Ný tækni mun umbylta loftlagsmálunum

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra og Unnur Brá Konráðsdóttir aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar í samhæfingu loftslagsmála og stjórnarformaður Grænvangs komu í Pólitíkina og ræddu það sem efst er á baugi í loftlagsmálum. Þær segja að tæknin sé sífellt að breyta því hvernig við tökum á loftlagsvánni. Hlusta má á þáttinn hér.

Loftlagsmálin eru stórpólitískt viðfangsefni á sviði alþjóðastjórnmála og Sjálfstæðisflokkurinn lætur sitt ekki eftir liggja en nýlega tók til starfa loftlagsráð Sjálfstæðisflokksins sem annast stefnumótun á þessu sviði. Nú í vikunni kynnti svo ríkisstjórnin aðgerðaráætlun sína í loftlagsmálum en um er að ræða 48 aðgerðir, þar af 15 nýjar. Fjörutíu og sex milljörðum króna verður varið til helstu loftlagsaðgerða á fimm ára tímabili, eða til ársins 2024.

Stóru tíðindin eru þau að Ísland nær alþjóðlegum skuldbindingum sínum í loftslagsmálum um 29% samdrátt og gott betur, eða 35%. Til viðbótar eru aðgerðir sem eru í mótun taldar geta skilað 5-11%, eða samtals 40-46% samdrætti. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Þar segir líka að breyttar ferðavenjur fái nú aukið vægi og úrgangsmál og sóun séu dregin sérstaklega fram. Nýjar aðgerðir eru m.a. aukin innlend grænmetisframleiðsla, fjölgun vistvænna bílaleigubíla, stuðningur við orkuskipti í þungaflutningum, föngun kolefnis frá stóriðju, bæting fóðrunar búfjár til að draga úr iðragerjun og minnkun losunar frá byggingariðnaði.