Viðsnúningur með stóru V-i

Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Viðbrögð skipta máli. Skynsamleg viðbrögð þríeykisins skipta miklu máli. Við getum staðið af okkur storminn saman. Fyrst er það COVID-19 sem virðist vera að ná hámarki á Íslandi. Skimun og sóttkví. Samkomubann og minni snertingar. Þetta hefur skilað árangri.

Síðan er hitt – skyndilegt frost í efnahagsmálum. Ferðaþjónustan er í fremstu víglínu, en líkt og smitandi veira getur tjónið margfaldast ef ekkert er að gert. Tekjufall hjá einum verður gjaldþrot hjá öðrum. Við erum staðráðin í að láta þetta áfall ekki brjóta okkur niður. Við þekkjum náttúruhamfarir og höfum tekist á við afleiðingar þeirra. Hagfræðingar tala um slíkan viðsnúning sem „V“. Kröpp niðursveifla en stutt. Sögulega séð eru kreppur sem verða vegna atburða eins og náttúruhamfara, drepsótta eða stríða styttri en bankakreppur. En hér skiptir öllu að viðbragðið sé rétt og sterkt. Reykjavíkurborg kynnti fyrstu mótvægistillögur sínar í síðustu viku. Þar lögðum við áherslu á lækkun og frestun gjalda á atvinnulífið. Vernda störfin. Viðsnúning með stóru V-i.

Upp á ný

Þegar storminum slotar nýtum við styrk okkar sem ferðamannalands. Víðerni, hreinleiki, öryggi og gæði verða enn eftirsóknarverðari. En við förum líka út úr þessa einstaka tímabili með miklu meiri færni í tækninni en áður. Skólar og vinnustaðir geta nýtt þessa tækni mun meira.

Sveigjanleiki í starfi og námi eru tækifæri sem tæknin færir okkur. Skólar geta byrjað örlítið seinna en atvinnulífið. Unnið líka meira heima. Þannig gætum við létt á samgöngukerfinu með breyttu vinnulagi. Við getum nýtt reynsluna af þessari krísu til góðs til framtíðar. Þannig bregðumst við vel við erfiðri reynslu. Komumst upp öldudalinn á V-inu og notum tæknina sem við erum að taka í notkun til að spara fjármuni, ferðir og tíma. Stundum þarf áfall til að bregðast við. Nú ríður á að varðveita þekkingu fólks og störfin. Notum svo tæknina til að gera enn betur þegar aftur er orðið bjart yfir.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. mars 2020.