga. Þar er höfuðborg­in eng­in und­an­tekn­ing. Af þeim sök­um óskaði Reykja­vík­ur­borg, ásamt öðrum sveit­ar­fé­lög­um á höfuðborg­ar­svæðinu, eft­ir 50 millj­arða óend­urkræf­um fjár­hags­stuðningi frá rík­inu – og öðru eins að láni frá Seðlabanka Íslands á hag­kvæm­ustu kjör­um með 5-7 af­borg­un­ar­laus­um árum. Öðrum kosti gæti höfuðborg­in ekki staðið und­ir þjón­ustu­skyld­um sín­um við íbú­ana og heim­il­in – rekst­ur borg­ar­sjóðs yrði al­gjör­lega ósjálf­bær til margra ára.

Rekst­ur Reykja­vík­ur­borg­ar var reynd­ar ósjálf­bær löngu áður en áhrifa COVID-19 fór að gæta. Ef ekki væri fyr­ir sölu bygg­ing­ar­rétt­ar gæti borg­in ekki sinnt þjón­ustu­skyld­um sín­um við íbú­ana. Borg­ar­stjóri reiðir sig á ein­skiptis­tekj­ur svo hanga megi réttu meg­in við núllið.

Með neyðarkalli borg­ar­inn­ar fylgdu niður­stöður starfs­hóps, sem skipaður var af borg­ar­stjóra, hvar sátu marg­ir helstu stjórn­end­ur Reykja­vík­ur­borg­ar. Þar sagði meðal ann­ars að viðbótar­fjármögn­un­arþörf borg­ar­sjóðs um­fram for­send­ur fjár­hags­áætl­un­ar fyr­ir 2020-21 myndi nema 39 millj­örðum króna. Þá væru ótald­ir 36,5 millj­arðar sem myndu falla til næstu árin. Jafn­framt sagði í niður­stöðunum: „Vand­inn snýst hins veg­ar ekki aðeins um skamm­tíma fjár­mögn­un­ar­vanda held­ur stefn­ir í al­ger­lega ósjálf­bær­an rekst­ur til margra ára. Þessa ósjálf­bærni er ekki hægt að leysa með hækk­un leyfi­legr­ar skatt­lagn­ing­ar eða þjón­ustu­gjalda eða með stór­felld­um niður­skurði í út­gjöld­um borg­ar­inn­ar. Hefðbundn­ar aðferðir eru ekki í boði.“

Skóg­ar­bónd­inn, Þór­dís Lóa, virt­ist alls ómeðvituð um neyðarkall borg­ar­inn­ar til rík­is­sjóðs – jafn­vel þótt hún hefði á vor­dög­um sett er­indið sjálf á dag­skrá borg­ar­ráðs. Sá kann ekki að segja af súru sem aldrei sýp­ur nema sætt. Meiri­hluta­flokk­arn­ir hafa meiri áhuga á eig­in inn­an­tóma lof­orðahjómi, en úr­lausn flók­inna viðfangs­efna. Þór­dís Lóa rækt­ar garðinn sinn, en sýn­ir fjár­mál­um borg­ar­inn­ar full­komið hirðuleysi.

Hirðuleysi í op­in­ber­um fjár­mál­um

Neyðarkall borg­ar­inn­ar sýndi glöggt al­var­lega stöðu borg­ar­sjóðs – mun al­var­legri en stöðu annarra sveit­ar­fé­laga. Nú bít­ur meiri­hlut­inn í það sjálf­skapaða súra epli, að hafa haldið frjáls­lega um rekst­ur borg­ar­sjóðs und­anliðin kjör­tíma­bil. Hirðuleysið er al­gert – borg­in er varn­ar­laus nú þegar skór­inn krepp­ir – og ábyrgðin er meiri­hlut­ans.

Sam­hliða neyðarkall­inu kynn­ir meiri­hlut­inn hið svo­kallaða „Græna plan“ sem kall­ar á út­gjöld sem nema 100 millj­örðum hið minnsta, næstu 5-10 árin. Hvernig áformin sam­ræm­ast ósjálf­bær­um rekstri Reykja­vík­ur­borg­ar er full­kom­lega á huldu. Minn­ir helst á ný­lega ábata­grein­ingu borg­ar­inn­ar á ferðaþjón­ustu, hvar borg­in kallaði á rík­isaðstoð og full­yrti ferðaþjón­ust­una kosta sveit­ar­fé­lagið 8,3 millj­arða ár­lega. Hag­ur borg­ar­inn­ar hef­ur þá vænt­an­lega vænkast veru­lega, nú þegar ferðaþjón­ust­an berst í bökk­um? Hér stend­ur ekki steinn yfir steini.

Þegar allt kem­ur til alls er einni spurn­ingu ósvarað. Er Þór­dís Lóa í full­kom­inni flónsku gagn­vart fjár­hag Reykja­vík­ur­borg­ar? Eða fer hún vís­vit­andi með ósann­indi? Ekki veit ég, hvort mér þykir verra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. júní 2020.