Mikilvægast að styðja fyrirtækin við að halda starfsfólki

„Við þurfum að stíga stór skref núna. Við þurfum að koma af fullum krafti inn í þessa mynd. Vegna þess að frá okkar bæjardyrum séð, sem erum að halda utan um ríkisfjármálin, þá er það í rauninni mesta tjónið sem getur orðið. Að þetta raungerist,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hann ræddi aðgerðir yfirvalda til mótvægis við áhrifin af COVID-19 veirunni.

Bjarni bar bjartsýnn á framatíðina og sagði að við yrðum áfram „gamla góða Ísland“ þegar við værum komin í gegnum farsóttina. Ísland yrði áfram aðdráttarafl fyrir ferðamenn með allt það sem landið hefur að bjóða. Íslendingar þurfi að vera reiðubúnir þegar allt fari af stað aftur.

„Þess vegna erum við að fara í þetta markaðsátak, sem mér finnst sumir tala niður. Við ætlum að vera tilbúin þegar flugvellirnir opna að nýju og menn fara á hreyfingu. Til þess að minna á Ísland og segja: Halló, hér erum við. Lönd munu keppa um ferðamenn og við ætlum að vera tilbúin þegar þar að kemur,“ sagði Bjarni.

Bjarni talaði um að margar leiðir væru í vinnslu til að létta undir.

„Það sem mér finnst kannski skipta mestu er að fólk skilji er að við getum reynt að létta undir með svo margvíslegum aðgerðum. Þetta er ekki bara hlutverk þingsins heldur er auðvitað Seðlabankinn með stórt hlutverk,“ sagði hann og bætti við: „Í mjög einfölduðu máli, þá erum við að tala um að auka súrefni þarna úti, þegar það verður súrefnisskortur í fjármálakerfinu, það er að segja hjá fyrirtækjunum. Vegna þess að tekjurnar falla. Þær eru að falla sums staðar um 50 prósent og jafnvel meira. Geta fallið 70, 80 prósent í einstaka tilvikum.“

Bjarni sagði fyrirtæki þurfa stuðning í slíku ástandi sem talið væri að myndi vara til skamms tíma.

Gætu haldið í kringum 90% af launum

„Við […] erum að segja við fyrirtæki að við skulum taka hluta af launakostnaðinum. Það gerum við með þessar hlutastarfaleið, þar sem að fyrirtæki geta sagt upp starfshlutfalli 50 prósent og haldið starfsmönnum hjá sér á 50 prósent launum á meðan þeir eiga rétt á því að fá greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóðnum fyrir bróðurpartinum af mismuninum,“ sagði Bjarni.

Hann nefndi að fólk með um 650.000 kr. eða minna myndi fá í kringum 90% af launum sínum með þessari leið, en tók fram að það væri þó gróft á giskað því frumvarpið væri enn til meðferðar á Alþingi. Hann nefndi einnig að það þyrfti að horfa til ráðstafana fyrir einyrkja og verktaka með sambærilegum hætti en þó ákveðnum skilyrðum.

Hann sagði að hægt væri að fara ýmsar aðrar leiðir einnig. Í þessu samhengi nefndi hann að veita fólki aðgang að séreignarsparnaði líkt og áður hefði verið gert.

„Ég held það sé samt engin ein leið jafn stór og mikilvæg og sú að styðja fyrirtækin í að halda fólki hjá sér á launum og taka hluta af laununum. Þetta er mjög sniðug aðferð.“