Þekkingasetur í úrgangsmálum

Örn Þórðarson skrifar:

Málefni úrgangsstjórnunar hafa verið ofarlega á baugi síðustu misserin.  Áhugi almennings á umhverfismálum og endurvinnslu hefur vaxið stórkostlega á sama tíma. Nú er lag segi ég. Mikið hefur verið rætt um vandamál en nú vil ég koma með tillögu að lausn.  Tillagan er um stofnun þekkingaseturs, eða nýsköpunar- og frumkvöðlasetur í umhverfis- og úrgangsstjórnunarmálum, og verður hún lögð fram í borgarstjórn. Það mega allir eigna sér þessa tillögu, allir sem áhuga hafa.  En í tillögunni er gert ráð fyrir að Reykjavík taki ákveðið frumkvæði í að leiða saman alla þá aðila sem að málinu koma og áhuga hafa á því. Þessir aðilar eru ansi margir, stofnanir, félög, fyrirtæki og áhugaaðilar, allt frá stærstu sveitarfélögum niður í einstaklinga sem láta sig málið varða.  Tillagan gengur út á að finna sameiginlegan vettvang þar sem hægt að er að draga fram sérþekkingu ólíkra aðila, fjölbreyttan áhuga og sérstaka hagsmuni.

Græna hagkerfið

Þetta er ekkert nýtt, margir þekkja klasasamstarf og þekkingarsetur, en allir þekkja íslenska sjávarklasann og hvernig þar hefur tekist til, það orðspor nær langt útfyrir landsteinana. Í bláa hagkerfi sjávarklasans eru sköpuð ný verðmæti.  Í þekkingasetri í úrgangsmálum má leiða saman fjöldan allan af aðilum tl að skapa verðmæti úr því sem áður var kostnaður.  Til dæmis mátti sameina meira en aldalanga reynslu og þekkingu landgræðslufélaga við nýsköpunarhugmyndir framsækinna frumkvöðla.  Nú er lag að leggja af stað og Reykjavíkurborg einmitt rétti aðilinn til að vera leiðandi í þeirri vegferð.  Tillagan fellur vel inn í hugmynd borgarinnar sem nýlega var kynnt, um græna planið. Tillagan fellur líka ágætlega að þeim hugmyndum borgarinnar sem kynntar hafa verið um að bjóða aðstöðu fyrir hugmyndaríka aðila.

Það græða allir

Tillagan er ekki flókin og henni fylgir lítill sem enginn kostnaður.  Finna þarf áhugasama og drífandi aðila innan borgarinnar, kynna hugmyndina út á við og laða að ennþá áhugasamari og meira drífandi aðila að borðinu. Nóg ef af húsnæði til að bjóða sem aðstöðu í upphafi.  Í greinargerðinni sem fylgir tillögunni segir meðal annars; fjölmargar stofnanir á vegum borgarinnar hafa með umhverfis- og úrgangsmál að gera, sem og  ríkisstofnanir, félagasamtök, áhugahópar og fjöldinn allur af einstaklingum.  Hlutverk borgarinnar yrði að vera í forystu um að leiða þessa aðila saman, meðal annars í þeim tilgangi að verða bakhjarlar nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs í þessum málaflokkum.  Hver samstarfsaðili kæmi með sína sérþekkingu og sitt hlutverk til að aðstoða frumkvöðla sem vilja láta til sín taka málaflokknum með nýjum, frumlegum og skapandi hætti.  Fyrirmyndir að slíku frumkvöðlasetri eru víða, jafnt innanlands sem utan. Ekki er gert ráð fyrir beinu fjárframlagi borgarinnar á fyrstu stigum verkefnisins, annað en að nýta, annars autt, húsnæði á hennar vegum.  Á þessari tillögu græða allir.  Vinnum hana áfram og látum hana stækka.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. júní 2020.