Verjum afkomu heimilanna

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:

Íslenskt samfélag hefur staðið frammi fyrir margvíslegum krefjandi verkefnum undanfarin misseri. Á tímum heimsfaraldurs er að mörgu að huga. Mikilvægasta fyrirliggjandi verkefnið er takmörkun á útbreiðslu COVID19 svo standa megi vörð um fólk og heilbrigði. Full ástæða er til að treysta því forystufólki sem af yfirvegun leiðir okkur gegnum þetta tímabundna ástand. Samhliða þarf að standa vörð um störf og af komu heimilanna. Því verður mikilvægt að grípa til aðgerða sem verja atvinnulíf í borginni.

Atvinnulausum hefur fjölgað að undanförnu samkvæmt tölfræði frá Vinnumálastofnun og Hagstofu Íslands. Launahækkanir samkvæmt kjarasamningum hafa víða reynst atvinnurekendum þungbærar. Samkvæmt könnun sem Félag atvinnurekenda lét framkvæma meðal félagsmanna, þurfti þriðjungur félagsmanna að grípa til uppsagna í kjölfar kjaraviðræðna síðasta árs. Þær aðstæður sem nú hafa skapast vegna COVID19 munu að líkindum leiða til þess að atvinnuleysi eykst enn frekar.

Hagkerfið er sannarlega berskjaldað fyrir þeim ytri áhrifum sem faraldurinn veldur. Nú þegar má greina efnahagsleg áhrif faraldursins hérlendis, en áhrifanna gætir sennilega þyngst í ferðaþjónustu . Fólk heldur að sér höndum, eftirspurn eftir vörum og þjónustu minnkar og fólk ferðast að líkindum minna. Þegar tekjur dragast svo skyndilega saman er fyrirséð að atvinnurekendur reyni til þrautar að draga úr útgjöldum. Við slíkar aðstæður getur reynst nauðsynlegt að grípa til uppsagna. Það eru aðstæður sem við viljum fyrirbyggja.

Hlutur ferðaþjónustu í útflutningstekjum Íslands er hærri en í öllum þeim ríkjum sem við almennt berum okkur saman við. Verulegur samdráttur í íslenskri ferðaþjónustu mun því að endingu smitast út í allt efnahagslífið.

Í þessu ófyrirséða árferði er nauðsynlegt að stjórnvöld grípi til aðgerða sem staðið geta vörð um störf og af komu heimilanna. Á borgarstjórnarfundi nú á þriðjudag mun Sjálfstæðisf lokkur leggja fram tillögur sem styðja við fyrirtæki í tímabundnum rekstrarerfiðleikum svo koma megi í veg fyrir uppsagnir. Tillögurnar miða að lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði, lengdum gjaldfresti, lægri gjaldskrám og auknum krafti í opinberar framkvæmdir. Jafnframt að ráðist verði í markaðsátak til stuðnings ferðaþjónustu í borginni. Markmið aðgerðanna er að veita fyrirtækjum í borginni aukið svigrúm svo bregðast megi við þessum ófyrirséðu aðstæðum.

Við verðum að draga úr álögum, auka svigrúm og mæta þeim tekjumissi sem fyrirsjáanlega mun raungerast hjá stórum hluta atvinnurekenda í borginni. Því má ekki gleyma að aðgerðir sem þessar gagnast ekki aðeins atvinnurekendum, heldur fyrst og fremst launafólki og heimilum í borginni.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. mars 2020.