Froða í stað forða

Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Borg­in hef­ur ekki safnað forða í hlöður sín­ar. Í mesta tekjugóðæri Íslands­sög­unn­ar hafa skuld­ir hækkað gríðarlega. Á síðasta góðæris­ár­inu hækkuðu skuld­ir sam­stæðunn­ar um 21 millj­arð. Útgjöld hækkuðu um 7% og laun um 8%. Fjár­fest­ing­ar langt um­fram tekj­ur. Eina ein­ing­in sem skil­ar góðum hagnaði er fé­lagið Fé­lags­bú­staðir. Þar á bæ er hagnaður­inn 4,5 millj­arðar á síðasta ári. Hagnaður­inn er ná­kvæm­lega sama tala og heild­ar­tekj­ur þessa „óhagnaðardrifna“ hluta­fé­lags. Bók­færður hagnaður Fé­lags­bú­staða er ekki ósvipaður og hagnaður Orku­veit­unn­ar eins og hún legg­ur sig. Þrátt fyr­ir þenn­an mikla hagnað hækka skuld­ir Fé­lags­bú­staða um meira en fimm millj­arða. Hvernig má það vera? Þegar nán­ar er að gáð kem­ur í ljós að end­ur­mat á virði fé­lags­legs hús­næðis er hækkað um 4.800 millj­ón­ir á síðasta ári. Eign­ir sem ekki stend­ur til að selja. Sam­tals er búið að end­ur­meta fé­lags­leg­ar íbúðir borg­ar­inn­ar um 57 millj­arða króna. Eigið fé sam­stæðu borg­ar­inn­ar er þess­um 57 millj­örðum hærra en ann­ars væri. Þetta er froða. „Af­gang­ur“ af rekstri borg­ar­inn­ar hef­ur aldrei skilað sér inn á banka­bók­ina síðustu árin. Þess vegna hafa skuld­ir hækkað svona mikið. Skuld­ir og skuld­bind­ing­ar sam­stæðu borg­ar­inn­ar standa nú í 324 millj­örðum. Græn skulda­bréf og fé­lags­leg skulda­bréf eru líka skuld­ir. Hold er mold hverju sem það klæðist.

Biðja samt um rík­isaðstoð

Síðasta ár var fyrsta heila ár nú­ver­andi meiri­hluta í borg­ar­stjórn. Af orðum borg­ar­stjóra mætti ætla að borg­in stæði sterkt og væri í góðum fær­um til að mæta mót­læt­inu. Sterk fjár­hags­staða. Það er því mót­sagna­kennt þegar borg­ar­stjóri kall­ar nú eft­ir rík­isaðstoð og fjár­hagsaðstoð Seðlabank­ans. Hann er í ósam­ræmi við eig­in mál­flutn­ing um að allt sé í himna­lagi. Borg­in glím­ir ekki við tekju­vanda enda eru skatt­ar og gjöld í hæstu hæðum. Ekk­ert sveit­ar­fé­lag á höfuðborg­ar­svæðinu er með jafn hátt út­svar og borg­in. Vandi borg­ar­inn­ar er út­gjalda­vandi og þess vegna hafa skuld­ir hækkað um tugi millj­arða síðustu árin. Góðæris­ár­in. Lausn­in felst ekki í frek­ari skuld­setn­ingu borg­ar­inn­ar. Hvað þá að fjár­festa fyr­ir millj­arða í mal­bik­un­ar­stöð við Esju­mela eins og fyr­ir­hugað er. Leiðin fram á við er að borg­in ein­beiti sér að kjarn­a­starf­semi sinni, hagræði og nú­tíma­væði þungt stjórn­kerfið. Liðki til og létti byrðar. Það er leiðin upp á við.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. maí 2020.