Týndi meirihlutinn

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Þegar meirihlutinn í Reykjavík fer af stað með ný verkefni þá gera þau það með stolti. Þau kynntu stolt nýja menntastefnu, menntastefnu sem ber yfirskriftina „Látum draumana rætast“. Það er þó fjarri lagi að draumar allra reykvískra barna séu að rætast. Úthlutun fjármagns til sérkennslu og stuðnings er ekki nægileg og sama máli gegnir um aðstoð við börn sem eru af erlendu bergi brotin. Þetta hefur Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar bent á. Það eru því brostnir draumar víða í Reykjavík.

Veik út af mygluðu húsnæði

Í Fossvogsskóla eru börn veik, börnin fá blóðnasir í tíma og ótíma, sum kasta upp, sum fá mikla höfuðverki, mörgum líður illa. Þeim líður illa í skólanum sínum. Foreldrar hafa lengi óskað eftir upplýsingum um þær viðgerðir sem voru gerðar á skólanum. Þrátt fyrir að hafa ítrekað haft samband við kjörna fulltrúa og starfsfólk skóla- og frístundasviðs þá fengu foreldrar ekki svör fyrr en þeir fengu lögfræðing til þess að senda inn erindi og óska eftir svörum. Það er orðið ansi hart þegar foreldrar grunnskólabarna í Reykjavík þurfa að leita sér lögfræðiaðstoðar til þess að reyna að fá upplýsingar um hvort að það húsnæði sem þau eru skyldug að senda börnin sín í sé heilsuspillandi. Svar borgaryfirvalda til foreldra og starfsmanna í Fossvogsskóla var að búið sé að laga þá myglu sem fannst. Þetta er sett fram án þess að farið hafi fram nákvæmar mælingar eftir að húsnæðið var lagfært. Það eina sem foreldrar vilja er að sömu mælingar séu gerðar í húsnæðinu líkt og þegar myglan fannst. Það verður ekki gert og þess í stað er stuðst við aðrar mælingar frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Það var Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sem gerði mælingar í húsnæðinu sem komu ljómandi vel út nokkrum vikum áður en kom í ljós að húsnæðið var það illa farið af myglu að ekki var talið ráðlegt að nýta það undir kennslu. Það er nefnilega ekki sama hvernig mygla er mæld. Það er óskiljanlegt að ekki eigi að gera samskonar mælingar eftir viðgerðirnar á skólanum og gerðar voru áður. Fulltrúar meirihlutans í skóla og frístundaráði og borgarstjóri ætluðu að funda um málið og upplýsa síðan foreldra strax um næstu skref. Því miður bíða foreldrar enn eftir niðurstöðum þeirra funda. Foreldrar, börnin og starfsfólk óskar þess eins að skólastarf fari ekki fram í húsnæði sem er heilsuspillandi.

Einhverf og synjað um skólavist

En það er víðar pottur brotin í skólamálum Reykjavíkur en í Fossvogi. Nýlega var einhverfu barni synjað um það úrræði sem foreldrar og sérfræðiteymi óskuðu eftir og telja að hentar barninu best. Þrátt fyrir þetta felur borgin sig á bak við skriffinskusvör og undanslátt. Reykvíksk börn mega ekki fara í Arnarskóla þrátt fyrir að sérfræðiteymi telja það besta úrræðið. Þó svo að fjögur reykvísk börn stundi nú þegar nám við skólann þá fá ekki fleiri að njóta góðs af þessum frábæra skóla. Það er hlutverk borgarfulltrúa að bæta líf borgarbúa. Núverandi meirihluti lítur því miður ekki á hlutverk sitt með þeim hætti. Þau eru í varðstöðu fyrir kerfið. Ef kerfið vill ekki fleiri börn í Arnaskóla þá eru takmarkanirnar réttlættar með þvældum orðhengilshætti um úttektir, rýni og formsatriði. Í stað þess að láta börnin vera í forgangi.

Hvar er meirihlutinn

Þrátt fyrir loforð til foreldra í Fossvogsskóla um það að borgarstjóri skyldi skoða málið, þá hefur ekkert heyrst hvorki frá borgarstjóra eða öðrum í meirihlutanum. Enginn úr meirihlutanum hefur tjáð sig um málefni þeirra barna sem er verið að synja um skólavist í Arnarskóla, ekki frekar en þau væru ekki til.  Að nota stór og mikil orð er auðvelt, en sýna í verki að staðið sé við þau er það sem skiptir máli.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. maí 2020.