„Því fer fjarri að það sé tilkomið vegna þess alvarlega ástands sem nú hefur skapast í samfélaginu. Þessa misskilnings kann að gæta því að fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað um málið og eftir að bent hafði verið á ólöglega sölu áfengis á Twitter sagði ég á sama vettvangi að það væri kominn tími til að hafa þetta löglegt,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra um frumvarp sitt til breytinga á netverslun með áfengi í nýlegri færslu á facebook.
Málið hefur fengið töluverða umfjöllun undanfarið þar sem einhverjir virðast halda að málið sé nýtt og tengist á einhvern hátt COVID-19. Því fer þó fjarri. Málið var unnið í haust, tilbúið í byrjun árs og fór í samráðsgátt stjórnvalda í febrúar.
Það var þó nýlega sem veitingamenn, innlendir aðilar og brugghús vöktu máls á því að frumvarpið gæti hjálpað til þess að jafna stöðu innlendra framleiðenda við erlenda keppinauta. Það gæti þeim tækifæri á að halda störfum og rekstri gangandi og að fá skýrar reglur um þessi viðskipti hér á landi sem talið er að eigi sér jafnvel stað ólöglega nú þegar.
Aðalatriðin:
- Málið er ekki nýtt og ekki tilkomið vegna Covid-19 veirunnar.
- Málið er ekki forgangsmál heldur eitt af fjölmörgum málum á mínu borði.
- Ekki er lögð til nein önnur breyting á áfengislöggjöf en að jafna stöðu innlendra og erlendra aðila. Til dæmis er ekki lagt til að heimila áfengisauglýsingar.
- Íslendingar hafa á undanförnum árum getað óhindrað pantað áfengi erlendis frá.
- Ekki er möguleiki að banna Íslendingum að versla af netverslunum annarra landa.
Um hvað snýst frumvarpið?
Í frumvarpinu er kveðið á um heimild til að starfrækja innlenda vefverslun með áfengi. Þar er einungis kveðið á um jafna stöðu innlendra og erlendra aðila með netverslun. Í frumvarpinu felst engin breyting á áfengisstefnu, áherslum í lýðheilsumálum, áfengisauglýsingum, áfengiskaupaaldri eða áfengisgjöldum. Frumvarp þetta hróflar ekki við hlutverki ÁTVR og er því ekki um að ræða hið svokallaða „vín í búðir” frumvarp. Raunar mætti þetta frekar kallast „vín úr búðum” frumvarp.
Áfram þurfa einstaklingar að hafa náð tvítugsaldri til að kaupa sér áfengi, áfengisgjöld verða óbreytt, áfengisstarfsemi er og verðu leyfisskyld og við viljum öll leggja áherslu á forvarnir í þessum efnum. Að gefnu tilefni er vert að ítreka að í frumvarpinu kemur ekkert fram um að heimila áfengisauglýsingar.
Hver er sagan?
Einkaréttur Áfengis- og tóbaksverslunar ríksins á innflutningi áfengis var afnuminn árið 1995 og almenningi þannig gert kleift að flytja áfengi til landsins til einkaneyslu. Um áratugaskeið hafa Íslendingar því átt þess kost á að kaupa áfengi í erlendum netverslunum og látið senda sér heim að dyrum á Íslandi, meira að segja innan sólarhrings. Um þetta hafa ekki gilt neinar reglur. Í frumvarpinu er skýrt kveðið á um skyldu til að framvísa skilríkjum sem og um leyfissviptingu og refsiábyrgð ef þeim reglum er ekki framfylgt. Innan við helmingur áfengistegunda sem fluttar eru til landsins eru til sölu hjá ÁTVR og Íslendingar kaupa hlutfallslega meira af erlendum áfengistegundum en íbúar nágrannalanda okkar. Þetta segir okkur að þegar fara heilmikil áfengisviðskipti fram á netinu.
Getum við bannað Íslendingum að kaupa áfengi í gegnum erlenda netverslun?
Samkvæmt EES samningnum sem Íslendingar eru aðilar að er óheimilt að meina neytendum innflutning á víni til eigin neyslu. Íslendingar geta því keypt áfengi af hvaða vínsala sem er svo lengi sem hann hafi lögheimili utan Íslands. Slík mismununun á grundvelli þjóðernis úthýsir verslun bersýnilega úr landi. Fólk má kaupa sér vín á netinu ef slóðin endar á .com, .uk, eða .fr en ekki ef slóðin endar á .is. Tilskipun ESB kveður á um að þeir sem stunda netverslun megi ekki mismuna viðskiptavinum sínum á grundvelli þjóðernis og þannig ber söluaðilum að selja til allra landa.
Aukið aðgengi?
Mikið er rætt um aðgengi að áfengi og góðan árangur okkar í áfengis- og lýðheilsumálum í gegnum tíðina. Sá árangur er mikilvægur. Þó er ljóst að aðgengi að áfengi hefur aldrei verið meira en nú. Verslunum ÁTVR hefur t.d. fjölgað úr 17 í 51 verslun á síðustu tíu árum, opnunartími þeirra lengst og Ríkið hefur auk þess opnað eigin netverslun. Þá hefur vínveitingaleyfum fjölgað gríðarlega. Framboðsaukningin af frumvarpinu yrði því óveruleg, myndi frekar leiða til þess að sölunni yrði dreift og viðskiptin færðust til innlendra söluaðila, sem borga skatta og gjöld hér á landi, frekar en erlendra aðila sem eðli málsins samkvæmt greiða skatta og skyldur í sínu heimalandi.
Hver er staðan í dag?
Innlendir framleiðendur hafa reynt að mæta þörfum íslenskra neytenda með að selja vörurnar til erlendra netverslana, þar sem áfengi þeirra er þá flutt úr landi í þeim eina tilgangi að flytja það aftur tilbaka með tilheyrandi kostnaði og umhverfisáhrifum. Þá þekkist vitaskuld ólögleg sala áfengis í gegnum samfélagsmiðla. Það er mín einarða skoðun að æskilegra sé að þessi starfsemi sé á yfirborðinu, undir skýru regluverki og fari fram með löglegum hætti. Að sama skapi að tekjum af þessum viðskiptum sé haldið innanlands, með tilheyrandi jákvæðum áhrifum fyrir íslensk fyrirtæki, verndun starfa og sköpun skatttekna sem mætti m.a. nýta í enn frekari áfengisforvarnir.
„Ég ítreka að frumvarpið hefur verið lengi í vinnslu og er ekki tilkomið sérstaklega vegna þess smitfaraldurs sem nú geisar í heiminum. Frumvarpið er eitt af fjölmörgum málum sem ég hef unnið í ráðuneytinu síðan ég tók við embætti ráðherra og er tilbúið líkt og mörg fleiri mál, en mun bíða afgreiðslu þar til ástandinu slotar enda eru það aðeins brýn forgangsmál vegna COVID-19 sem rata á dagskrá þingsins nú um stundir,“ segir Áslaug Arna en pistil hennar í heild má lesa hér að neðan.