Rjúkandi rúst?

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:

Á landsfundi Samfylkingar árið 2018 sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, fjárhagsstöðu borgarinnar hafa verið “rjúkandi rúst” eftir valdatíma Sjálfstæðismanna sem lauk árið 2010. Vísaði borgarstjóri til tveggja ára setu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, í borgarstjórastóli í Reykjavík.

Sjálfstæðisflokkurinn tók við stjórnartaumum í borginni árið 2008, í aðdraganda bankahruns. Við samfélaginu blöstu krefjandi aðstæður, atvinnuleysi jókst umtalsvert og fleiri sóttu í velferðarúrræði borgarinnar. Allt benti til þess að rekstur borgarsjóðs yrði þungur. Yfir þennan tveggja ára tíma tókst þó að halda örugglega um fjárhag borgarinnar. Skuldir borgarsjóðs jukust einungis um 3 milljarða meðan tekjur drógust saman um tæpan milljarð. Borgarsjóður var einn fárra sem skilaði jákvæðri rekstrarniðurstöðu mitt í djúpri efnahagslægð.

Nú eru liðin tvö ár af núverandi kjörtímabili borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar – kjörtímabili sem hófst á toppi hagsveiflunnar. Yfir þetta tveggja ára tímabil hafa tekjur borgarsjóðs aukist um 8 milljarða árlega en skuldir jafnframt aukist um 14 milljarða. Sömu sögu má segja af fyrri kjörtímabilum borgarstjóra, þar sem skuldir jukust um 58%, þrátt fyrir 35 milljarða aukningu á skatttekjum árlega. Tekjutuskan undin til fulls og jákvæðar efnahagsaðstæður ekki nýttar til skuldaniðurgreiðslu.

Mótsagnir Dags

Í upphafi maímánaðar fullyrti borgarstjóri að ársreikningur Reykjavíkurborgar sýndi öðru fremur sterkan fjárhag borgarinnar. Tölurnar tala hins vegar öðru máli. Þrátt fyrir tekjuaukningu síðasta árs jókst skuldsetning borgarinnar um 21 milljarð. Launakostnaður hækkaði samhliða fjölgun stöðugilda og rekstrarkostnaður jókst um 9%. Báknið stækkaði í tekjugóðæri og tækifærum til skuldaniðurgreiðslu var sólundað. Borgarstjóri bjó ekki í haginn fyrir mögru árin.

Örfáum dögum áður sendi Reykjavíkurborg frá sér svohljóðandi athugasemdir við aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna áhrifa COVID-19: „Vandinn snýst hins vegar ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára. Þessa ósjálfbærni er ekki hægt að leysa með hækkun leyfilegrar skattlagningar eða þjónustugjalda eða með stórfelldum niðurskurði í útgjöldum borgarinnar. Hefðbundnar aðferðir eru ekki í boði. Þá er ekki hægt að leysa þetta með stórfelldum lánveitingum þar sem veltufé frá rekstri mun ekki til margra ára framundan standa undir afborgunum.”

Á þessum grundvelli kallaði borgin eftir beinum óendurkræfum fjárhagslegum stuðningi frá ríkinu, svo höfuðborgin gæti staðið undir þjónustuskyldum sínum við íbúana og heimilin. Öðrum kosti væri rekstur borgarsjóðs ósjálfbær. Það gleymist þó að nefna að rekstur borgarsjóðs var ósjálfbær löngu fyrir áhrif COVID-19, enda gera fyrri fjárhagsáætlanir ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu, ef frá er talin sala á byggingarétti. Borgarsjóður reiðir sig á einskiptistekjur svo hanga megi réttu megin við núllið.

Neyðarkall Reykjavíkurborgar fer illa saman við fullyrðingar borgarstjóra um „öðru fremur sterkan fjárhag”. Hér fer ekki saman, hljóð og mynd. Fjárhagslegar sjónhverfingar borgarstjóra eru þekkt stærð. Nú þarf að kalla hann til ábyrgðar.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 3. júní 2020.