Þórdís Kolbrún um viðspyrnu fyrir ferðaþjónustuna

Ríkisstjórnin kynnti í gær annan aðgerðarpakka sem er hugsaður sem vörn, vernd og viðspyrna gegn efnahagslegum og félagslegum áföllum sem fylgja Covid19 en bæði er um að ræða almennar aðgerðir en líka sértækar aðgerðir. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ræddi nýjustu viðbótina í aðgerðum stjórnvalda í Pólitíkinni hlaðvarpsþætti í umsjón Guðfinns Sigurvinssonar. Þáttinn má nálgast hér.

Þórdís Kolbrún segir of snemmt að meta til fulls hvernig aðgerðarpakkarnir hafi virkað enda þurfi tíminn að leiða það betur í ljós. Aðgerðirnar eru fjölmargar og sumar fara beint á tiltekna staði en aðrar hafa víðari skírskotun. Heildarsamhengi efnahagsaðgerðanna skiptir mestu máli. „Það er snúið að skilja á milli almennra aðgerða og sértækra. Við erum að ráðast í þessar almennu aðgerðir með hliðsjón af ástandinu í atvinnulífinu. Við sjáum að til dæmis hlutastarfaleiðin, sem telst almenn aðgerð, er langmest nýtt af ferðaþjónustufyrirtækjum, sem sagt fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu og það sama á við um frestun á staðgreiðslu opinberra gjalda. Við ráðumst í almennar aðgerðir með ákveðna stöðu í huga og til að mæta þeim sem þurfa á þeim að halda. Þannig að þrátt fyrir að almenn aðgerð beri ekki heitið sértæk aðgerð þá vitum við samt hverjir eru að nýta sér þessar aðgerðir og hver þörfin fyrir þær er,” sagði Þórdís Kolbrún í Pólitíkinni.

Þórdís Kolbrún segir að það sé alveg morgunljóst hvað ferðaþjónustan hafi haft mikil og góð áhrif á íslenskt efnahagslíf undanfarin ár. „Þess vegna skil ég alveg þegar ferðaþjónustan segir að ekki síst hennar vegna sé staða ríkisstjóðs sterk og nú þurfi greinin á aðstoð ríkisins að halda. Ég heyri það alveg og þess vegna erum við að fara í tugmilljarða aðgerðir sem hafa áhrif á ferðaþjónustuna en eins og ég hef áður sagt, við getum lyft Grettistaki en við gerum ekki kraftaverk. Sums staðar þyrfti kraftaverk,” segir Þórdís.

„Við þurfum að vinna með þá stöðu sem er uppi en gleyma því ekki að framtíðin er björt, þ.e.a.s. innviðirnir eru ekki farnir neitt, náttúran er ekki að fara neitt, sköpunarkraftur þessa fólks og framtakssemin er ekki farin. Þannig að ég tel að við munum hafa forskot sem felst í víðernunum og traustum innviðum og getum því markaðssett Ísland sem áfangastað betur en flest önnur ríki þegar til kastanna kemur,” segir Þórdís en miklir fjármunir fara nú í framkvæmdir á ferðamannastöðum og í burðarliðnum er mikið markaðsátak þegar ferðalög milli landa fara aftur af stað.

Þórdís Kolbrún ræddi líka um aðgerðir stjórnvalda til sóknar í nýsköpun og hvernig hægt er að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið með nýsköpun. Þórdís sagði frá sprota – og nýsköpunarsjóðnum Kríu sem er ætlað að stuðla að uppbyggingu, vexti og aukinni samkeppnishæfni atvinnulífsins með því að hér á landi verði til heilbrigt umhverfi áhættufjármagns til fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

Hægri hliðin ný hlaðvarpsrás

Hægri hliðin er ný hlaðvarpsrás á vegum Sjálfstæðisflokksins. Þar verða reglulega sendir út ýmsir þættir sem fjalla um hægri pólitík frá ýmsum sjónarhornum. Gjallarhorn og fleiri þættir verða aðgengilegir á Libsyn (sjá hér), á YouTube-rás Sjálfstæðisflokksins (sjá hér), á Spotify og víðar.