Bjarni ræðir Covid19, formannstíðina og fjölskyldulífið í Pólitíkinni

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins er gestur Guðfinns Sigurvinssonar í hlaðvarpsþættinum Pólitíkinni en viðtalið við Bjarna, sem er tekið í tilefni páska, er rúmlega klukkustundarlangt og þar er farið yfir víðan völl. Bjarni varpar m.a. ljósi á hvernig daglegt líf stjórnmálamannsins hefur verið frá því að krísan vegna Covid19 skall á. Bjarni leggur mikla áherslu á samstöðu þjóðarinnar á þessum erfiðu tímum og er þess fullviss að íslenskt samfélag nái aftur vopnum sínum og sæki fram af krafti. Þáttinn má nálgast hér.

„Það hefur allt breyst á örskotsstundu. Við erum komin í allt annan ham sem ríkisstjórn, sem þing reyndar líka. Það hefur allt breyst í vinnunni hjá mér, allt ráðuneytið hefur þurft að breyta um áherslur. Mörg mál sem voru á þingmálaskránni og höfðu sinn stað í dagatalinu og voru á dagskrá eða í undirbúningi, þau hafa verið lögð til hliðar og þessi brýnu mál eru komin í forgang,” segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins í Pólitíkinni.

„Það skiptir miklu máli að við komumst í gegnum þetta þannig að við finnum hversu mikilvægt það er að standa saman sem samfélag. Að við séum stolt af því að vera hluti af samfélagi sem getur sameiginlega farið í gegnum erfiðleika. Og að það sé hugsað til allra þeirra sem þurfa á því að halda þegar svona atburðir gerast. Það verður aldrei hægt að leysa hvers manns vanda auðvitað en við getum engu að síður gert mjög mikið,” segir Bjarni og ítrekar að nú skipti miklu að þjóðarbúið sé í stakk búið að takast sjálft á við erfiðleikana án utanaðkomandi aðstoðar í formi neyðarlána eða annarrar alþjóðlegrar fyrirgreiðslu.

Bjarni ræðir líka um margt annað, s.s. um formannstíð sína og fjölskyldulífið. Bjarni segir að eins og hjá svo mörgum stéttum öðrum þá hafi vinnudagarnir verið langir undanfarið og lítill tími gefist fyrir fjölskylduna. Það var því sannkölluð himnasending fyrir Bjarna að fá þær fréttir í miðri krísu að hann væri orðinn afi í fyrsta sinn þegar dóttursonur fæddist í byrjun mánaðar. „Það var stórkostleg birta inn í lífið og ótrúleg tillfinning að halda á drengnum í fyrsta skipti. Það kemur manni alltaf jafn mikið á óvart hvað þetta er viðkvæmt líf og lítill skrokkur sem maður fær í hendurnar, svona fyrstu vikuna,” sagði stoltur afinn.

Hægri hliðin ný hlaðvarpsrás

Hægri hliðin er ný hlaðvarpsrás á vegum Sjálfstæðisflokksins. Þar verða reglulega sendir út ýmsir þættir sem fjalla um hægri pólitík frá ýmsum sjónarhornum. Pólitíkin og fleiri þættir verða aðgengilegir á Libsyn (sjá hér), á YouTube-rás Sjálfstæðisflokksins, á Spotify og víðar.