Treystum fólkinu

Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

Gott sam­fé­lag bygg­ist á trausti. Borg­ar­stjórn sem nýt­ur trausts hef­ur gott umboð til verka. Aðeins 17% treysta nú­ver­andi borg­ar­stjórn ef marka má kann­an­ir Gallup. Traust á milli aðila er oft gagn­kvæmt. Nú­ver­andi borg­ar­meiri­hluti hef­ur á köfl­um lokað sig af. Ekki hlustað á radd­ir borg­ar­búa. Kjara­deil­ur hafa verið ill­víg­ar og mikið verið um deil­ur og kær­ur. Rekstr­araðilar við Lauga­veg­inn hafa upp­lifað sig af­skipta. Þar hafa borg­ar­yf­ir­völd ekki skirrst við að hækka gjöld á rekstr­araðila. Þyngst vega fast­eigna­gjöld­in sem hafa lagst af mikl­um þunga á þjón­ustu í borg­inni. Gild­ir þá einu hvort menn eiga hús­næðið eða ekki. Þeir sem leigja hús­næði fá reikn­ing­inn með hærri húsa­leigu. Aðgengi að versl­un­um og veit­inga­stöðum í miðborg­inni hef­ur vís­vit­andi verið skert af borg­ar­yf­ir­völd­um. Þvert á vilja þeirra sem reka versl­an­irn­ar. Lok­an­ir vegna fram­kvæmda og ekki síður lok­an­ir vegna mis­ráðinna skipu­lags­ákv­arðana. Van­traust hef­ur auk­ist milli þeirra sem vinna eiga sam­an. Ut­anaðkom­andi nátt­úru­vá er eitt. Mann­anna verk annað.

Létt­um byrðarn­ar

Það væri við hæfi þegar við glím­um við nýj­an kór­ónu­vírus að borg­in létti byrðunum af þeim sem berj­ast nú í bökk­um. Lækki gjöld­in og auki sveigj­an­leika. Öll plön eru í upp­námi og þá ber borg­inni að bregðast við. En ekki að bregðast. Nú er rétti tím­inn að lækka fast­eigna­skatta. Treysta fólki og fyr­ir­tækj­um. Ríkið hef­ur riðið á vaðið og boðar lækk­un gjalda og skatta. Rík­is­stjórn­in og Seðlabank­inn sjá hvaða þýðingu stærsti út­flutn­ings­at­vinnu­veg­ur­inn hef­ur fyr­ir okk­ur öll. Þor­steinn Víg­lunds­son, þingmaður Viðreisn­ar, kallaði í Kast­ljósi eft­ir frek­ari aðgerðum. Það er von­andi að full­trú­ar Viðreisn­ar í borg­ar­stjórn svari því kalli. Ferðaþjón­ust­an hef­ur verið stærsti búhnykk­ur borg­ar­inn­ar frá banka­hruni. Um­svif ferðaþjón­ust­unn­ar hafa lyft út­svar­s­tekj­um, fast­eigna­gjöld­um og sölu bygg­ing­ar­rétt­ar í millj­arðavís. Ef rétt væri að ferðaþjón­ust­an væri baggi í rekstri borg­ar­inn­ar ætti borg­in að bú­ast við mikl­um hagnaði af niður­sveifl­unni. All­ir vita að það verður ekki. Í „meiri­hluta­sátt­mála“ seg­ir: „Sér­stak­lega verður hugað að góðum teng­ing­um, sam­ráði og sam­starfi við at­vinnu­líf borg­ar­inn­ar.“ Nú er til­efni til að efna þessi heit. Nú er tími til að treysta und­ir­stöður at­vinnu­lífs­ins. Án at­vinnu­lífs­ins er eng­in borg. Treyst­um fólk­inu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. mars 2020.