Reykjavíkurflugvöllur og Trump-stíllinn

Björn Gíslason skrifar:

Borgarstjóri og meirihlutinn í Reykjavík vinna leynt og ljóst að því að koma Reykjavíkurflugvelli burt úr Vatrnsmýrinni þrátt fyrir að gerður var samingur 28. nóvember á síðasta ári milli ríkis og borgar, um að rekstraröryggi flugvallarins yrði tryggt á meðan rannsóknir á möguleikum á nýjum flugvelli í Hvassahrauni færu fram. Borgaryfirvöld hafa beitt öllum brögðum til að lama starfsemi vallarins og nýjasta útspilið í þeim efnum eru fyrirætlanir um að rífa flugskýli sem er viðhaldsstöð Flugfélagsins Ernis sem heldur úti áætlunarflugi til fimm áfangastaða á landinu auk þess að sinna sjúkraflugi og líffæraflutningum.

Í fréttum Stöðvar2 föstudagskvöldið 5. júní sl. var frétt um málið og viðtal tekið við forstjóra flugfélagsins sem skýrir frá því að fulltrúar borgarinnar hafi á fundi þann 30. apríl sl. tilkynnt að flugskýlið yrði rifið án bóta svo leggja mætti  veg á þeim stað sem skýlið stendur nú vegna framkvæmda við fyrirhugaða byggð í Skerjafirði.

Viðbrögð borgarstjóra og formanns skipulags og samgönguráðs borgarinnar voru á þann veg, að um væri að ræða fullkomnlega ástæðulaust upphlaup.  Haft hafi verið samband við verkfræðistofu og stofan  beðin um að finna aðrar leiðir en þær að leggja veginn í gegnum flugskýlið.

Sunnudagsmorguninn 7. júní birtist svo frétt á visir.is þar sem fundargerð fundar fulltrúa borgarinnar með forstjóra flugfélagsins er reifuð.  Þar kemur fram að flugskýlið sem slíkt yrði ekki nothæft þar sem það myndi enda utan girðingar eftir að framkvæmdir við nýja Skerjafjarðarhverfið hefjast.  Flugvallargirðingin yrði færð þannig að flugskýlið stæði fyrir utan girðingu.  Fundargerðin endar svo á því að fulltrúi borgarinnar býðst til þess að skoða málið betur, en telur þó víst að búið sé að því.  Teikningin sem sýnd var á fundi skipulags og samgönguráðs þann 4. júní sl., er sjálfsagt skýrasta dæmið um að borgin hafi skoðað málið betur, en ekki komist að annarri niðurstöðu en forstjóra Flugfélagsins Ernis var kynnt á fundinum 30. apríl.

Það eru auðvitað ótal hlutir í vinnubrögðum borgarinnar í þessum málum sem krefst frekari skoðunar. Fyrir það fyrsta t.d. þá hafa borgaryfirvöld lýst því yfir að framkvæmdirnar í Skerjafirðinum muni ekki á nokkurn hátt skerða flugstarfssemi á flugvellinum.  Sú fullyrðing rímar ansi illa við það að einn mikilvægasti þátturinn í starfsemi flugvallarins verður settur utan girðingar og verður þar með ekki hluti flugvallarins eða þeirrar starfsemi sem ekki á að skerða.  Flugfélag án flugskýlis er dauðadæmt dæmi.   Eins hlýtur það að vera hverjum manni ljóst að ákvörðun um  niðurrif flugskýlisins hefur verið tekin og borgin ekki enn að minnsta kosti hugsað sér að breyta einhverju þar um, sé enn og aftur vitnað til umrædds fundar í skipulags og samgönguráði borgarinnar.

Það er því skondið að  sjá nú hvern meðhlaupara í meirihluta borgarstjórnar taka Trump-stílinn í umræðu um þetta mál og hrópa : “Falsfréttir, falsfréttir”.  Mögulega er það þó þannig að þegar fólk hefur slæman málstað að verja, eins og reyndar gerist oftar en ekki með herra Trump, að gripið sé til upphrópana um falsfréttir, misskilning og rangfærslur.

Enn sem komið er, eru þó viðbrögð borgarstjórnarmeirihlutans í raun ekkert annað en falsfréttir og rangfærslur!