Léleg þjónusta við íbúa Grafarvogs

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Grafarvogur mætir aftur afgangi þegar kemur að því að þrífa hér götur og stíga. Vorhreinsun líkt og Reykjavíkurborg kallar þessa hreinsun mun ljúka hér í Grafarvogi 11. júní eða rétt fyrir sumarsólstöður. Það sjá það auðvitað allir sem vilja að það er ótækt að ekki sé búið að þrífa götur og stíga fyrr en um mitt sumar. Það er sama hvaða hverfi á þar í hlut, það er þó hlutskipti okkar Grafarvogsbúa að vera síðust allra hverfa annað árið í röð. Það virðist vera þannig að við drögum ansi oft stutta stráið þegar kemur að því að fá þjónustu frá Reykjavíkurborg.

Skólastarf í norðanverðum Grafarvogi

Áskorun hefur komið frá foreldrafélagi Kelduskóla til allra borgarfulltrúa um að endurskoða áform um sameiningar og lokun skóla í norðanverðum Grafarvogi. Þar er sagt að vinna við breytingarnar sé langt á eftir áætlun, ekki hafi verið fullmannað í stöður kennarar við skólana, innleiðingarteymi hafa aðeins átt einn fund, ekkert mat hefur farið fram á nauðsynlegri fjárfestingu vegna húsgagna eða tölvukaupa. Ekki hafi nýtt námsefni vegna „Nýsköpunarskóla“ verið kynnt og óljóst er með samgöngubætur þeirra sem eiga að fara gangandi eða hjólandi á milli hverfa. Eins hafa ekki verið haldnir fundir með foreldrum þrátt fyrir loforð um það, því eru foreldrar skiljanlega ósáttir.  Þegar þessi grein er skrifuð eru um tvær vikur eftir af skólastarfinu og það er ljóst að verkefnin eru mörg og krefjandi og jafnvel bjartsýnisfólk á ekki auðvelt með að sjá þeim lokið fyrir upphaf næsta skólaárs. Það er því ótrúlegt að börnum í norðanverðum Grafarvogi sé aftur boðið upp á sameiningar og ekkert hafi lærst af þeim sameiningum sem farið var í árið 2012. Albert Einstein á að hafa sagt að skilgreiningin á geðveiki væri að gera það sama aftur og aftur en búast samt við annarri niðurstöðu. Af hverju börn í norðanverðum Grafarvogi þurfa alltaf að vera tilraunadýr meirihlutans í Reykjavík er sorglegt, þau eiga það skilið að þeim sé sinnt sómasamlega. Ekki hefur aðeins komið í ljós að sameiningarnar í Grafarvogi árið 2012 voru langt í frá vel heppnaðar heldur er nú verið að slíta í sundur sameiningu Háaleitisskóla og færa aftur í fyrra horf og hafa tvo aðskilda skóla Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla. Meirihlutanum ætti því að vera ljóst að skólasameiningar eru ekki vænlegur kostur hvorki til þess að fegra bókhaldið eða veita betri þjónustu.

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu 3. júní 2020.