Vinnuskólinn í Reykjavík

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Það er fátt mikilvægara í lífinu en að fá vinnu, við eigum það flest sameiginlegt sem erum að nálgast miðjan aldur að við byrjuðum á því að vinna við að snyrta umhverfið í kringum okkur. Það var ólýsanleg tilfinning að fá fyrsta launaumslagið í hendurnar, það sem ég var stolt af sjálfri mér og því sjálfstæði sem ég hafði öðlast þegar ég tók á móti fyrsta launaumslaginu. Það að fá að vera í vinnu með bestu vinum sínum og kynnast síðan öðrum krökkum og læra allt aðra hluti heldur en manni voru kenndir í skólanum var stór hluti af því að þroskast.

Mikilvægi vinnuskólans er margfalt meira núna en áður

Reykjavíkurborg hefur á undanförnum árum rekið vinnuskóla fyrir ungmenni, árið 2019 þá var vinnuskólanum þannig háttað að nemendur úr 8. bekk fengu að vinna í 3,5 tíma á dag en nemendur í 9. og 10. bekk í 7 tíma. Starfstímabil þeirra voru 15 dagar. Það þarf ekki að skrifa neitt um það hversu gríðarlega góð áhrif og mikið forvarnargildi er í vinnuskólanum. Núna þegar á  einu augabragði heimsmynd okkar er allt önnur er mikilvægi vinnuskólans margfalt meira en það hefur verið undanfarin ár. Þar sem hörð samkeppni mun verða í sumar um laus störf og allar líkur á því að ungmenni munu ekki fá mikla vinnu hjá einkaaðilum þá verður Reykjavíkurborg að gera mun meira en undanfarin ár fyrir ungmenni sem vilja vinna í vinnuskólanum.

Lengra tímabil sem ungmenni fá að vinna

Það er því mikilvægt að skoðaðar verði leiðir til þess að lengja það tímabil sem ungmenni geta fengið að vinna. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að efla forvarnir og að lengja það tímabil sem ungmenni fá að vinna í vinnuskóla reykjavíkur er stór þáttur í því. Sjálfstæðismenn í borgarráði hafa því lagt fram tillögu þess efnis að ef ungmenni óski eftir því þá geti þau fengið vinnu á tveimur starfstímabilum eða í samtals 30 daga. Reykjavíkurborg þarf að hjálpa til við það að auka virkni ungmenna sem núna hafa farið í gegnum langvarandi tímabil aðgerðaleysis. Þar sem skert skóla, íþrótta- og tómstundastarf með litlum félagstengslum hefur haft veruleg áhrif á fjölda ungmenna.

Greinin birtist á visir.is 21. apríl 2020.