Unga fólkið okkar getur ekki beðið

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Reykjavíkurborg þarf að grípa til aðgerða vegna ungs fólks sem annars myndi vera án atvinnu í sumar. Það þarf að auglýsa störf sem nýtast ungu fólki sem núna er t.d í lokaprófum í háskólunum eða eru að undirbúa sig fyrir síðasta mánuðinn í skólanum fyrir sumarfrí. Unga fólkið okkar getur ekki beðið. Mörg hver hafa misst þá vinnu sem þau höfðu fengið í sumar. Reykvísk ungmenni hafa nú þegar farið í gegnum langvarandi tímabil aðgerðaleysis þar sem skert skóla, íþrótta- og tómstundastarf með litlum félagstengslum hefur haft veruleg áhrif á þau.

Víða þarf að taka til hendinni í Reykjavík

Auðvelt ætti að vera að fjölga störfum til dæmis með því að lengja tímabil vinnuskólans líkt og Sjálfstæðismenn hafa lagt til. Eins mætti bæta í hjá garðyrkjudeildinni sem sér um slátt og fegrun á umhverfinu. Leikskólar, hjúkrunarheimili, búsetukjarnar, frístundamiðstöðvar og söfn. Reykjavíkurborg rekur fjölbreytta starfsemi og víða má finna störf sem henta ungu fólki og hver veit nema sumarstarfið kveiki neista og unga fólkið okkar mennti sig og komi til starfa að loknu námi til dæmis á leikskólunum okkar, búsetukjörnum eða hjúkrunarheimilunum.

Sjálfstæðisflokkurinn vill lengja starfstímabil í vinnuskólanum

Sjálfstæðisflokkurinn hefur þegar lagt það til að starfstímabil vinnuskólans verði lengt. Reykjavíkurborg hefur á undanförnum árum rekið vinnuskóla fyrir ungmenni, árið 2019 þá var vinnuskólanum þannig háttað að nemendur úr 8. bekk fengu að vinna í 3,5 tíma á dag en nemendur í 9. og 10. bekk í 7 tíma. Starfstímabil þeirra voru 15 dagar. Það þarf ekki að skrifa neitt um það hversu gríðarlega góð áhrif og mikið forvarnargildi er í vinnuskólanum. Núna þegar á  einu augabragði heimsmynd okkar er allt önnur er mikilvægi vinnuskólans margfalt meira en það hefur verið undanfarin ár.

Lengra tímabil sem ungmenni fá að vinna

Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að efla forvarnir og að lengja það tímabil sem Reykvísk ungmenni fá að vinna í vinnuskólanum og auka framboð starfa fyrir ungmenni hjá Reykjavíkavíkurborg. Sjálfstæðismenn í borgarráði hafa því lagt fram tillögu þess efnis að ef ungmenni óski eftir því þá geti þau fengið vinnu á tveimur starfstímabilum eða í samtals 30 daga. Reykjavíkurborg verður því að grípa til aðgerða sem miða að því að minnka atvinnuleysi Reykvískra ungmenna með öllum mögulegum leiðum.

Greinin birtist á visir.is 29. apríl 2020.