Matvælasjóður: Öflug viðspyrna fyrir íslenska matvælaframleiðslu

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

Á sama tíma og ráðuneyti mitt hef­ur gripið til fjöl­margra aðgerða til að lág­marka nei­kvæð áhrif COVID-19 á ís­lensk­an land­búnað og sjáv­ar­út­veg til skemmri og lengri tíma hef­ur átt sér stað mark­viss vinna við að skapa öfl­uga viðspyrnu þegar þetta tíma­bundna ástand er gengið yfir. Ég er nefni­lega sann­færður um að Ísland er í al­gjörri lyk­il­stöðu til að nýta enn bet­ur og mark­viss­ar þau tæki­færi sem við okk­ur blasa í ís­lenskri mat­væla­fram­leiðslu.

Rík­is­stjórn­in kynnti í gær ann­an áfanga aðgerða til að bregðast við áhrif­um veirunn­ar. Ein af þeim aðgerðum er stofn­un Mat­væla­sjóðs sem unnið hef­ur verið að í mínu ráðuneyti und­an­far­in miss­eri. Sjóður­inn mun gegna lyk­il­hlut­verki í þeirri mik­il­vægu viðspyrnu sem tek­ur við eft­ir að þetta tíma­bundna ástand er gengið yfir. Frum­varp mitt um stofn­un sjóðsins var af­greitt úr rík­is­stjórn í gær og von­ast ég til að mæla fyr­ir því inn­an fárra daga.

500 m.kr. á þessu ári

Mat­væla­sjóður mun hafa það hlut­verk að styrkja þróun og ný­sköp­un við fram­leiðslu og vinnslu mat­væla úr land­búnaði og sjáv­ar­út­vegi. Sjóður­inn mun styrkja verðmæta­sköp­un við fram­leiðslu, vinnslu og markaðssetn­ingu mat­væla og verður við út­hlut­un sér­stök áhersla lögð á ný­sköp­un, sjálf­bærni, verðmæta­sköp­un og al­menn­ar aðgerðir til að auka sam­keppn­is­hæfni ís­lenskr­ar mat­væla­fram­leiðslu.

Mat­væla­sjóður verður til með sam­ein­ingu Fram­leiðni­sjóðs land­búnaðar­ins og AVS-rann­sókna­sjóðs í sjáv­ar­út­vegi. Til stofn­un­ar sjóðsins verður varið 500 m.kr. sem verður út­hlutað á þessu ári. Við út­hlut­un þeirra fjár­muna en einnig við frek­ari stefnu­mót­un fyr­ir hinn nýja sjóð verður þess gætt að skipt­ing fjár­magns til land­búnaðar og sjáv­ar­út­vegs verði með sam­bæri­leg­um hætti og verið hef­ur. Jafn­framt er mik­il­vægt að huga bæði að stærri og smærri verk­efn­um.

Á ár­inu 2021 bæt­ast síðan við sjóðinn þeir fjár­mun­ir sem nú renna í Fram­leiðni­sjóð land­búnaðar­ins og AVS-sjóðinn. Með sam­ein­ingu þess­ara sjóða, sem áformað er að taki gildi um næstu ára­mót, er um leið horft til þess að spara rekstr­ar­kostnað og skapa með því aukið svig­rúm til að styðja við góð verk­efni.

Áhersla á að efla mat­væla­fram­leiðslu

Unnið er að mót­un mat­væla­stefnu fyr­ir Ísland sem verður kynnt á allra næstu vik­um. Sú stefnu­mót­un er til merk­is um áherslu stjórn­valda á að efla mat­væla­fram­leiðslu hér á landi og laða fram nýja sprota. Mik­il gerj­un er í ný­sköp­un meðal mat­væla­fyr­ir­tækja og mörg dæmi eru um ár­ang­urs­ríkt þverfag­legt sam­starf fyr­ir­tækja og frum­kvöðla. Vel skipu­lagður mat­væla­sjóður með áherslu á ný­sköp­un og þróun og aukna verðmæta­sköp­un við vinnslu mat­væla úr land­búnaði og sjáv­ar­út­vegi styður við þetta og stuðlar að bættri nýt­ingu fjár­magns til framþró­un­ar á þessu sviði.

Fjár­fest í framtíðinni

Með stofn­un sjóðsins og 500 m.kr. fjár­veit­ingu á þessu ári erum við að fjár­festa í framtíðinni. Við erum í krafti ný­sköp­un­ar og þró­un­ar að hvetja til auk­inn­ar verðmæta­sköp­un­ar í land­búnaði og sjáv­ar­út­vegi til hags­bóta fyr­ir allt sam­fé­lagið.

Við Íslend­ing­ar erum mat­vælaþjóð. Byggj­um af­komu okk­ar öfl­uga sam­fé­lags að stór­um hluta á því að nýta auðlind­ir okk­ar með sjálf­bær­um hætti, bæði til sjós og lands. Því er stofn­un Mat­væla­sjóðs, með áherslu á ný­sköp­un, sjálf­bærni, gæði, verðmæta­sköp­un og sam­keppn­is­hæfni ís­lenskr­ar mat­væla­fram­leiðslu, ekki bara skref í rétta átt – held­ur ein for­senda þeirr­ar sókn­ar sem fram und­an er í ís­lenskri mat­væla­fram­leiðslu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. apríl 2020.