Óþörf viðbótarrefsing

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Þegar ein­stak­ling­ar hljóta fang­els­is­dóm gera marg­ir ráð fyr­ir því að afplán­un fylgi fljót­lega í kjöl­farið. Því miður er það ekki raun­in því biðtími eft­ir fang­elsis­vist get­ur verið nokkuð lang­ur. Það á einkum við um þá sem hafa framið smærri af­brot. Fang­els­ispláss­um er for­gangsraðað með þeim hætti að þar eru nær ein­göngu sí­brota­menn og fang­ar sem afplána fyr­ir al­var­leg­ustu brot­in.

Um 550 manns eru nú á boðun­arlista Fang­els­is­mála­stofn­un­ar og get­ur biðin tekið allt upp í fimm ár. Þetta er auðvitað óviðun­andi ástand fyr­ir alla þá sem eiga hlut að máli. Fyr­ir flesta er það að hljóma refsi­dóm þungt áfall og óviss­an um það hvenær hægt er að hefja afplán­un ger­ir dómþolum erfitt fyr­ir og veld­ur þeim mikl­um sál­ar­kvöl­um. Það er ekki til­gang­ur rétt­ar­kerf­is­ins því við vilj­um að all­ir eigi mögu­leika á því að koma lífi sínu í lag.

Fæl­ing­ar­mátt­ur mögu­legr­ar fang­elsis­vist­ar verður minni þegar vitað er að bið eft­ir fang­elsis­vist get­ur tekið nokk­ur ár. Löng bið eft­ir afplán­un get­ur haft í för með sér fyrn­ingu refs­ing­ar. Á sama tíma eru einnig dæmi þess að ein­stak­ling­ar hafi náð bata, t.d. frá áfeng­is- og vímu­efna­neyslu, en eiga síðan eft­ir að afplána nokkr­um árum síðar. Það er eng­um greiði gerður með þessu fyr­ir­komu­lagi, hvorki viðkom­andi ein­stak­ling­um né sam­fé­lag­inu í heild.

Reynt hef­ur verið að bregðast við þess­um vanda með ýms­um hætti. Nýtt og full­komið fang­elsi var opnað á Hólms­heiði fyr­ir ör­fá­um árum. Rým­um í opn­um fang­els­um hef­ur verið fjölgað, skil­yrði fyr­ir reynslu­lausn hafa verið rýmkuð gagn­vart ung­um föng­um eft­ir þriðjung refsi­tíma og auk­in áhersla hef­ur verið lögð á afplán­un utan fang­elsa með sam­fé­lagsþjón­ustu og ra­f­rænu eft­ir­liti. Þrátt fyr­ir allt þetta hef­ur ekki tek­ist að ná ásætt­an­leg­um ár­angri hvað varðar stytt­ingu biðtíma eft­ir afplán­un.

Til að bæta úr þessu hafa verið rædd­ar ýms­ar hug­mynd­ir, t.d. að bæta tíma­bundið við af­kasta­getu við afplán­un refsi­dóma með nýt­ingu á fanga­klef­um sem til eru, til afplán­un­ar stuttra dóma, eða með öðrum hús­næðisúr­ræðum. Einnig hvort fjölga ætti rým­um í opn­um fang­els­um. Þá þyrfti einnig að skoða hvort auka eigi sam­fé­lagsþjón­ustu og ra­f­rænt eft­ir­lit enn frek­ar og skoða hvernig brugðist hef­ur verið við sams kon­ar vanda­mál­um meðal ná­grannaþjóða okk­ar á Norður­lönd­um.

Í því skyni að greina þetta vanda­mál og finna leiðir til að ná betri ár­angri mun ég í dag skipa fimm manna átaks­hóp sem skila á til­lög­um í vor, bæði að lausn­um til skemmri og lengri tíma. Við vilj­um stuðla að betr­un þeirra sem hafa mis­stigið sig í líf­inu og við þurf­um að laga þenn­an vanda. Það er ekki og hef­ur aldrei verið til­gang­ur sam­fé­lags­ins að bæta viðbót­ar­refs­ingu á þá ein­stak­linga í sam­fé­lag­inu sem hlotið hafa fang­els­is­dóm.

Greinin var fyrst birt í Morgunblaðinu 9. mars 2020.