Leggja fram tillögur um mótvægisaðgerðir í borgarstjórn

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu á borgarstjórnarfundi í dag (17. mars) leggja fram tillögu um mótvægisaðgerðir í fimm liðum vegna afleiðinganna af COVID-19 sem nú ríður yfir landið. Tillögurnar styðja við þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur nú kynnt.

Aðal markmiðið er að verja atvinnu og heimilin eins og mest má í aðstæðum sem þessum.

Að mati borgarfulltrúa er mikilvægt að borgin stígi inn í brothætt efnahagsumhverfi með festu og minnki það mikla högg sem atvinnulífið í borginni er að verða fyrir.

Til varnar störfum og mótvægi við atvinnuleysi

Tillögurnar eru sem fyrr segir í fimm liðum og ganga út á:

  • Að lækka fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði úr 1,65% niður í 1,60%.
  • Að kanna möguleika á gjaldskrárlækkunum á atvinnulíf til að koma til móts við atvinnurekendur og þannig verja sem flest störf.
  • Að gjaldfrestir vegna fasteignaskatta verði rýmkaðir tímabundið á fyrirtæki sem eiga í tímabundnum vanda.
  • Að ráðist verði í viðhaldsátak á húsnæði og innviðum borgarinnar til að skapa störf tímabundið til að draga úr mögulegu atvinnuleysi.
  • Að Reykjavíkurborg fari í markaðsátak á höfuðborginni sem áfangastað samhliða vinnu ríkisvaldsins við markaðsátak á Íslandi. Sú vinna verði í nánu samstarfi borgarinnar, ferðaþjónustunnar og ríkisins þegar réttar aðstæður skapast.

Greinargerð með tillögunni

Greinargerð tillögunnar má lesa hér:

„Sveitarfélög vinna nú að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna en áttunda heimsmarkmiðið snýr að góðri atvinnu og hagvexti. Þar segir að stuðla skuli að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla. Tryggja þurfi að þróttmikill efnahagur gagnist öllum þjóðfélagsþegnum, að hagvöxtur auki hagsæld landsmanna og sú sýn speglist í stefnumörkun í opinberum fjármálum.

Kröftugt atvinnulíf er grunnforsenda þess að viðhalda megi þróttmiklum efnahag, fjölbreyttum atvinnutækifærum og öflugu mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfi hérlendis. COVID-19 faraldurinn hefur þegar, og mun óhjákvæmilega áfram, hafa bein neikvæð áhrif á atvinnulíf í borginni. Mikilvægt er að grípa til aðgerða svo dregið verði úr neikvæðum áhrifum faraldursins. Jafnframt þarf að skapa hagstæð skilyrði til endurreisnar og viðspyrnu þegar draga fer úr áhrifunum.

Hagkerfið er sannarlega berskjaldað fyrir þeim ytri áhrifum sem faraldurinn veldur. Því er nauðsynlegt að stjórnvöld grípi til aðgerða sem styðja við fyrirtæki í tímabundnum rekstrarerfiðleikum. Tillögur Sjálfstæðisflokks miða að lægri sköttum og álögum á atvinnulíf, lengdum gjaldfrestum og auknum krafti í opinberar framkvæmdir. Einnig verði ráðist í markaðsátak til stuðnings ferðaþjónustu í borginni. Markmið aðgerðanna er að veita fyrirtækjum í borginni aukið svigrúm til að bregðast við þessum ófyrirséðu aðstæðum.

a) Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verði lækkaðir

Fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði hefur verið óbreyttur um margra ára skeið eða 1,65% af fasteignamati. Í sáttmála meirihluta er gert ráð fyrir að hann lækki í 1,60% í lok kjörtímabils eða um 0,05%. Samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkur er gert ráð fyrir að tekjur vegna fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði muni nema 14,8 milljörðum. Kostnaður við þá lækkun sem hér er lögð fram nemur um 298 milljónum króna fyrir árið 2020. Á móti kemur sambærileg lækkun á liðnum ófyrirséð.
Samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2020 hækkar atvinnuhúsnæði um 5,9% en fyrir árið 2019 hækkaði atvinnuhúsnæði um 16,6%. Þessar gríðarlegu hækkanir hafa leitt til hundruð milljóna króna í aukna skattheimtu á heimili og fyrirtæki. Fasteignagjöld eru óheppileg skattheimta á fyrirtæki þar sem þau leggjast á eigið fé þeirra óháð afkomu. Ekki þarf að fjölyrða um áhrifin, nú þegar hægir harkalega á vexti í hagkerfinu, auk þess að launaskrið hefur verið umtalsvert á síðustu árum. Því mega fyrirtæki borgarinnar síður við slíkum hækkunum og þær skerða samkeppnisstöðu fyrirtækja í borginni gagnvart fyrirtækjum í sveitarfélögum með lægri skattheimtu. Af 10 stærstu fyrirtækjum landsins hafa eingöngu 4 þeirra höfuðstöðvar í Reykjavík.
Í ljósi þeirra ófyrirséðu aðstæðna sem COVID-19 faraldurinn hefur skapað, telur Sjálfstæðisflokkur nauðsynlegt að lækka skattheimtu á fyrirtæki í borginni. Af þeim sökum er lagt til að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði lækki um 0,05%, það er úr 1,65% niður í 1,60%, frá og með 1. apríl 2020. Þurfi tillagan að fara í gegnum tvær umræður í borgarstjórn, og komi ekki til afgreiðslu fyrr en um miðjan aprílmánuð, verði ofgreiddir fasteignaskattar fyrir aprílmánuð endurgreiddir.

b) Gjaldskrárlækkanir á atvinnulíf

Fyrirsjáanlega gætu yfirstandandi aðstæður dregið úr eftirspurn eftir hvers kyns vöru og þjónustu. Fólk heldur að sér höndum, fer síður á veitingastaði og skemmtanir og mun að líkindum ferðast minna. Þegar tekjur dragast svo skyndilega saman er fyrirséð að forsvarsmenn fyrirtækja reyni til þrautar að draga úr útgjöldum. Við slíkar aðstæður getur reynst nauðsynlegt að grípa til skertra starfshlutfalla eða jafnvel uppsagna.
Atvinnulausum hefur fjölgað að undanförnu samkvæmt tölfræði frá Vinnumálastofnun og Hagstofu Íslands. Launahækkanir samkvæmt kjarasamningum hafa víða reynst atvinnurekendum þungbærar. Samkvæmt könnun sem Félag atvinnurekenda lét framkvæma meðal félagsmanna, þurfti þriðjungur félagsmanna að grípa til uppsagna vegna hækkandi launakostnaðar árið 2019. Þær aðstæður sem nú hafa skapast vegna COVID-19 munu að líkindum leiða til þess að atvinnuleysi eykst enn frekar.
Með hliðsjón af þeirri stöðu sem upp er komin er lagt til að yfirstjórn borgarinnar kanni möguleika á gjaldskrárlækkunum hjá bæði dótturfyrirtækjum og fagsviðum borgarinnar. Þannig megi draga úr álögum, auka svigrúm og mæta þeim tekjumissi sem fyrirsjáanlega mun raungerast hjá stórum hluta atvinnurekenda í borginni. Aðgerðirnar munu ekki einungis gagnast atvinnurekendum, heldur einnig launafólki í borginni.

c) Gjaldfrestir vegna fasteignaskatta

Fyrirsjáanlega munu fjölmörg fyrirtæki verða fyrir tekjumissi vegna COVID-19 faraldursins, en auknir gjaldfrestir vegna fasteignaskatta gætu tryggt nauðsynlegt svigrúm svo ráða megi fram úr rekstrarerfiðleikum og draga úr uppsögnum.

Þó gjaldfrestir sem þessir geti vissulega verið talsverð búbót í erfiðu rekstrarumhverfi, skal því haldið til haga að framkvæma þarf löngu tímabæra heildarendurskoðun á allri gjaldtöku borgarinnar á atvinnurekstri. Gjaldtaka borgarinnar hefur ekki síst reynst íþyngjandi fyrir þau fyrirtæki sem nú standa verulega höllum fæti vegna faraldursins, þ.e. fyrirtæki í veitingageira og ferðaþjónustu.

Svo tryggja megi atvinnurekendum aukið svigrúm til að mæta ófyrirséðum afleiðingum faraldursins, er lagt til að gjaldfrestir vegna fasteignaskatta verði lengdir. Þannig verði fjármálasviði falið að rýna útfærslur á 30 daga, 60 daga og 90 daga gjaldfrestum. Niðurstöður rýningar verði lagðar fyrir borgarráð eigi síðar en við lok marsmánaðar.

d) Viðhaldsátak á húsnæði og innviðum

Í ljósi fyrirsjáanlegs samdráttar og yfirvofandi atvinnuleysis er skynsamlegt að flýta þeim opinberu framkvæmdum sem áætlaðar eru næstu árin. Þannig verði lögð sérstök áhersla á verkefni sem unnt er að ráðast í tafarlaust, án þess að seinlegir skipulagsferlar verði fjötur um fót.
Yfir liðlega 12 ára tímabil, allt frá efnahagshruninu 2008, hefur viðhald skólahúsnæðis hjá Reykjavíkurborg verið af skornum skammti. Uppsöfnuð viðhaldsþörf er nú umtalsverð og brýnt að ráðast í umfangsmiklar endurbætur. Sem viðbragð við yfirvofandi efnahagsástandi, telur Sjálfstæðisflokkur mikilvægt að flýta nauðsynlegum viðhaldsverkefnum á skólahúsnæði og öðrum innviðum borgarinnar. Skrifstofu framkvæmda og viðhalds verði falið að útfæra forgangsröðun verkefna. Eins verði því beint til dótturfyrirtækja að flýta arðbærum innviðafjárfestingum.
e) Markaðsátak á Reykjavík sem áfangastað

Nú þegar má greina að efnahagsleg áhrif COVD-19 faraldursins hérlendis, en áhrifanna gætir sennilega þyngst í ferðaþjónustu. Hlutur ferðaþjónustu í útflutningstekjum Íslands er hærri en í öllum þeim ríkjum sem við almennt berum okkur saman við. Verulegur samdráttur í íslenskri ferðaþjónustu mun því að endingu smitast út í allt efnahagslífið. Mikilvægt er að meta skammtíma- og langtímaáhrif faraldursins á ferðaþjónustu í borginni.

Þó fólk haldi að sér höndum við þessar tímabundnu aðstæður, mun sú stund óhjákvæmilega renna upp að neytendur hefji á nýjan leik að bóka ferðir. Á þeirri stundu mun Ísland vitanlega standa í samkeppni við önnur lönd um ferðamenn. Því er mikilvægt að hefja þegar í stað undirbúning á alþjóðlegu markaðsátaki sem kynnir Reykjavík sem fýsilegan áfangastað fyrir ferðamenn. Átakið yrði unnið í samvinnu við ferðaþjónustu og ríki, og því hrint úr vör þegar réttar aðstæður hafa skapast í kjölfar COVID-19 faraldursins.“