Halla Sigrún Mathiesen er formaður Sambands Ungra Sjálfstæðismanna (SUS) en hún tók við starfinu í haust. Hún er 22 ára, uppalinn Hafnfirðingur og með BA gráðu í hagfræði, stjórnmálafræði og sögu frá University College London. Hún bjó í fimm ár á Ítalíu og útskrifaðist þar með alþjóðlegt stúdentspróf frá menntaskóla í Róm vorið 2015. Halla hefur sinnt ýmsum félagsstörfum innan flokksins m.a. sem formaður Stefnis, félags ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði og situr í fulltrúaráði flokksins þar. Hún starfar nú sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði Arion banka. Eftirfarandi viðtal við Höllu Sigrúnu er úr blaðinu Á réttri leið sem Sjálfstæðisflokkurinn gaf út í febrúar 2020, en blaðið í heild má nálgast hér.
Þú ert auðvitað bara nýbúin að taka við formennskunni en hvað hafið þið verið að framkvæma á þessum örfáu mánuðum sem þú hefur verið við stjórn?
Fyrsti viðburðurinn sem við héldum var afhending árlegra Frelsisverðlauna, en þau hlutu Björgvin Guðmundsson hjá KOM almannatengslum og Björkin, eina sjálfstætt rekna fæðingarstofa á landinu. Við höfum síðan nýtt tímann í þónokkuð af ályktunum um málefni ríkisstjórnarinnar, meðal annars um niðurfellingu ráðherra Sjálfstæðisflokksins á yfir 1000 reglugerðum og um lausasölu lyfja. Þá vorum við með nýstárlegt jóladagatal þar sem við andmæltum fjölmiðlafrumvarpi Lilju Alfreðsdóttur og bentum á aðrar leiðir en ríkisstyrki til að efla fjölmiðla landsins.
Við erum núna að leggja línurnar fyrir vorið. Tvennt af því sem vert er að minnast á er að við stefnum á vinnustofu í utanríkisráðuneytinu um Norðurslóðir og hyggjumst taka loftslagsmál fyrir í ríkari mæli, en eins og allir vita eru þau ungu fólki mjög ofarlega á baugi í dag.
Af hverju ætti ungt fólk að fara í SUS?
Ef grunngildi Sjálfstæðisflokksins er eitthvað sem ungt fólk tengir við eða hefur áhuga á að fræðast meira um, þá er gefandi að umkringja sig fólki sem er þannig þenkjandi. Það er aðalástæðan fyrir því að ég er í þessu, ég hef brennandi áhuga á þessum málum og í þessum samtökum er ungt fólk sem deilir þeim áhuga. Þarna er líka harðduglegt og metnaðarfullt fólk sem er gaman að kynnast og læra af.