Mótmæla ferðabanninu harðlega

Íslensk stjórnvöld hafa í morgun komið á framfæri hörðum mótmælum við aðgerðum sem bandarísk stjórnvöld kynntu í gærkvöldi. Þær fela í sér komubann ferðamanna sem dvalið hafa í Schengen-ríkjum og munu geta haft alvarleg áhrif á Íslandi, einkum fyrir ferðaþjónustu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Þar segir einnig að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafi í morgun átt samtal við sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi og í kjölfarið fund með staðgengli hans til að koma mótmælum íslenskra stjórnvalda á framfæri við bandarísk stjórnvöld.

„Ráðherra hefur í þessum samtölum við bandarísk stjórnvöld lagt á það ríka áherslu að Ísland verði undanþegið ákvæðunum í ljósi landfræðilegrar sérstöðu sinnar og víðtækra aðgerða sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til til að hefta útbreiðslu COVID-19 hér á landi,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur einnig fram að Guðlaugur Þór hafi óskað eftir fundi í utanríkismálanefnd við fyrsta tækifæri til að ræða þá stöðu sem upp er komin.