Hvað getur borgin gert?

Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Fótunum hefur verið kippt undan dag­legu lífi okkar. Sótt­hreinsun og sam­komu­bann taka yfir. Ferða­menn hverfa eins og hendi sé veifað. Mikill fjöldi starfa er í hættu. Að ó­breyttu mun at­vinnu­leysi verða mikið. Á svona tímum skiptir máli að taka ó­hikað réttar á­kvarðanir. Danska ríkið hefur á­kveðið að greiða í þrjá mánuði 75% af launum þeirra fyrir­tækja sem annars þurfa að segja upp fólki vegna CO­VID-19. Þetta er gert til að lág­marka at­vinnu­leysi vegna tíma­bundins lömunar­á­stands. Ís­lenska ríkið hefur boðað að­gerðir í svipuðum anda. Reykja­víkur­borg hefur notið upp­gangs í ferða­þjónustu með ýmsum hætti.

Það eru miklir hags­munir borgarinnar undir í að ferða­þjónusta í Reykja­vík lifi af þær ham­farir sem núna ganga yfir. Við leggjum til að borgin fylgi for­dæmi ríkisins og leggi þessum undir­stöðu at­vinnu­vegi lið á for­dæma­lausum tímum. Við leggjum til mót­vægis­að­gerðir í fimm liðum sem lagðar eru í dag fyrir borgar­stjórn. Þessar að­gerðir geta aukið líkur fyrir­tækjanna á að lifa af hremmingarnar. Jafn­framt auka þessar að­gerðir á mögu­leika fólks til að halda vinnu sinni. Laun fólksins eru tekjur borgarinnar
Hér eru mark­vissar að­gerðir til að vernda fram­tíðar­tekjur borgarinnar.

Til­lögurnar eru þessar:

1. Fast­eigna­skattur á at­vinnu­hús­næði verði lækkaður í 1,60% frá og með fyrsta apríl nk.
2. Farið verði í gjald­skrár­lækkanir á at­vinnu­líf.
3. Gjald­frestur vegna fast­eigna­skatta verði rýmkaður fyrir fyrir­tæki í tíma­bundnum vanda.
4. Ráðist verði í við­halds­á­tak á hús­næði og inn­viðum borgarinnar.
5. Reykja­víkur­borg fari í markaðs­á­tak í höfuð­borginni í sam­starfi við ferða­þjónustu og ríki þegar að­stæður skapast.

Þessar til­lögur eru þess eðlis að allir ættu að geta verið sam­mála um þær sama í hvaða flokki þeir standa. Nú er tæki­færi fyrir borgar­stjórn að sýna sam­stöðu og styrk.

Borginni ber að leiða

Svipaðar hug­myndir hafa verið ræddar hjá öðrum sveitar­fé­lögum, en Reykja­víkur­borg er lang­stærsta sveitar­fé­lagið og ber að leiða þessi mál. Í dag á jafn­framt að taka fyrir nýja ferða­mála­stefnu borgarinnar. Rétt væri að endur­skoða hana í ljósi breyttra að­stæðna. For­sendur hafa gjör­breyst á fáum vikum. Nú er þörf á björgunar­bátum og súr­efni. Þar gegnir borgin lykil­hlut­verki, enda ferða­manna­borg. Háir fast­eigna­skattar og há gjöld þarf að endur­skoða. Hvert starf skiptir máli. Stöndum saman í að verja störfin. Þau eru kjöl­festa heimilanna. Þau eru undir­staða borgarinnar.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. mars 2020.