Borgin á hliðarlínunni

Katrín Atladóttir borgarfulltrúi:

Nú leggjast þjóðarleiðtogar og ríkisstjórnir um allan heim á árarnar með innspýtingum í efnahagslífið, til að halda fyrirtækjum í rekstri og fólki í vinnu. Allt með það að markmiði að grynnka og stytta kreppuna vegna kórónuveirunnar. Íslensk stjórnvöld hafa kynnt þrjá aðgerðapakka sem talið er að kosti í kringum 350 milljarða króna. Íslenska ríkið er vel í stakk búið til að takast á við þessa atburði, þar sem það hefur markvisst greitt niður skuldir á síðustu árum.

Þessu er öfugt farið hjá Reykjavíkurborg, þar sem fram hefur farið fordæmalaus skuldaaukning í góðærinu sem nú hefur runnið sitt skeið. Þannig jukust skuldir borgarinnar um tæp 85 prósent að nafnverði á árunum 2012 til 2019 en eigið fé aðeins um tæp 19 prósent. Þar fór forgörðum gullið tækifæri til að safna í sarpinn.

Einn af tekjustofnum sveitarfélaga eru fasteignagjöld. Til grundvallar liggur fasteignamat, en hækkun þess í borginni hefur verið gríðarleg. Frá 2016 til 2021 hækkaði fasteignamat um tæplega 60 prósent. Það hefur hækkað um 22 prósent frá síðustu borgarstjórnarkosningum. Fasteignamat fjölbýlis í borginni hækkar um 2,4 prósent frá núverandi mati til næsta árs, í miðri kreppu.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. júní 2020.