Í þágu þjóðar í 80 ár

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra:

Þann 10. apríl voru átta­tíu ár liðin frá því að Íslend­ing­ar tóku þá gæfu­ríku ákvörðun að taka meðferð ut­an­rík­is­mála í eig­in hend­ur. Það var mik­il­vægt skref í að tryggja sjálf­stæði þjóðar­inn­ar til framtíðar og markaði upp­haf ís­lensku ut­an­rík­isþjón­ust­unn­ar. Nú eins og þá er mik­il­vægt að hafa áfram öfl­uga ut­an­rík­isþjón­ustu.

Sé litið yfir átta­tíu ára sögu ut­an­rík­isþjón­ust­unn­ar hef­ur starf­semi henn­ar sjald­an verið Íslend­ing­um sýni­legri en á und­an­förn­um vik­um. Sér í lagi þeim þúsund­um ein­stak­linga sem hafa komið heim frá öll­um heims­ins horn­um með liðsinni borg­araþjón­ustu ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins og þeirra ríf­lega tvöhundruð ræðismanna sem vinna sem sjálf­boðaliðar fyr­ir Ísland í níu­tíu lönd­um.

Á tím­um sem þess­um kem­ur skýrt í ljós að Íslend­ing­ar ein­ir geta staðið vörð um hags­muni lands og þjóðar á er­lend­um vett­vangi, oft í gegn­um alþjóðlegt sam­starf og víðfeðmt tengslanet ut­an­rík­isþjón­ust­unn­ar. Þar kem­ur fyrst upp í hug­ann nor­ræn sam­vinna sem hef­ur í gegn­um tíðina reynst okk­ur dýr­mæt. Nær­tækt dæmi er sam­vinna borg­araþjón­usta ut­an­rík­is­ráðuneyta Norður­land­anna sem hafa að und­an­förnu unnið sam­an að flókn­um verk­efn­um á borð við borg­ara­flug frá fjar­læg­um stöðum, þaðan sem áætl­un­ar­ferðum flug­fé­laga hef­ur verið hætt. Fund­ir ut­an­rík­is­ráðherra Norður­land­anna hafa verið tíðir á liðnum vik­um og ljóst er að mik­il ánægja rík­ir með þá sam­heldni sem nor­rænt sam­starf á sviði borg­araþjón­ustu hef­ur leitt í ljós.

Þrátt fyr­ir smæðina sinn­ir ut­an­rík­isþjón­usta Íslend­inga hlut­verki sínu af krafti eins og skýrt hef­ur komið fram í verki á und­an­förn­um vik­um. Það skipt­ir miklu máli fyr­ir sjálf­stæða þjóð og hef­ur gert í 80 ára sögu ut­an­rík­isþjón­ust­unn­ar. Á grund­velli sam­bands­laga­samn­ings­ins frá 1918 fóru Dan­ir með ís­lensk ut­an­rík­is­mál í umboði Íslend­inga, en Íslend­ing­ar tóku þau í sín­ar hend­ur eft­ir her­nám Dan­merk­ur 9. apríl 1940. Líkt og nú voru aðstæður þá ekki síður for­dæma­laus­ar.

Eft­ir sem áður eru meg­in­verk­efni ís­lenskr­ar ut­an­rík­isþjón­ustu þau sömu: að gæta hags­muna Íslend­inga og ís­lenskra fyr­ir­tækja er­lend­is. Ut­an­rík­isþjón­ust­an er út­vörður þjóðar­inn­ar hvað varðar varn­ar- og ör­ygg­is­mál, ut­an­rík­is­viðskipti og menn­ing­ar­mál og gæt­ir víðari hags­muna með öfl­ugu mál­svara­starfi og fram­lagi í þágu sjálf­bærr­ar þró­un­ar og mann­rétt­inda. Þar skipt­ir alþjóðleg sam­vinna höfuðmáli. Við þetta má svo bæta virðingu fyr­ir alþjóðalög­um, sem skipt­ir minni ríki miklu máli við að gæta hags­muna sinna gagn­vart hinum stóru. Alþjóðleg sam­vinna fel­ur enn frem­ur í sér viður­kenn­ingu er­lendra ríkja á að Ísland sé frjálst og full­valda ríki. Þannig má segja að alþjóðasam­starfið og full­veldið styðji hvort við annað. Þegar far­aldr­in­um linn­ir verður alþjóðleg sam­vinna, viðskipti og virk hags­muna­gæsla sem fyrr, und­ir­staða þess að lífs­kjör og tæki­færi hér­lend­is verði áfram með því sem best sem ger­ist í heim­in­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. apríl 2020.