Ný lyfjalög og frjáls sala lausasölulyfja

Vilhjálmur Árnason alþingismaður:

Nú er í meðför­um þings­ins frum­varp heil­brigðisráðherra til lyfja­laga en höfuðmark­mið lag­anna er að tryggja ör­yggi sjúk­linga, ekki síst af­hend­ingarör­yggi. Það er að nægi­legt fram­boð sé til staðar af nauðsyn­leg­um lyfj­um og dreif­ing lyfja á grund­velli eðli­legr­ar sam­keppni sé sem hag­kvæm­ust. End­ur­skoðun lyfja­lag­anna er löngu tíma­bær og ef vel tekst til má gera ráð fyr­ir að ný lyfja­lög verði sett til langs tíma. Gæði og ör­yggi lyfja og þjón­ust­unn­ar með þau skipt­ir miklu máli, sömu­leiðis auk­in fræðsla og for­varn­ir og að lyfja­kostnaði sé haldið í lág­marki. Lyfja­kostnaður sem hluti af út­gjöld­um er fasti, eða rétt rúm 8% af heild­ar­út­gjöld­um í ár. Þrátt fyr­ir umræðu um háan lyfja­kostnað, þá er vert að at­huga að heild­ar­mynd­in breyt­ist jafn­an ekki milli ára því eldri lyf lækka í kostnaði, ekki síst vegna sam­heita­lyfja.

Að mínu mati er bráðnauðsyn­legt að gera breyt­ing­ar á frum­varpi til lyfja­laga sem heim­il­ar frjálsa sölu lausa­sölu­lyfja og ekki er gert ráð fyr­ir í þeim frum­varps­drög­um sem vel­ferðar­nefnd hef­ur til meðferðar. Hag­stæðasta lyfja­verðið verður aðeins tryggt með sam­keppni og í því skyni mætti með til­tölu­lega ein­föld­um hætti breyta lyfja­lög­um á þann veg að Lyfja­stofn­un fái heim­ild til að veita al­menn­um versl­un­um und­anþágu til að selja lausa­sölu­lyf og bæta þar með þjón­ust­una við al­menn­ing, ekki síst í hinum dreifðari byggðum þar sem víða er langt á milli lyfja­búða og af­greiðslu­tími þeirra tak­markaður. Það er auðvitað frá­leitt að fólk geti ekki nálg­ast slík lyf, sem notuð eru í hvers­dags­leg­um til­gangi og hægt er að kaupa án lyf­seðils, nema að apó­tek sé í grennd. Það er mikið hags­muna­mál og spurn­ing um lífs­gæði fólks um land allt að aðgengi að lausa­sölu­lyfj­um sé greitt.

Það er trú mín að þessi breyt­ing á lög­un­um sem nú eru til um­fjöll­un­ar auki bæði sam­keppni og lækki verð til neyt­enda. Um leið eykst fram­boð lausa­sölu­lyfja um land allt sem bæt­ir þjón­ust­una og eyk­ur lífs­gæði og ör­yggi. Því spyr ég, er eft­ir ein­hverju að bíða?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. mars 2020.