Kristján Þór

Vísindaleg ráðgjöf er ein meginstoð íslenskrar fiskveiðistjórnunar

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

Ábyrgar fiskveiðar og sjálfbær nýting fiskistofna eru forsenda þess að íslenskur sjávarútvegur, og hin fjölbreytta starfsemi sem byggir á greininni, viðhaldi stöðu sinni í fremstu röð á heimsvísu. Stjórnun fiskveiða á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar er lykilatriði til að tryggja þessar forsendur, og þannig um leið ein meginstoð íslenskrar fiskveiðistjórnunar. Allar kröfur um að ráðherra sjávarútvegsmála heimili veiðar umfram vísindalega ráðgjöf þarf að skoða í þessu ljósi.

Veiðar umfram ráðgjöf

Árin eftir útfærslu fiskveiðilandhelginnar í 200 mílur árið 1976 var árlegur afli úr helstu nytjastofnum yfirleitt talsvert umfram ráðgjöf vísindamanna. Undanfarna fjóra áratugi hefur stjórnkerfi fiskveiða verið að mótast og Íslendingum auðnast að byggja ákvarðanir um heildarafla á vísindalegri ráðgjöf og þannig stuðlað að sjálfbærum veiðum. Þrátt fyrir þetta geymir sagan margvíslegar kröfur um að ráðherra sjávarútvegsmála heimili veiðar umfram vísindalega ráðgjöf. Undanfarið misseri hafa tvær slíkar hugmyndir verið settar fram. Annars vegar komu fram hugmyndir í byrjun þessa árs um að gefa út lágmarkskvóta í loðnu, þrátt fyrir að Hafrannsóknastofnun teldi ekki forsendur fyrir slíku. Hins vegar hafa slíkar hugmyndir, og í sumum tilvikum kröfur, verið settar fram vegna veiða á grásleppu á þessu fiskveiðiári en þær veiðar voru stöðvaðar nýverið þar sem fyrirséð var að afli myndi fljótlega nálgast ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um heildarafla. Hagsmunaaðilar og þingmenn hafa á undanförnum dögum komið fram og gert kröfu um að ráðgjöfin verði endurskoðuð svo hægt verði að auka aflann. Þeirri kröfu hefur Hafrannsóknastofnun þegar svarað, bæði fyrir og eftir að ákvörðun var tekin um að stöðva veiðar. Í málflutningi stofnunarinnar hefur komið fram að ekki séu forsendur til að endurskoða ráðgjöfina. Þrátt fyrir þessa skýru afstöðu hafa komið fram kröfur um að það þurfi samt að hækka heildarafla – þvert á vísindalega ráðgjöf. Slíkur málflutningur er að mínu mati óábyrgur.

Í báðum þessum málum hef ég farið yfir þær hugmyndir sem fram hafa komið. Tekið þær til skoðunar í mínu ráðuneyti og kallað eftir sjónarmiðum Hafrannsóknastofnunar. Mín niðurstaða hefur á endanum verið að fylgja þeirri vísindalegu ráðgjöf sem sett hefur verið fram. Til grundvallar þeim ákvörðunum liggja þau sjónarmið sem ég rakti hér að framan, þ.e. að það sé í hinu stóra samhengi mikilvægast að standa vörð um þá meginreglu að við stjórnum fiskveiðum okkar á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar og tryggjum þannig sjálfbærar fiskveiðar. Um leið er með því verið að gæta að þeim alþjóðlegu vottunum sem skipta íslenskan sjávarútveg miklu máli.

Að því sögðu er ég sammála þeirri gagnrýni að það sé lítil sanngirni í að sumir grásleppusjómenn fái nokkra daga meðan aðrir fá 30 eða 40 daga. Þetta er hins vegar fylgifiskur þess að haga veiðum með þessum hætti.

Vísindin þurfa aðhald

Að mörgu leyti hefur verið jákvætt að fá þessar hugmyndir fram enda er samstaða, eða að minnsta kosti sameiginlegur skilningur, um hina vísindalegu ráðgjöf mikilvæg fyrir alla sem koma að íslenskum sjávarútvegi, ekki hvað síst Hafrannsóknastofnun. Í því samhengi má ekki gleyma því að sjálf vísindin ganga jú ekki síst út á að kynda undir neistum efans og útiloka aldrei að ný þekking verði til þess að aðlaga þurfi fyrri kenningar nýrri vitneskju eða að þeim verði jafnvel kollvarpað. Það er því beinlínis nauðsynlegt að fá fram gagnrýni og aðhald á hina vísindalegu ráðgjöf.

Varðandi næstu grásleppuvertíð hef ég beint þeim tilmælum til Hafrannsóknastofnunar að farið verði yfir, í samráði við sjómenn, öll þau gögn sem liggja til grundvallar ráðgjöfinni. Meðal annars til að endurmeta eldri aflatölur og skoða möguleika og forsendur fyrir aflaráðgjöf.

Burðarás

Með því að standa vörð um hina vísindalegu ráðgjöf er um leið verið að stuðla að því að íslenskur sjávarútvegur verði áfram burðarás í atvinnulífi Íslendinga og verðmætasköpun þjóðarinnar. Hér eru því ekki einungis í húfi hagsmunir fyrirtækja eða sjómanna, heldur samfélagsins alls.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. maí 2020.