Þetta er ástand sem gengur yfir

„Við trúum að þetta sé ástand sem gengur yfir. Það bjargast meiri verðmæti fyrir allt þjóðarbúið með því að styðja við þá sem lenda í þessari stöðu og hjálpa þeim fljótt aftur á fætur þannig að tækifærin verði gripin þegar þetta óveður er afstaðið, heldur en að sitja með hendur í skauti og láta þá bara allt fara forgörðum,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra í Kastljósþætti 23. mars um aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Um morguninn sat hann einnig fyrir svörum í sameiginlegum morgunþætti Rásar 1 og Rásar 2.

Þar sagði hann: „Við erum að lækka skatta upp á tíu milljarða þegar saman er tekið og það munar heldur betur um það. Við erum sömuleiðis að fara í fjárfestingaátak. Það eru peningar sem við ætluðum ekki að ráðstafa til fjárfestinga á árinu 2020 og munu skapa fjölda mörg störf víða um samfélagið.“

Þar vísar hann í 15 milljarða sem ríkissjóður mun veita í ný útgjöld á þessu ári til fjárfestinga.

„Síðan koma opinber félög og bæta þar ofan á þannig að það verða nýjar fjárfestingar upp á 20 milljarða á þessu ári sem munar verulega mikið um. Það eru ný útgjöld,“ sagði Bjarni.

Hann ræddi einnig frestanir á opinberum gjalddögum sem hann segir skipta miklu máli og hafi verið fyrsta aðgerð ríkisstjórnarinnar.

„Síðan förum við í þessa hlutastarfaleið og tökum að okkur að greiða laun fyrir fólk sem hefur tapað starfshlutfalli. Tryggjum þannig að ráðningarsamband sé til staðar og hvetjum fyrirtæki til að segja ekki upp fólki ef hægt er að nýta þessar ráðstafanir. Þetta var mjög mikilvægt,“ sagði Bjarni.

Fjármálakerfið fengið gríðarlegt svigrúm

„Ég er líka með miklar væntingar til fjármálakerfisins. Að þar grípi menn til viðeigandi ráðstafana. Meðal annars vegna þess að við höfum verið að veita fjármálakerfinu svigrúm til þess. Seðlabankinn hefur lækkað sveiflujöfnunarauka og lækkað vexti. Við erum hér að koma hér með þessi viðbótar brúarlán ofan á það. Þetta veitir fjármálakerfinu gríðarlegt svigrúm til að styðja við sína viðskiptamenn og eftir atvikum gæti maður séð fyrir sér að gjalddögum af afborgunum yrði frestað og þeim bætt aftan við lán og þannig sett brú yfir þetta tímabil og þessu frestað þar til að hlutirnir eru aftur komnir í eðlilegt horf,“ sagði Bjarni í morgunþættinum.

Hann var spurður út í það úrræði að heimila fólki að nýta séreignarsparnað sinn og sagði: „Ef að fólk á sparnað og vill sækja þá á ríkið ekki að standa í vegi fyrir því að það geti gert það. Við erum einmitt að opna dyrnar fyrir þá sem að hafa lagt til hliðar og þurfa á þeim sparnaði að halda núna. Það er þeirra val og með þessu erum við að hjálpa fólki til sjálfshjálpar hreinlega. Mér finnst það meira en sjálfsagt og eðlilegt og við höfum gert þetta áður.“