Einkaframtakið er líkt og fleinn í holdi

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Hafi ein­hvern tíma verið þörf fyr­ir öfl­ugt einkafram­tak, – snjalla frum­kvöðla, út­sjón­ar­sama sjálf­stæða at­vinnu­rek­end­ur, ein­stak­linga sem eru til­bún­ir til að setja allt sitt und­ir í at­vinnu­rekstri til að skapa verðmæti og störf – þá er það núna og á kom­andi árum. Líkt og áður verður það einkafram­takið – viðskipta­hag­kerfið – sem legg­ur þyngstu lóðin á vog­ar­skál­ar verðmæta­sköp­un­ar. Án öfl­ugs einkafram­taks tekst okk­ur ekki að kom­ast út úr erfiðum efna­hagsþreng­ing­um, tryggja öfl­ugt vel­ferðar­kerfi og góð lífs­kjör.

Þessi ein­földu sann­indi vefjast fyr­ir mörg­um, ekki síst þeim stjórn­mála­mönn­um sem telja það sér til fram­drátt­ar að ala á öf­und og fjand­skap í garð einkafram­taks­ins. Ónýtt tæki­færi til að leggja steina í götu at­vinnu­rek­enda eru í hug­um þeirra, sem líta ár­ang­ur í rekstri horn­auga, glötuð tæki­færi.

Oft hef­ur andað köldu í garð at­vinnu­rek­enda frá rík­is­vald­inu en lík­lega næðir hvergi meira um sjálf­stæða at­vinnu­rek­and­ann en í höfuðborg­inni.

Varn­ar­stríð

Kaup­menn hafa verið í stöðugu varn­ar­stríði við borg­ar­yf­ir­völd. Engu er lík­ara en að meiri­hluti borg­ar­stjórn­ar leggi sér­stak­an metnað í að flæma alla versl­un úr miðbæn­um. Skipu­lega hef­ur verið dregið úr um­ferð með þreng­ing­um, lok­un­um og fækk­un bíla­stæða. Aðgengi hef­ur verið heft og það kem­ur illa niður á viðskipt­um í versl­un og þjón­ustu. Lé­leg lýs­ing og um­hirða gera ástandið verra. Sjón­ar­mið kaup­manna eru hundsuð, lítið gert úr at­huga­semd­um og ábend­ing­um um hvað mætti bet­ur fara til að styrkja versl­un og þjón­ustu í miðbæn­um – gera hann líf­legri og skemmti­legri.

Fyr­ir liðlega sex árum komu borg­ar­yf­ir­völd í veg fyr­ir að einka­fyr­ir­tæki fengi leyfi til að safna líf­ræn­um úr­gangi frá heim­il­um. Engu skipti þótt Reykja­vík sinnti ekki þess­ari „grunnþjón­ustu“ við borg­ar­búa og geri raun­ar ekki enn. (Hér verður harm­saga gas- og jarðgerðar­stöðvar Sorpu ekki rak­in). Íbúar Ak­ur­eyr­ar og Dal­vík­ur hafa í mörg ár flokkað líf­rænt sorp sem nýtt er til moltu­gerðar. Þá þjón­ustu veit­ir Gámaþjón­ust­an í sam­starfi við sveit­ar­fé­lög­in. Borg­ar­ráð hef­ur komið í veg fyr­ir að sama fyr­ir­tæki geti boðið sína þjón­ustu í Reykja­vík.

Nokkr­um árum áður lagði Reykja­vík til at­lögu við Gámaþjón­ust­una, sem hafði boðið borg­ar­bú­um upp á End­ur­vinnslutunn­una.

Hernaður borg­ar­yf­ir­valda gagn­vart Fluggörðum á Reykja­vík­ur­flug­velli hófst fyr­ir nokkr­um árum og stend­ur enn. Flug­skól­ar, flug­klúbb­ar, fyr­ir­tæki og ein­stak­ling­ar eru inn­an Flugg­arðanna sem eru hluti af þekk­ing­arþorpi flugs­ins á Íslandi. Flug­fé­lagið Ern­ir hef­ur átt í vök að verj­ast og ný­lega var ráðist að fyr­ir­tæk­inu þar sem henda átti eign­ar­rétt­ind­um út í hafsauga. Sú til­raun mistókst – að minnsta kosti í bili.

Er furða þótt kom­ist sé að þeirri niður­stöðu að einkafram­takið sé eins og fleinn í holdi meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar?

For­rétt­indi rík­is­fyr­ir­tækja

Því miður er rík­is­valdið oft mót­drægt einka­rekstri, þó það sé ekki alltaf með sama skipu­lega hætt­in­um og ger­ist í höfuðborg­inni. En dæm­in eru fyr­ir hendi – sum verri en önn­ur. (Að þessu sinni eru ekki tök á því að fjalla um hvernig flókn­ar reglu­gerðir og íþyngj­andi laga­fyr­ir­mæli gera fyr­ir­tækj­um erfitt fyr­ir ekki síst þeim sem minni eru. Hið sama á við um skatta- og gjald­um­hverfið).

Ríkið hef­ur tryggt sér for­rétt­indi á sviði smá­sölu­versl­un­ar. Með skatta- og tollleysi hafa yf­ir­burðir Frí­hafn­ar­inn­ar í Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar verið tryggðir, á kostnað kaup­manna og inn­lendra birgja (inn­flytj­enda). Markaðsráðandi staða Frí­hafn­ar­inn­ar í snyrti­vör­um er ekki vegna þess að starfs­menn rík­is­fyr­ir­tæk­is­ins séu snjall­ari og betri kaup­menn en aðrir.

Í þessu sam­bandi er ágætt að halda til haga hvernig op­in­bera hluta­fé­lagið Isa­via kom fram við Kaffitár þegar því að bolað út úr Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar. Þá op­in­beraðist vel sú leynd­ar­hyggja sem hef­ur grafið um sig í op­in­ber­um hluta­fé­lög­um, sem eru í sam­keppn­is­rekstri við einkaaðila. Annað rík­is­fyr­ir­tæki mis­steig sig al­var­lega þegar það rudd­ist inn á prent­markaðinn.

Op­in­ber hluta­fé­lög hafa jafn­vel reynst op­in­ber­um eft­ir­litsaðilum erfið. Það tók Rík­is­end­ur­skoðun mörg ár að fá stjórn­end­ur Rík­is­út­varps­ins ohf. til að fara eft­ir ákvæðum laga um fjár­reiður rík­is­ins. Í tvö ár virti rík­is­fyr­ir­tækið skýr laga­fyr­ir­mæli um stofn­un dótt­ur­fé­lags vegna sam­keppn­is­rekstr­ar að vett­ugi.

Ekki má gleyma því hvernig ríkið hef­ur ákveðið að koma í veg fyr­ir eðli­lega og sann­gjarna sam­keppni á fjöl­miðlamarkaði. Með skatt­heimtu á einka­rekna fjöl­miðla og millj­arða for­gjöf frá skatt­greiðend­um, er yf­ir­burðastaða Rík­is­út­varps­ins geir­negld. Það sem meira er; Rík­is­út­varpið nýt­ur ein­hverr­ar sér­stakr­ar friðhelgi um­fram all­ar aðrar rík­is­stofn­an­ir. Sjálf­stæðum fjöl­miðlum blæðir út og hug­mynd­in um að setja einka­rekna fjöl­miðla á rík­is­styrk fær byr und­ir báða vængi, enda segj­ast all­ir vilja veg frjálsr­ar fjöl­miðlun­ar sem mest­an.

Ronald Reag­an, fyrr­ver­andi for­seti Banda­ríkj­anna, hitti nagl­ann á höfuðið þegar hann lýsti hug­mynd­um rík­is­af­skipta­sinna:

„Ef það hreyf­ist, skatt­leggðu það. Ef það held­ur áfram að hreyf­ast, settu lög. Ef það stopp­ar, settu það á rík­is­styrk.“

Vel­ferðarsam­fé­lag góðra lífs­kjara verður ekki byggt upp með slíkri hug­mynda­fræði. En það skipt­ir þá engu sem í hjarta sínu telja einka­rekst­ur af hinu vonda.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. júní 2020.