Jón Gunnarsson: „Atvinnulífið skortir fleiri stoðir“

Jón Gunnarsson alþingismaður og ritari Sjálfstæðisflokksins var gestur Guðfinns Sigurvinssonar í Pólitíkinni og ræddi þar vítt og breitt um þau sóknarfæri sem bíða Íslands eftir Covid19. Jón ræddi um ríkisstjórnarsamstarfið sem hann segir mjög traust en segir um leið að gjörólík sýn flokkanna sem mynda stjórnina geti á stundum verið Þrándur í Götu. Hlusta má á þáttinn hér.

Jón segir nauðsynlegt fjölga stoðunum í atvinnulífinu sem sé enn of einhæft, aðeins þannig sé hægt að takast betur á við þung efnahagsáföll, eins og heimsfaraldurinn Covid19. Jón segir of mörg verkefni í atvinnulífinu, að fullu fjármögnuð og tilbúin til framkvæmda, sitji pikkföst í opinberum stofnunum. Það sé óásættanlegt að það geti tekið mörg ár að hrinda álitlegum fjárfestingum í framkvæmd vegna hægrar málsmeðferðar hjá hinu opinbera.

Jón Gunnarsson hefur langa reynslu af stjórnmálum. Hann var kjörinn ritari Sjálfstæðisflokksins á flokksráðsfundi í fyrra og hefur setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvesturkjördæmi síðan 2007. Hann gegndi embætti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í síðustu ríkisstjórn.