Hafði mikla þýðingu þegar mest þurfti á að halda

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðusflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Hlutastarfaleiðin var úrræði stjórnvalda til að forða uppsögnum hjá fyrirtækjum sem urðu fyrir tekjufalli vegna Covid-19. Það var enginn munur gerður á litlum eða stórum fyrirtækjum, við vildum einfaldlega hvetja fyrirtæki til að viðhalda ráðningarsambandinu ef það gat verið valkostur að lækka starfshlutfall tímabundið. Greiðslur frá ríkissjóði fara til starfsmanna, ekki fyrirtækja og fyrirtæki gátu ekki notið starfskrafta þeirra nema að því marki sem þau sjálf greiddu launin.

Ég tel að úrræðið hafi heppnast sérlega vel. Þessa dagana sjáum við smásöluverslun taka aftur við sér. Störfin eru öruggari. Við náðum markmiði okkar. Fólk upplifði lítið tekjutap þrátt fyrir að það hafi ekki haft fulla vinnu. Þetta tryggði framfærsluna, rekstur heimila fór ekki úr skorðum. Einkaneysla er að taka við sér aftur. Vinnutengd réttindi eru óhreyfð.

Ef dæmi eru um að fyrirtæki sem ekki urðu fyrir tekjufalli eða dreifðu peningum út til eigenda sinna á sama tíma og þau nýttu úrræðið finnst mér alveg ljóst að það var ekki í samræmi við tilgang laganna. Við þurfum að finna þau tilvik með eftirliti, en þau eru örugglega undantekning. Alvarleg undantekning og ekki lýsandi fyrir það sem við vorum að standa saman um. Slíkar undartekningar rjúfa mikilvæga samstöðu.

Það kemur í ljós hvort við höfum reist okkur slíkar skorður í persónuverndarlögum að ekki sé hægt að birta lista yfir fyrirtæki sem gerðu samninga um lægra starfshlutfall. Ég vænti niðurstöðu í það mál innan fárra daga og það kæmi á óvart að ekki mætti birta nöfn fyrirtækja sem tóku þátt í þessari aðgerð. Ég heyri vangaveltur um að eitt kunni að eiga við stór fyrirtæki annað um lítil. Sjáum til. Hver sem niðurstaðan verður vil ég segja að í mínum huga snýst þetta einfaldlega um gagnsæi.

Fyrirtæki sem urðu fyrir tekjufalli vegna þessa faraldurs breyttu rétt með því að segja ekki upp fólki heldur nýta þetta úrræði frekar. Við vorum beinlínis að biðja þau um að bíða og sjá hvernig myndi spilast úr efnahagslegu stöðunni. Við óskuðum eftir því að fólki yrði ekki sagt upp ef þessi leið gat verið valkostur.

Ég sé þess vegna ekki hvers vegna þetta ætti að vera viðkvæmt mál frá sjónarhóli fyrirtækjanna. Það sem kann að hafa áhrif hér er almenningsálitið. Og því er aftur oft og tíðum stjórnað af fjölmiðlaumfjöllun.

Við skulum ekki láta það gerast að úrræði sem við vorum sammála um að skipti miklu fyrir fjölskyldur og heppnaðist vel í framkvæmd fái á sig óorð vegna fárra undartekningatilvika. Þau tilvik er nú rætt um í fjölmiðlum. Ég sé fáar sögur sagðar af öllum þúsundunum sem nutu góðs af úrræðinu, fjölskyldum sem komust í skjól og þurftu ekki að fást við áhyggjur og kvíða vegna atvinnumissis.

Hlutastarfaleiðin hafði mikla þýðingu þegar mest þurfti á að halda: Á meðan við beittum ströngum úrræðum eins og samkomubanni sem olli lokun margra fyrirtækja og hruni í tekjum annarra sem reyndu að hafa opið.

Hlutastarfaleiðin verður framlengd því hún hefur heppnast vel og er mikilvæg fyrir heimilin. Hún er ennfremur táknræn fyrir samstöðuna sem við þurfum svo mikið á að halda. Stöndum áfram saman um mikilvægar aðgerðir til að lágmarka skaða samfélagsins af þessum faraldri.

Færslan birtist í facebook-síðu Bjarna 9. maí 2020.