Dýrmæt staða á erfiðum tímum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Þegar við fór­um inn í nýtt ár var fáa sem grunaði að þrem­ur mánuðum síðar myndi geisa skæður heims­far­ald­ur sem ógn­ar lífi og heilsu jarðarbúa svo og efna­hag flestra þjóða heims.
Dag­lega ber­ast hræðileg­ar frétt­ir utan úr heimi af sýk­ingu og dauðsföll­um af völd­um veirunn­ar og vold­ug ríki vest­an hafs og aust­an und­ir­búa um­fangs­mikl­ar efna­hagsaðgerðir til að verja hag­kerfi sín gegn þeirri vá sem að steðjar. Öflug heil­brigðis­kerfi kikna und­an álag­inu, ferðalög á milli landa hafa að mestu lagst af og heilu at­vinnu­grein­arn­ar eru óstarf­hæf­ar. Í raun mætti segja að það sé búið að slökkva á helstu hag­kerf­um heims.Við Íslend­ing­ar höf­um ekki farið var­hluta af þessu ástandi. Íslensk stjórn­völd hafa brugðist við með marg­vís­leg­um aðgerðum á sviði heil­brigðismála. Þá hafa stjórn­völd einnig kynnt um­fangs­mikl­ar aðgerðir til að verja efna­hag heim­ila og fyr­ir­tækja og búa ís­lenskt at­vinnu­líf und­ir þær hremm­ing­ar sem eru fram und­an – og það sem meira er, það sem síðan tek­ur við. Mark­miðið er að efna­hags­lífið geti tekið hratt og ör­ugg­lega við sér þegar far­ald­ur­inn er yf­ir­staðinn.

Heild­ar­um­fang efna­hagsaðgerða rík­is­stjórn­ar­inn­ar gæti numið yfir 230 millj­örðum króna. Aðgerðunum er öðru frem­ur ætlað að vinna gegn at­vinnu­leysi og tíma­bundn­um tekjum­issi ein­stak­linga. Fyr­ir­tækj­um verður skapað svig­rúm til að lækka starfs­hlut­fall hjá launa­fólki tíma­bundið og viðhalda þar með ráðning­ar­sam­bandi á meðan erfiðustu mánuðirn­ir ganga yfir. Sér­stak­ur barna­bóta­auki verður greidd­ur út í júní með hverju barni yngra en 18 ára og þannig hugað sér­stak­lega að barna­fjöl­skyld­um. Þess­ar aðgerðir og fleiri til munu minnka efna­hags­lega áfallið sem við horf­um fram á.

Ljóst er að tekj­ur fjölda fyr­ir­tækja munu skerðast vegna ástands­ins. Að öllu óbreyttu hefðu mörg þeirra gripið til upp­sagna. Með aðgerðum stjórn­valda er þó lagt kapp á að verja störf­in. Þá er aðgerðunum ætlað að auðvelda heim­il­um og fyr­ir­tækj­um að tak­ast á við það tíma­bundna tekjutap sem þau kunna að verða fyr­ir. Þannig er dregið úr óvissu og hjól­um at­vinnu­lífs­ins haldið gang­andi.

Það er dýr­mætt fyr­ir Ísland að vera í þeirri stöðu að geta varið störf og gripið til nauðsyn­legra aðgerða til að minnka höggið á hag­kerfið. Ástæðan er sú að þetta ástand mun á ein­hverj­um tíma­punkti líða hjá og þá er mik­il­vægt að við séum vel í stakk búin til að láta hjól­in snú­ast á nýj­an leik. Hið frjálsa markaðshag­kerfi þarf að fá svig­rúm til að starfa á ný þegar þessu ástandi lýk­ur, því þannig mun­um við ná ár­angri til lengri tíma.

Þetta eru fyrstu aðgerðir og lík­ast til ekki þær síðustu. Vegna skyn­samr­ar hag­stjórn­ar síðustu ára er mögu­leiki að bregðast við ef og þegar nauðsyn kref­ur. Það eru ekki öll ríki sem búa svo vel, en það ger­um við sem bet­ur fer.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. mars 2020.