Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar þess efnis að fela ríkisstjórninni að láta setja upp minnisvarða til minningar um Hans Jónatan, fyrsta íslenska blökkumanninn sem flutti hingað eftir þrældóm í Danmörku og bjó á Djúpavogi.
Ályktunin er svohljóðandi: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta setja upp minnismerki til minningar um Hans Jónatan, þræl, sem kaus frelsið, sem næst verslunarhúsunum á Djúpavogi þar sem hann starfaði. Minnismerkið verði fyrst og fremst ákall um það frelsi sem er göfugast allra mannréttinda og má aldrei gleymast þótt móti blási í erfiðum heimi.“
Í greinargerð með frumvarpinu segir að Hans Jónatan hafi fæðst á St. Croix í Dönsku Jómfrúaeyjum árið 1784. Hann var fæddur í þrældóm því móðir hans var ambátt ættuð frá Afríku, faðirinn var hvítur, líklega danskur.
Sjö ára að aldri var Hans Jónatan fluttur til Kaupmannahafnar á heimili eigenda sinna, Schimmelmannhjóna, sem þá voru flutt til Danmerkur frá St. Croix. Hann gat sér gott orð í orustunni um Kaupmannahöfn árið 1801. Það dugði honum þó ekki til að losna undan ánauð. Eigandi hans höfðaði sögulegt mál til að staðfesta eign sína á Hans Jónatan og vann það mál. Hans Jónatan sætti sig ekki við niðurstöðuna, hann kaus frelsi og strauk til Íslands árið 1802. Hann settist að á Djúpavogi þar sem hann gegndi verslunarstörfum og gerðist bóndi.
Íslendingar tóku Hans Jónatan vel og hann reyndist góður þegn. Ekkert bendir til að hann hafi þurft að líða fyrir dökkan hörundslit eða uppruna sinn í þrældómi. Afkomendur hans og eiginkonu hans, Katrínar Antoníusdóttur frá Hálsi í Hamarsfirði, eru nú um eitt þúsund.
Lagt er til að minnisvarðinn um Hans Jónatan verði reistur á Djúpavogi.
Þingsályktunartillöguna má finna hér.