Egill Þór Jónsson borgarfulltrúi:

Við Sjálfstæðismenn óskuðum eftir því á síðasta borgarstjórnarfundi að ræða málefni Sorpu ásamt framkvæmdum á Gas- og jarðgerðarstöðinni sem nú rís á Álfsnesi.

Þrátt fyrir mikinn kostnað og umfang verkefnisins er mikil óvissa um framtíð og notagildi stöðvarinnar. Í borgarstjórnarsalnum, sem er eini opni umræðuvettvangur borgarstjórnar, notuðu fulltrúar minnihlutans tækifærið til þess að óska eftir svörum við ótal spurningum sem tengjast stöðinni, bæði umhverfislegsog rekstarlegs eðlis. Framkvæmdin er komin eitt þúsund og sex hundruð milljónir króna fram úr áætlun. Stöðin á að framleiða moltu og metangas. Enginn samningur um sölu á metangasinu hefur verið undirritaður, lítil eftirspurn er eftir metangasi og enn fremur er óvíst hvort moltan muni standast tilskildar kröfur sem til hennar eru gerðar. Því er raunveruleg hætta á að brenna þurfi gasið og urða moltuna. Sambærilegri stöð í Noregi var lokað fimm árum eftir opnun.

Á áðurnefndum fundi óskuðu fulltrúar minnihlutans eftir svörum við ýmsum spurningum en fengu engin svör. Sumir brugðu á það ráð að spyrja aftur, en engin svör bárust. Í siðareglum stjórnar Sorpu segir orðrétt um hlutverk stjórnarmanna: „Þeir skulu bera ábyrgð gagnvart íbúum höfuðborgarsvæðisins í heild og svara fyrirspurnum almennings og fjölmiðla um störf sín með rökstuðningi fyrir aðgerðum eða starfsemi þjónustu sem þeir bera ábyrgð sem kjörnir fulltrúar í stjórn Sorpu.“

Þrátt fyrir það hljóp fulltrúi Samfylkingar upp í pontu og sakaði alla þá sem spurðu spurninga um ítrekað einelti í garð borgarfulltrúa Vinstri grænna sem jafnframt er eini fulltrúi Reykjavíkur í stjórn Sorpu. Fyrir það eitt að spyrja spurninga.

Er það einelti að leita svara við spurningum um milljarða verkefni sem er fjármagnað af skattgreiðendum? Er það einelti að beina spurningum til kjörinna fulltrúa sem fá greitt fyrir ábyrgð og setu í stjórnum fyrir hönd borgarinnar? Þær vangaveltur skil ég eftir hjá borgarbúum Reykjavíkurborgar. Þetta er að minnsta kosti ný aðferð meirihlutans í Reykjavík til að kasta ábyrgðinni frá sér.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. júní 2020.