Stokkum spilin

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:

Árið 1926 fækkaði fram­sýnn kapítal­isti, Henry Ford, viku­legum vinnu­dögum í verk­smiðjum sínum úr sex í fimm. Þar með inn­leiddi hann fjöru­tíu stunda vinnu­viku sem var sá ná­kvæmi tíma­fjöldi sem Ford taldi nauð­syn­legan svo fram­leiða mætti bif­reiðar í sam­ræmi við eftir­spurn. Fjöru­tíu stunda vinnu­vikan var svo lög­leidd í Banda­ríkjunum árið 1940 en hér­lendis árið 1971.

Síðan eru liðnir fjöl­margir ára­tugir. Heimurinn hefur tekið ó­trú­legum breytingum. Vél­væðing, tölvu­væðing, snjall­væðing og net­væðing hafa gjör­breytt um­heiminum – en á­fram miðar vinnu­um­hverfi sam­tímans við fram­leiðslu­ferli Ford bif­reiða árið 1926. Það er heil­brigt að velta því upp hvers vegna vinnu­dagur sam­tímans er enn átta stundir. Hvers vegna net­væðing hefur ekki leitt til aukinnar fjar­vinnu. Hvers vegna vinnu má ekki stundum mæla í af­köstum fremur en klukku­stundum. Hvers vegna lands­menn hefji flestir sinn vinnu­dag um sama leyti.

Á tímum sam­komu­banns dró veru­lega úr um­ferðar­töfum í Reykja­vík. Vinnu­staðir buðu sveigjan­legri vinnu­tíma og mögu­leikum til fjar­vinnu fjölgaði. Mörgum urðu ljós þau gífur­legu tæki­færi sem felast í auknum sveigjan­leika, ekki síst svo draga megi úr um­ferðar­álagi. Sam­tök iðnaðarins á­ætluðu að 15% minni um­ferðar­tafir gætu skilað fólki og fyrir­tækjum 80 milljarða króna á­bata á ör­fáum árum. Þá eru ó­talin þau auknu lífs­gæði sem felast í greiðum sam­göngum.

Svo unnt verði að standast skuld­bindingar Parísar­sam­komu­lagsins þarf að minnka mengandi um­ferð um 5% ár­lega – það sam­svarar 6,7 km akstri á hvern íbúa viku­lega. Þessu mark­miði mætti hæg­lega ná með þeirri ein­földu að­gerð að tryggja starfs­fólki einn fjar­vinnu­dag viku­lega. Á­vinningurinn er marg­vís­legur.

Nú er lag að hefja við­ræður við stærstu vinnu­staði borgarinnar um sveigjan­legri vinnu­tíma. Síðustu mánuðir hafa sýnt hve sveigjan­leikinn getur aukið lífs­gæði og létt á um­ferðar­álagi. Að­gerðin er ein­föld og kostar skatt­greið­endur ekkert. Nú er kominn tími til að endur­skoða þau kerfi sem við höfum skapað sam­fé­laginu – og kanna hvort þau séu raun­veru­lega að þjóna okkur. Nú er kominn tími til að stokka spilin!

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. júní 2020.