Við erum til taks

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Stund­um er ágætt að staldra við og horfa á það sem vel er gert, til dæm­is hvernig fá­menn þjóð tekst á við stór og vanda­söm verk­efni. Land­helg­is­gæsl­an er ágætt dæmi um það hvernig við Íslend­ing­ar tök­umst á við stór verk­efni. Ísland er ríf­lega 100 þúsund fer­kíló­metr­ar að stærð og efna­hagslög­saga okk­ar er 200 sjó­míl­ur. Þetta er gríðarlegt flæmi utan um litla þjóð.

Ég átti þess kost á dög­un­um að taka þátt í æf­ingu hjá Land­helg­is­gæsl­unni þar sem æfð var björg­un á hafi úti. Það er gott að fá tæki­færi til að sjá með eig­in aug­um verk­efn­in, aðstæðurn­ar, mann­skap­inn og hvernig sá tækja­búnaður sem Land­helg­is­gæsl­an býr yfir reyn­ist. Þar er allt til fyr­ir­mynd­ar.

Land­helg­is­gæsl­an sinn­ir marg­vís­leg­um verk­efn­um á sjó og landi og er einn þeirra þátta sam­fé­lags­ins sem við höf­um til­hneig­ingu til að gefa lít­inn gaum þar til þörf­in kall­ar. Mik­il­vægt er að vera vak­andi og gleyma ekki mik­il­vægi slíkra stofn­ana sam­fé­lags­ins meðan allt leik­ur í lyndi. Slík vangá get­ur reynst dýr­keypt þegar ógn steðjar að.

Bætt­ur skipa­kost­ur, stór­stíg­ar fram­far­ir í ör­ygg­is­mál­um sjó­manna, auk­in mennt­un og þjálf­un og ná­kvæm­ari veður­spár hafa orðið til þess að slys­um á sjó hef­ur fækkað veru­lega und­an­farna ára­tugi. Það er fagnaðaefni.

Þegar kem­ur að ör­yggi land­manna verða þó sí­fellt til nýj­ar áskor­an­ir. Auk­inn áhugi fólks á ferðalög­um um fjöll og firn­indi okk­ar fal­lega lands kalla á auk­inn viðbúnað og aukna viðbragðsgetu. Vöxt­ur í ferðaþjón­ustu jók álag á margs kon­ar innviði og þó hlé sé á því í bili má bú­ast við að ferðamönn­um fjölgi á ný með til­heyr­andi álagi á viðbragðsaðila. Ill­viðri síðasta vetr­ar, snjóflóð og jarðhrær­ing­ar minna okk­ur á að ís­lensk nátt­úra býr ekki aðeins yfir magnþrung­inni feg­urð held­ur eru hún einnig óblíð og óút­reikn­an­leg. Við slík­ar aðstæður er mik­il­vægt að eiga öfl­uga Land­helg­is­gæslu með góð tæki og þrautþjálfað fólk.

Hlut­verk Land­helg­is­gæsl­unn­ar er víðtækt. Þar má nefna ör­ygg­is- og lög­gæslu og eft­ir­lit á haf­inu, leit og björg­un, sjúkra­flutn­inga, sprengju­eyðingu, sjó­mæl­ing­ar og sjó­korta­gerð, aðstoð við lög­gæslu, aðstoð við al­manna­varn­ir, sam­skipti við er­lend­ar strand­gæsl­ur og svo má lengi telja.

Land­helg­is­gæsl­an nýt­ur verðskuldaðs trausts al­menn­ings sam­kvæmt könn­un­um und­an­far­in ár. Kjör­orð henn­ar „Við erum til taks“ er vel viðeig­andi og nær utan um það sem skipt­ir mestu í starf­sem­inni; að viðhalda þjálfuðum mann­skap og tækj­um til að geta brugðist hratt við þegar þörf­in kall­ar. Við sem för­um með mál­efni Land­helg­is­gæsl­unn­ar ger­um okk­ur grein fyr­ir mik­il­vægi henn­ar og vilj­um svo sann­ar­lega vera til taks fyr­ir hana hér eft­ir sem hingað til.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. júní 2020.