Umbreytingar

Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður:

Sá er þetta rit­ar hóf íhug­un um stjórn­mál þá er hann var 7 ára gam­all. Í fram­haldi af því leidd­ist hugs­un hans að at­vinnu­lífi eft­ir að hafa dvalið í bæ á lands­byggðinni. Sá bær var næst­lengst frá höfuðborg­inni ef um veg var að fara en sjó­leiðin var nokkru styttri. Þessi íhug­un hef­ur því staðið sem næst í 60 ár.

Niðurstaðan af íhug­un­inni er ein­föld. Yf­ir­burðir ein­stak­linga ráðast ekki af stund­ar­stærð eða stöðu á ein­um tíma, held­ur fyrst og fremst að aðlög­un og fram­sýni. Það sama á við um skipu­lags­heild­ir, hvort held­ur þær eru sveit­ar­fé­lög, fyr­ir­tæki eða stjórn­mála­flokk­ar.

Stjórn­mála­flokk­ar

Stjórn­mála­flokk­ar kunna að vera í af­leitri stöðu þegar þeir hafa byggt til­veru sína á sér­hags­mun­um og út­hlut­un gæða. Þegar al­menn­ar regl­ur eru inn­leidd­ar verður sér­tæk út­hlut­un næsta lít­ils virði. Völd her­for­ingja eru ekki mik­il í sam­an­b­urði við völd birgðavarðar­ins í her­deild­inni. Birgðavörður­inn hef­ur gæði til út­hlut­un­ar en her­for­ing­inn get­ur aðeins skipað til verka.

Þegar gæðin þrjóta verður hug­sjón­in að hafa eitt­hvert gildi. Þegar her­stöðinni á Miðnes­heiði var lokað misstu sósí­al­ist­ar glæp en eft­ir stend­ur „Ísland úr NATO“. Það verður held­ur fá­tæk­leg hug­sjón þegar flest þau ríki er aðild áttu að Var­sjár­banda­lag­inu eru geng­in í NATO og Evr­ópu­sam­bandið til að öðlast skjól til frels­is. Sósí­al­ist­ar í Múla­sýsl­um höfðu aðeins eina hug­sjón, en hún var sú að all­ir hefðu nóg að gera. Þó er vert að geta þess að í byrj­un lögðu þeir áherslu á bind­indi. „Ísland úr NATO, her­inn burt“ er orðið viðund­ur.

Stöðnun í sauðfjár­bú­skap

Það var ung­ur maður send­ur í sveit í bæ þegar hann var níu ára gam­all. Það var á tíma mik­illa umbreyt­inga í þeim bæ. Flest­ir höfðu sína kú og tún til að heyja. Það kom mjólk­ur­bú í bæ­inn og þá hurfu kýrn­ar og sjálfsþurft­ar­bú­skap­ur­inn. Nú er aðeins eitt kúa­bú í sveit­inni og mjólk­ur­búið hætt starf­semi. Ekið er með alla mjólk á Sel­foss. En, allri mjólk­ur­fram­leiðslu í ný­býla­hverf­inu und­ir Ing­ólfs­fjalli er hætt! Enda of nærri markaðnum! Eða er landið orðið of verðmætt fyr­ir mjólk­ur­fram­leiðslu?

Marg­ir höfðu kind­ur, en um­hverf­is bæ­inn voru 50 sveita­býli í byggð. Senni­lega var slátrað um 15 þúsund fjár í slát­ur­húsi Kaup­fé­lags­ins. Kjöt­fram­leiðslan var eins og af 200 gylt­um.

Nú er fjár­bú­skap­ur senni­lega á 15 bæj­um og öllu fé er keyrt til slátr­un­ar á Húsa­vík eða Hvols­velli.

Alla liðina öld var reynt að viðhalda óbreyttu ástandi í sveit­um, með ný­býla­lög­um og Mars­hall-aðstoð, með drátt­ar­vél­um og sér­út­hlut­un á jepp­um. Hver er ár­ang­ur­inn? Bein­greiðslur og fá­tækt. Aðlög­un sem aðeins hef­ur skilað eymd.

Umbreyt­ing í sjáv­ar­út­vegi

Í þess­um bæ var út­gerð þriggja drag­nóta­báta og tveggja síld­ar­báta und­ir­staða at­vinnu­lífs. Í stað síld­ar­bát­anna kom tog­ari. Nú er aðeins smá­báta­út­gerð í bæn­um, og lax­eldi í firðinum. Það kom síld­ar­bræðsla og síld­arpl­an. Svo hvarf síld­in.

Hið hefðbundna frysti­hús er úr­elt en þess í stað verður byggt nýtt laxaslát­ur­hús. Fjörður­inn hvar bær­inn stend­ur er vel fall­inn til lax­eld­is vegna strauma og dýpt­ar. Þetta er umbreyt­ing í sjáv­ar­út­vegi. Enda ekki ástæða til ann­ars þar sem stór hluti af mat­fiski í heim­in­um kem­ur úr eldi.

Tæki­færi í ferðaþjón­ustu

Með aukn­um kaup­mætti og bætt­um sam­göng­um varð skyndi­lega til ferðaþjón­usta. Á tíma unga manns­ins í bæn­um voru þar fjög­ur gisti­her­bergi og það komu í mesta lagi tutt­ugu ferðalang­ar í bæ­inn dag hvern að sumri en eng­inn um vet­ur­inn. Eng­inn lét sig dreyma um að til bæj­ar­ins kæmu skemmti­ferðaskip. Nú er talið að um 15 manns í þess­um litla bæ hafi viður­væri sitt af ferðaþjón­ustu. Aðlög­un að breytt­um tíma hef­ur tek­ist. Auðvitað með þeirri áhættu sem kann að fylgja breyt­ing­um. Það var áhætta í út­gerð og það er áhætta í sauðfjár­bú­skap.

Á kom­andi árum mun ferðaþjón­usta vaxa á ný þótt öðru hvoru kunni á móti að blása, eins og dráp­spest­in nú. Ferðalang­ar í heim­in­um hafa aðrar þrár en Íslend­ing­ar, sem vilja flat­maga í sól. Vont veður og slydda er ákjós­an­leg sölu­vara.

„Ekk­ert er í ríki nátt­úr­unn­ar jafn­fjarri því að vera yf­ir­nátt­úru­legt ein­sog krafta­verk. Ekk­ert er yf­ir­nátt­úru­leg­ara en nátt­úr­an sjálf.“

Ef til vill kem­ur nú­tíma­lista­safn á heims­mæli­kv­arða í bæ­inn ef vilji snill­inga í mynd­list nær fram að ganga.

Hvernig er ástandið í Reykja­vík?

Á þeim tíma sem ungi maður­inn var í sveit í bæ voru gerðir út 25 tog­ar­ar í Reykja­vík sem öfluðu hrá­efn­is fyr­ir 5 frysti­hús, þar af eina bæj­ar­út­gerð. Núna eru gerðir út 6 tog­ar­ar frá Reykja­vík og eitt frysti­hús. Nú eru þrjú frysti­hús horf­in úr borg­inni, eitt er orðið að safni og annað var banki, sem bíður þess að vera rif­inn. Í eðli­legu ár­ferði er ekki fjölda­at­vinnu­leysi í Reykja­vík.

Í stað fjár­fram­laga til bæj­ar­út­gerðar gat borg­in byggt ráðhús og sinnt öðrum nær­tæk­ari viðfangs­efn­um hins op­in­bera. En út­gerðin fór að bera sig og hóf að greiða skatta.

Nú er fjöldi hót­ela í Reykja­vík meiri en tölu verður á komið. Aðlög­un að breyttu mann­lífi hef­ur gengið áfalla­laust. Ekki með skip­un að ofan, með stjórn­lyndi, held­ur með fram­taki að neðan, með frjáls­lyndi.

Sá er mun­ur á sam­eign­ar­stefnu að þar eru ákv­arðanir tekn­ar af elítu að ofan en í auðhyggju eru ákv­arðanir tekn­ar niðri í grasrót. Þannig hef­ur Reykja­vík þró­ast úr fram­leiðslu­hag­kerfi í þjón­ustu­hag­kerfi og þekk­ing­ar­sam­fé­lag án boðvalds að ofan. Þótt á móti blási um stund má það ekki gleym­ast að hlut­verk stjórn­valda er að skapa al­menn rekstr­ar­skil­yrði. Það er hlut­verk einkaaðila að sjá tæki­fær­in sem kunna að skap­ast og grípa þau. Allt tal um toll­vernd og fæðuör­yggi á ekki rétt á sér.

Hag­vöxt­ur framtíðar bygg­ist á þekk­ingu og ný­sköp­un. Það er alls ekki víst að sú ný­sköp­un leiði af sér gíf­ur­lega orkuþörf. Ný­sköp­un­in get­ur leitt af sér ork­u­nýtni.

Um­hugs­un um stjórn­mál

Í öll þessi 60 ár hef­ur sá er þetta rit­ar íhugað stjórn­mál til þess að bæta mann­líf en ekki til að þjóna sér­hags­mun­um. Stjórn­mála­flokk­ar sér­hags­mun­anna deyja þegar þeir hafa ekki gæði til út­hlut­un­ar. Stjórn­mála­flokk­ar með leiðtoga sem hafa óljós­ar hug­sjón­ir deyja líka. Er nokkr­um of gott að vera fífl.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. maí 2020.