Sterk staða í mótbyr

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Það þarf ekki sérþekk­ingu til að átta sig á því að blik­ur eru á lofti í efna­hags­mál­um hér á landi líkt og í heim­in­um öll­um. En ólíkt flest­um öðrum lönd­um erum við á Íslandi í sterkri stöðu til tak­ast á við áskor­an­ir sem eru fram und­an. Skyn­sam­leg og fum­laus viðbrögð í pen­inga- og rík­is­fjár­mál­um skipta sköp­um.

Kór­ónu­veir­an ætl­ar að reyn­ast alþjóðlegu efna­hags­lífi þyngri í skauti en nokk­ur reiknaði með, jafn­vel hinir svart­sýn­ustu. Á mánu­dag lækkaði gengi allra ís­lenskra hluta­bréfa í Kaup­höll­inni. Um all­an heim byrjaði vik­an illa. Lækk­un­in var sú mesta á ein­um degi frá því að Lehm­an Brot­h­ers hrundi árið 2008. Í London féllu hluta­bréf um 8% og í Banda­ríkj­un­um lækkaði gengi fjár­mála­fyr­ir­tækja um 7%. Mánu­dags­ins 9. mars verður lík­lega minnst sem svarta mánu­dags.

Bónd­inn safn­ar korni

Eitt meg­in­mark­mið hag­stjórn­ar er að búa svo um hnút­ana að hag­kerfi geti tek­ist á við það óvænta – að hægt sé að sigla í gegn­um efna­hags­lega erfiðleika. Þegar gef­ur á bát­inn í efna­hags­mál­um kem­ur bet­ur í ljós en áður hversu skyn­sam­lega haldið hef­ur verið á rík­is­fjár­mál­um á síðustu árum. Fyr­ir tæpu ári orðaði ég þetta þannig að allt frá 2013 hafi bónd­inn í fjár­málaráðuneyt­inu verið dug­leg­ur við að safna korni í hlöður til að mæta mögr­um árum. Hann hafi ekki fallið í þá freist­ingu að eyða búhnykk og hval­rek­um í póli­tískt stund­argam­an.

Árang­ur­inn: Staða rík­is­sjóðs hef­ur gjör­breyst á síðustu árum. Í lok árs 2011 námu skuld­ir rík­is­sjóðs um 86% af vergri lands­fram­leiðslu. Við lok síðasta árs var hlut­fallið komið niður í tæp 22%. Er­lend staða þjóðarbús­ins er einnig sterk. Um­skipt­in eru ótrú­leg. Árið 2015 var staðan nei­kvæð um 5% af lands­fram­leiðslu en er nú já­kvæð um 25%. Er­lend staðan hef­ur aldrei verið betri. Gjald­eyr­is­forði Seðlabank­ans er um 28% af lands­fram­leiðslu.

Góð staða rík­is­sjóðs, ríf­leg­ur gjald­eyr­is­forði, mikl­ar er­lend­ar eign­ir og sú staðreynd að ís­lenska banka­kerfið er óvenju­lega vel fjár­magnað, gef­ur Íslend­ing­um mögu­leika til kröft­ug­ar viðspyrnu þegar krepp­ir að. Og kannski munu þeir sem hafa talið það lausn allra vanda­mála að henda krón­unni og taka upp evru læra að meta mik­il­vægi þess að vera full­valda þjóð í pen­inga­mál­um.

Til skamms tíma

Þegar þetta er skrifað ligg­ur ekki fyr­ir til hvaða aðgerða stjórn­völd grípa á næst­unni til að vinna gegn efna­hags­leg­um áföll­um. Verk­efnið er hins veg­ar nokkuð skýrt.

Það verður að slaka á aðhaldi pen­inga­mála, lækka eig­in­fjár­kröf­ur bank­anna til jafns við það sem ger­ist í sam­keppn­islönd­um okk­ar, af­nema eig­in­fjárauka og end­ur­skoða lausa­fjár­bind­ingu. Þannig verður auknu súr­efni hleypt út í efna­hags­lífið í gegn­um fjár­mála­kerfið. Lækk­un vaxta er einnig skyn­sam­leg við ríkj­andi aðstæður. Gengi krón­unn­ar hef­ur gefið eft­ir á síðustu vik­um. Veik­ara gengi er hluti af aðlög­un efna­hags­lífs­ins og styrk­ir stöðu sam­keppn­is­greina – ferðaþjón­ust­unn­ar og út­flutn­ings­fyr­ir­tækja.

Í rík­is­fjár­mál­um verður að slaka á klónni. Koma til móts við fyr­ir­tæki sem glíma við tíma­bundna erfiðleika og létta und­ir með heim­il­un­um. Lækk­un skatta – tíma­bund­in og til fram­búðar – skipt­ir þar miklu.

Til lengri tíma

Sam­kvæmt fjár­lög­um nema fram­lög til fjár­fest­inga rík­is­ins ríf­lega 78 millj­örðum á þessu ári og hafa auk­ist um rúma 27 millj­arða að raun­gildi frá ár­inu 2017. Rík­is­stjórn­in hef­ur þegar gefið til kynna að fjár­fest­ing í innviðum verði auk­in enn meira á þessu og kom­andi árum. Með öðrum orðum: Það verður stigið á bens­ín­gjöf­ina.

Með sama hætti og lægri skuld­ir bæta hag al­menn­ings er mik­il­vægt að innviðir séu byggðir upp og stoðir hag­vaxt­ar styrkt­ir. Það skipt­ir hins veg­ar miklu í hvaða innviðum er fjár­fest og með hvaða hætti.

Í niður­sveiflu – slaka í efna­hags­líf­inu – er tæki­færi til að byggja upp til framtíðar. Ég hef, ásamt fé­lög­um mín­um, bar­ist fyr­ir því í mörg ár, að umbreyta ákveðnum eign­um rík­is­ins í hagræna innviði. Raun­ar hef ég gengið svo langt að halda því fram að á kom­andi árum eigi fjár­mögn­un hagrænna innviða fyrst og fremst að vera í formi umbreyt­ing­ar á eign­um rík­is­ins (sala hluta­bréfa, fast­eigna, jarða o.s.frv.) og í gegn­um sam­starfs­verk­efni við stofnana­fjár­festa (líf­eyr­is­sjóði og aðra fjár­festa). Um leið ger­ist hið aug­ljósa. Svig­rúm rík­is­sjóðs til að ráðast í fjár­fest­ingu í fé­lags­leg­um innviðum (s.s. skól­ar og heil­brigðis­stofn­an­ir) eykst.

Í viðtali við hlaðvarp ViðskiptaMogg­ans í síðustu viku varpaði ég fram þeirri hug­mynd að komið yrði á fót innviðasjóði rík­is­ins og að eig­in­fjár­fram­lag yrði a.m.k. helm­ings hlut­ur í Íslands­banka. Innviðasjóður­inn fjár­magni innviðaverk­efni ým­ist einn eða í sam­starfi við stofnana­fjár­festa um ein­stök verk­efni. En mestu skipti í hvaða innviðum fjár­fest er. „Þú get­ur fjár­fest í ein­hverri stein­steypu, bygg­ingu, sem kall­ar síðan í sjálfu sér á auk­in rík­is­út­gjöld í framtíðinni. Ég er ekki þar. Ég vil að við ein­beit­um okk­ur að því að setja fjár­muni í að byggja upp hagræna innviði sem eru arðbær­ir, létta und­ir með at­vinnu­líf­inu, létta und­ir með ein­stök­um byggðum í land­inu. Þar horfi ég á sam­göng­urn­ar fyrst og fremst, fjar­skipt­in og flutn­inga­kerfi raf­orku.“

Til skemmri og lengri tíma er verk­efni stjórn­valda í senn ein­falt og flókið: Að hleypa súr­efni inn í at­vinnu­lífið og létta und­ir með heim­il­un­um í gegn­um skatt­kerfið. Okk­ur hef­ur tek­ist að búa svo um hnút­ana á síðustu árum að súr­efnið er til á flest­um tönk­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. mars 2020