Dásamleg forréttindi að eiga kristna trú

Brynjar Þór Níelsson alþingismaður:

Fyr­ir stuttu lét ég í veðri vaka í ræðustól þings­ins að nauðsyn­legt væri að lesa bibl­íu­sög­ur til að vera sæmi­lega læs á tungu og menn­ingu þjóðar­inn­ar. Auðvitað brugðust þeir illa við sem lagt hafa alla sína orku í að afmá úr sam­fé­lag­inu allt sem teng­ist krist­inni trú, og mót­mæltu há­stöf­um. At­hygli mín var vak­in á ný­leg­um skrif­um Jóns G. Friðjóns­son­ar pró­fess­ors um áhrif Biblí­unn­ar á ís­lenska tungu og menn­ingu. Jóni voru á síðasta ári veitt verðlaun Jónas­ar Hall­gríms­son­ar fyr­ir fram­lag sitt til kennslu, rann­sókna og fræðiskrifa um ís­lenska tungu. Jón G. Friðjóns­son er ekki þekkt­ur fyr­ir að fara með fleip­ur. Jón seg­ir m.a.:

„Ekk­ert eitt rit hef­ur haft jafn mik­il áhrif á ís­lenska tungu og menn­ingu og Bibl­í­an, en mynd­mál Biblí­unn­ar brengl­ast fljótt ef það hverf­ur úr náms­efni grunn­skól­anna því það læra börn­in sem fyr­ir þeim er haft.“

Þeir sem mest am­ast við krist­inni trú og hafa komið því til leiðar að hún er nán­ast horf­in úr nám­skrá grunn- og fram­halds­skóla og ekki síður hinir sem hafa látið það viðgang­ast, mættu gefa því gaum hvort þekk­ing á krist­in­fræði geti skipti máli fyr­ir skiln­ing okk­ar á ís­lensk­unni og þeirri menn­ing­ar­arf­leifð sem við byggj­um á. Hvort það geti verið að þekk­ing á krist­in­fræði sé nauðsyn­leg for­senda til skiln­ings á tungu okk­ar, vest­rænni menn­ingu, sam­fé­lagi og gild­is­mati.

Fræðsla og trú­boð

Þeir sem hafa haft mest áhrif í þess­um efn­um gera lít­inn grein­ar­mun á fræðslu ann­ars veg­ar og trú­boði hins veg­ar. Mark­mið með krist­in­fræði og trú­ar­bragðafræði er ekki að inn­ræta trú held­ur að kynna og miðla þekk­ingu á hug­mynda­heimi og raun­veru­leika sem hef­ur mótað sögu okk­ar og menn­ingu í ald­anna rás. Trú­ar­inn­ræt­ing fer fyrst og fremst fram inni á heim­il­um, eða á veg­um kirkj­unn­ar og annarra trú­fé­laga.

Krist­in trú skipt­ir máli

Það er ekki ein­ung­is ís­lensk tunga sem nýt­ur góðs af þekk­ingu okk­ar á krist­inni trú held­ur ýms­ar fræði- og list­grein­ar. Þeir sem kenna bók­mennt­ir þurfa að reiða sig á grund­vall­arþekk­ingu á kristn­um fræðum og sama á við um mann­kyns­sögu, mynd­list og ýms­ar aðrar fræði- og list­grein­ar. Það er því ekki úr vegi að þeir sem bera ábyrgð á kennslu í land­inu beiti áhrif­um sín­um til þess að reyna að auka grunnþekk­ingu á kristn­um fræðum í skól­um lands­ins.

For­rétt­indi

Það eru mik­il for­rétt­indi að búa í kristnu sam­fé­lag eins og Kristján Eld­járn benti á og Hjálm­ar Jóns­son dóm­kirkjuprest­ur rifjaði upp eitt sinn í pre­dik­un fyr­ir setn­ingu Alþing­is. Kristján sagði svo árið 1980.

„Við Íslend­ing­ar, hvort sem við erum veik­ari eða sterk­ari í trúnni ætt­um að lofa for­sjón­ina fyr­ir það að við skul­um til­heyra hinum kristna hluta mann­kyns­ins í þess­um ekki allt of góða heimi – að við búum við hugs­un­ar­hátt, þjóðlíf og menn­ingu sem um ald­ir hef­ur mót­ast af krist­inni trú og krist­inni kirkju. Þetta eru dá­sam­leg for­rétt­indi sem aðeins nokk­ur hluti jarðarbúa nýt­ur. Þetta held ég að hver ís­lensk­ur maður ætti að gera sér ljóst og íhuga í al­vöru.“

Eig­um við ekki að fara að þess­um ráðum og íhuga þetta í al­vöru?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. mars 2020